Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaViðtal: "Ég ætla að verða heims- og Ólympíumeistari"

Viðtal: “Ég ætla að verða heims- og Ólympíumeistari”

Karel og Sverrir
Karel og Sverrir.

Þau Ástrós Brynjarsdóttir, Sverrir Örvar Elefsen og Karel Bergmann Gunnarsson eru á leið á Heimsmeistaramót unglinga í taekwondo og úrtökumót fyrir Ólympíuleika æskunnar. Bæði mótin fara fram í Taívan í lok mars. Öll eru þau margfaldir Íslandsmeistarar og æfa með taekwondodeild Keflavíkur. Auk þess er Ástrós íþróttamaður Reykjanesbæjar, íþróttakona Keflavíkur og taekwondokona Íslands. Sverrir er einnig íþróttamaður Sandgerðis þar sem hann býr. Þau héldu út fyrr í vikunni en við tókum stutt tal á þeim krökkum áður en þau héldu út.

Hvað er Tækwando? Um hvað snýst það?

Karel: Taekwondo er skipt í tvo hluta, hefðbundið taekwondo og sport taekwondo. Hefðbundið Taekwondo vísar venjulega til bardagalistar sem fundin var upp í Suður-Kóreu. Sport taekwondo hefur þróast í áratugi og kann að hafa nokkuð mismunandi áherslur, sérstaklega hvað varðar áherslur hennar á hraða og samkeppni. Sport taekwondo er síðan skipt í tvo megin stíla. Aaron Cook og Steven Lopez eru þeir þekktustu í sport taekwondo í dag en taekwondo er einnig notað í öðrum íþróttum eins og t.d. MMA. Sem dæmi má nefna Anthony Pettis og Benson Henderson en þeir hafa báðir sterkan taekwondo bakgrunn og eru með svart belti.

sverrir
Sverrir Örvar

Hvaða mót eru þið að fara á?

Karel: Ég og Sverrir förum á Youth Olympics (úrtökumót fyrir Ólympíuleika æskunnar) og svo við förum við öll á HM. Mótin eru í Taívan og förum við út 16. mars næstkomandi. Á mótinu verða líklega fleiri en 100 keppendur og þetta er útsláttarkeppni. Ég keppi í 55-59 kg flokki, Ástrós keppir í 46-49 kg flokki og Sverrir í 51-55 kg flokki. Í keppninni erum við í hlífum sem verja okkur frá meiðslum og með brynju sem hægt er að skora á. Við erum í hlífum sem eru eins og sokkar og þurfum annað hvort að sparka á höfuð eða brynju til að fá stig. Eitt stig er gefið fyrir beint spark í brynju, tvö fyrir snúningsspörk, þrjú fyrir beint höfuðspark og fjögur fyrir snúningshöfuðspörk

Ástrós: Ég er 10 dögum of ung til að taka þátt í úrtökumótinu en það eru bara þeir sem eru fæddir 1997 og 1998 sem fá að keppa. HM verður haldið í New Tapei 20-26. mars og þar keppi ég.  Þar verður prufað nýtt átthyrnt keppnisgólf sem er eitthvað sem að við höfum ekki keppt á áður.  Ég veit ekki hvað það eru margir þátttakendur en það kemur í ljós á keppnisstað þegar við komum hvaða þjóðir koma.  Það er bara einn frá hverri þjóð sem að má keppa í hverjum þyngdarflokki þannig að ég má til dæmis alls ekki vera þyngri en 49 kg og ekki léttari en þyngdarflokkurinn fyrir neðan. Það skiptir miklu máli að hafa trú á sjálfum sér, gera sitt besta og hafa gaman af.

Hvar æfið þið og hve lengi hafið þið verið að æfa?

Ástrós: Við æfum öll með Keflavík og höfum æft saman frá því að við vorum í 2.bekk.  Við erum öll með 2.dan, sem er svart belti með tveimur röndum á.

Karel: Ég hef æft í u.þ.b átta ár en mér hefur aldrei liðið jafn vel síðan ég byrjaði í taekwondo. Ég er í frábæru formi, líður vel og er í góðum félagsskap.

Sverrir: Ég hef verið að æfa í Keflavík hjá Helga [Rafn Guðmundssyni] þjálfara mínum síðan ég var sjö ára.

Hvernig er undirbúningurinn fyrir mótið?

Karel: Við erum að æfa svona u.þ.b 8-10 æfingar á viku.

Sverrir: Undirbúningurinn er búinn að vera góður, mikið af auka æfingum og maður reynir að gefa allt í allar æfingar fram að þessu móti. Maður þarf að passa mataræðið vel því við erum öll skráð í þyngdarflokka og verðum að passa að við séum ekki að þyngjast.

Ástrós: Undirbúningur fyrir mótið hefur verið strangur.  Síðustu tvo mánuði hef ég farið á ca. 8 sparring æfingar á viku og 3 poomsae æfingar á viku.  Við leggjum áherslu á það sem að við erum góð í.  Einnig reynum við að vera fjölbreytt þannig að andstæðingurinn eigi erfiðara með að lesa mann.  Við skrifum niður það sem að við þurfum að bæta og reynum að leggja áheyrslu á það.  Ég er mjög upptekin af matarræðinu og borða ekkert nammi og engan skyndibitamat.  Mest hreinan mat, eins og kjúkling, fisk, kjöt og mikið af grænmeti.  Einnig borða ég mikið af ávöxtum, hnetum og mjólkurvörum.  Stundum verðum maður samt leiður á að borða alltaf bara hollt og sérstaklega þegar það er alveg að koma að þessu en þá þarf maður að passa sig extra vel og sleppa brauði og pasta og svona og þá verður þetta pínu leiðinlegt.

astros
Ástrós á sér þann draum að verða Evrópu- og heimsmeistari.

Eigið ykkur draum tengdan bardagaíþróttum?

Karel: Já, ég ætla að verða heims- og Ólympíumeistari.

Sverrir: Draumurinn minn í taekwondo er að verða heimsmeistari og komast á Ólympíuleikana 2020.

Ástrós: Draumurinn minn er að verða Evrópumeistari og heimsmeistari og væri svo alveg til í að fara á Ólympíuleikana 2020.

Hvað myndir þú ráðleggja þeim sem er að hugsa um að byrja í taekwondo?

Karel: Taekwondo er mjög skemmtileg íþrótt með góðan félagskap. Taekwondo hefur bætt sjálfstraustið mitt, þol, aga, og margt fleira. Margir halda að þetta sé kannski hættulegt eða vont en það er það alls ekki. Þessi íþrótt var með lægstu meiðslatíðnina á Ólympíuleikunum.

Ástrós: Prufið, ekki gefast upp þó að þið séuð ekki góð á fyrsta degi.  Þetta tekur tíma, þess vegna byrjum við öll með hvíta belitð og svo hækkum við upp eftir því betri sem við verðum.  Við verðum ekki góð ef við þorum aldrei að prufa neitt.  Þetta er ekki hættulegt en ég held að margir halda að þetta sé vont og hættulegt og því þora þeir ekki að byrja og þá sérstaklega stelpur. Það eru yfirleitt fáar stelpur sem byrja og mjög fáar sem halda áfram.

Hver eru uppáhaldsbrögðin ykkar?

Karel: Tepuni það er mitt uppáhald!

Sverrir: Uppáhalds sparkið mitt er Tepuni

Ástrós: Ég á ekkert sérstakt uppáhaldsbragð en ég er góð í hausspörkum og gagnaárasum.

Hér að neðan má sjá Karel taka Tepuni sparkið.

Eitthvað að lokum?

Karel: Ég horfði á myndband með Steve Jobs segja þetta og það hefur hjálpað mér mikið að ná árangri: “If you live each day as if it were your last, someday you’ll most certainly be right. It made an impression on me… and since then, for the past 33 years I have looked in the mirror every morning and asked myself, ‘If today were the last day of my life, would I want to do what I’m about to do today.’ And whenever the answer has been, ‘no’ for too many days in a row, I know I need to change something. Remembering that you are going to die is the best way I know to avoid the trap of thinking you have something to lose.” Ég hugsa um þetta á hverjum degi og á hverjum morgni spyr ég mig að því sama og hann „Ef þetta er síðasti dagurinn minn á þessari jörð myndi ég vilja gera það sem ég ætla að gera í dag“ og ef svarið er „nei“ í of marga daga þá veit ég að ég þarf að breyta einhverju.

Við þökkum krökkunum kærlega fyrir þetta og óskum þeim góðs gengis á mótunum!

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular