Saturday, April 20, 2024
HomeErlentUFC 194: Chris Weidman gegn Luke Rockhold

UFC 194: Chris Weidman gegn Luke Rockhold

weidman rockholdVið höldum áfram upphitun okkar fyrir UFC 194. Í öllum æsingnum út af bardaga Gunnars Nelson og aðalbardaga kvöldsins hefur einn rosalegasti bardagi ársins aðeins orðið undir í umfjölluninni.

Millivigt – Chris Weidman (13-0) gegn Luke Rockhold (16-2)

Viðureign Chris Weidman og Luke Rockhold er fullkomlega tímasett. Þarna mætast tveir Bandaríkjamenn, báðir 31 árs gamlir og báðir búnir að vinna vel fyrir sinni stöðu í þyngdarflokknum með sigrum á hættulegum andstæðingum. Báðir eru með svart belti í brasilísku jiu-jitsu og eru öflugir bæði á gólfinu og standandi.

Þessi bardagi er stál í stál. Eitt af því sem gerir hann svo heillandi er að báðir menn trúa því 100% að þeir séu betri og munu sigra með yfirburðum. Yfirleitt hafa þeir rétt fyrir sér en í þetta skipti þarf eitthvað að gefa sig.

weidman

Chris Weidman er maðurinn sem stöðvaði eimreið Anderson Silva, fyrst með rothöggi sem vankaði MMA heiminn og svo eftir dramatískt fótbrot Silva. Síðan þá hefur hann afgreitt Lyoto Machida og Vitor Belfort og fest sig í sessi sem millivigtarmeistari UFC.

Weidman er fyrst og fremst sterkur glímumaður enda með bakgrunn í ólympískri glímu. Hann er með góðar fellur og notar góða pressu ofan á. Auk þess beitir hann höggum í gólfinu með góðum árangri og uppgjafartökum eins og D´arce hengingu sem hann notaði gegn Tom Lawlor. Standandi er Weidman þokkalegur en býr yfir hættulegum vopnum eins og vinstri króknum sem rotaði Anderson Silva og hægri olnboganum sem frysti Mark Munoz. Hans helsti styrkleiki standandi er hins vegar fótavinnan. Hann er með afar góða tæknilega pressu eins og sjá mátti hvernig hann króaði Lyoto Machida af við búrið er þeir mættust (sjá hreyfimynd neðar).

chris weidman lyoto machida pressa

Nokkrir hlutir til að hafa í huga:

  • Weidman er einstaklega sterkur andlega, eiginleiki sem margir telja að muni færa honum sigurinn gegn Rockhold
  • Meðalaldur Silva, Machida og Belfort þegar þeir mættu Weidman var 37 ára. Luke Rockhold er á besta aldri, 31 árs
  • Weidman hefur aldrei verið léttari sem getur verið slæmt þar sem Rockhold er risastór fyrir þyngdarflokkinn

weidman-v-belfort1

silva

Luke Rockhold er fyrrum Strikeforce meistari. Titilinn vann hann árið 2011 gegn ‘Jacare’ Souza sem gæti orðið næsti andstæðingur ríkjandi meistara sigri hann Yoel Romero á laugardaginn. Rockhold tapaði árið 2013 fyrir Vitor Belfort með brjáluðu snúnings hælsparki sem kom honum að óvörum. Fyrir utan það tap hefur hann sigrað 13 bardaga á sjö árum – að mestu gegn mjög góðum andstæðingum.

Luke Rockhold er yfirvegaður bardagamaður og er þekktur fyrir góð spörk. Hann er hávaxinn og notar gott fjarlægðarskyn til að koma inn höggum og spörkum í skrokkinn. Rockhold stendur í örvhentri stöðu þrátt fyrir að vera rétthentur. Tvö af hættulegustu vopnunum hans eru hægri krókurinn og vinstra sparkið. Þannig sáum við hann sigra Costas Philippou af miklu öryggi.

Rockhold er líkamlega sterkur og mjög hæfur í gólfinu en hann hefur klárað síðustu þrjá bardaga sína með uppgjafartaki.

luke

Nokkrir hlutir til að hafa í huga:

  • Rockhold valtaði yfir Lyoto Machida og kláraði hann í 2. lotu. Weidman fór fimm erfiðar lotur á móti Machida
  • Rockhold hefur þegar sigrað nokkra mjög góða glímumenn eins og Tim Kennedy og ‘Jacare’ Souza
  • Weidman er ósigraður en tap gegn Vitor Belfort gerði Rockhold nánast sturlaðan

rock sub

luke cp

Spá MMA frétta: Allir bardagar byrja standandi. Rockhold mun hafa betur sem leiðir að fellu hjá Weidman. Nái hann fellunni, sem er ekki gefið, ætti Rockhold að geta varist og komið sér upp nokkuð fljótlega. Standandi notar Rockhold faðmlengdina og klárar Weidman í þriðju eða fjórðu lotu og við fáum nýjan meistara í millivigt.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular