Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaUpphitun: UFC Fight Night 30 - Machida vs. Munoz (fyrsti hluti)

Upphitun: UFC Fight Night 30 – Machida vs. Munoz (fyrsti hluti)

UFN 30

 

Um næstu helgi fer fram UFC Fight Night: Machida vs. Munoz í Manchester. Hér á MMAfréttum munum við vera með upphitun í vikunni þar sem farið verður yfir helstu bardagana og við hverju megi búast í þeim. Þetta verður fyrsti UFC viðburðurinn í Evrópu þar sem konur mætast, en Rosi Sexton og Jessica Andrade mætast í bantamvigtinni.

Í dag verður fjallað um fyrstu þrjá bardagana á aðalkortinu.

Phil Harris vs John Lineker (Fluguvigt)

Í fyrsta bardaga kvöldsins á aðalkortinu mætast heimamaðurinn Phil Harris og brasilíumaðurinn (með hið einstaklega óbrasilíska nafn) John Lineker. Þessir kappar eru í fluguvigtinni, sem er af mörum talinn sá þyngdarflokkur sem vantar sárlega hæfileikaríka bardagamenn. Fluguvigtin er nýlegur þyngdarflokkur í UFC, auk þess að vera sá næst fámennasti á eftir kvennaflokknum. Það þýðir því jafnframt að leiðin að titlinum er styttri en í mörgum öðrum þyngdarflokkum.

John Lineker (22-6-1) er mjög þunghöggur og hefur unnið 10 af 22 bardögum með rothöggi. Hann er talinn sigurstranglegri af flestum en verður þó með aðdáendur á móti sér, þar sem Harris er heimamaður. Lineker hefur unnið þrjá bardaga í röð og sigur gegn Harris myndi fleyta honum nær titilbardaga. Hann þarf þó nauðsynlega að ná þyngd þar sem hann hefur í tvo skipti ekki náð 125 punda takmarkinu.

Phil Harris (22-10-1) er sterkastur í gólfglímunni og hefur klárað 13 af 22 bardögum með uppgjöf. Þetta er í annað sinn á árinu sem Harris berst í heimalandi sínu, Bretlandi, en hann sigraði Ulysses Gomez í London í Febrúar.

Spá MMAfrétta: Lineker sigrar með tæknilegu rothöggi.

 

Alessio Sakara vs. Nicholas Musoke (Millivigt)

Í millivigtinni mætast hinn reyndi  Alessio Sakara (15-10) frá Ítalíu og sænski nýliðinn Nicholas Musoke (10-2-1).

Sakara er búinn að tapa þrem bardögum í röð gegn Chris Weidman, Brian Stann og Patrick Coté. Hann hefur ekki unnið bardaga síðan í Mars 2010 og þarf því nauðsynlega á sigri að halda ætli hann sé að tóra áfram í UFC. Engu að síður er Sakara höggþungur og hefur sigrað 9 af 15 bardögum sínum með rothöggi. Hann er einnig með 9 atvinnumannabardaga í boxi á bakinu og hefur aðeins tapað einum þeirra. Auk þess er hann með svart belti í BJJ en hefur þrátt fyrir það sjaldnast snúið sér að uppgjafartökum til að sigra bardaga. Hann er einskonar ‘headhunter’ sem leitar að rothögginu í hvert sinn.

Eftir að svíinn Magnus Cedenblad meiddist var Musoke fenginn til að leysa hann af. Musoke er að þreyta frumraun sína í UFC en hann hefur sigrað 10 bardaga og aðeins tapað tveim. Hann er búinn að klára síðustu þrjá af sex bardögum sínum, þar af tvo með uppgjöf. Þá hefur hann rotað fjóra andstæðinga sína og er hann því hæfileikaríkur á öllum sviðum MMA. Musoke mun þurfa að forðast rothögg frá Sakara og verður fróðlegt að sjá hvort Musoke reynir að taka bardagann í gólfið. Með sigri gæti Musoke tryggt sér orðstír í UFC með því að sigra þekkt nafn.

Spá MMAfrétta: Sakara verður að passa sig að vanmeta ekki nýliðann en sigrar að lokum með rothöggi.

 

Norman Parke vs. Jon Tuck (Léttvigt)

Í léttvigtinni mætast hinn Norður-Írski Norman Parke (18-2) og John Tuck (7-0) frá Guam. Tuck er fyrsti keppandinn frá Guam til að keppa í UFC, en þar búa aðeins um 160 þúsund manns.

Norman Parke sigraði Ultimate Fighter: The Smashes, þar sem Bretar og Ástralir kepptust um Ultimate Fighter titilinn. Þá var hann Cage Contender léttvigtarmeistarinn árið 2011. Parke er með júdóbakgrunn og æfir undir Robert Drysdale í Las Vegas. Parke hefur unnið síðustu átta bardaga sína og kemur því í þennan bardaga á töluverðu skriði, en hann hefur sigrað 12 af 18 bardögum sínum með uppgjöf og er því nokkuð fær í gólfglímunni.

Hinn 29 ára Jon Tuck er ósigraður í MMA með sjö sigra. Hann er líkt og Parke fær í gólfglímunni og vann gullverðlaun í opna flokknum á World Professional Jiu-Jitsu Cup í Abu Dhabi árið 2010 sem brúnbeltingur.

Parke er töluvert reyndari en Tuck og spurning hvort það geri herslumuninn í þessum bardaga. Báðir eru þeir flinkir í uppgjafarglímu og gæti verið gaman að sjá þá heyja baráttu á gólfinu. Líklega mun Parke þó nýta reynsluna og halda bardaganum standandi og vinna á dómaraúrskurði.

Spá MMAfrétta: Parke vinnur á dómaraúrskurði.

Á morgun munum við taka fyrir Jimi Manuwa vs. Ryan Jimmo og Ross Pearson vs. Melvin Guillard. Á föstudaginn verður svo farið yfir aðalbardaga kvöldsins þar sem Lyoto Machida og Mark Munoz mætast, en sá bardagi verður frumraun Machida í millivigtinni.

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular