Friday, April 19, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í maí 2016

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í maí 2016

Apríl mánuður var nokkuð skemmtilegur en nú fer að hitna í kolunum. Maí mánuður hefur upp á mikið að bjóða og markar upphafið af syrpu sem endar með UFC 200 í sumar.

Cris Cyborg berst loksins í UFC, Bellator er með spennandi kvöld þar sem Josh Thomson átti að berjast við Michael Chandler og Phil Davis skorar á King Mo. Langbesta bardagakvöld mánaðarins er UFC 198 en sá bardagi sem við bíðum mest eftir er auðvitað bardagi Gunnars Nelson sem fer fram eftir aðeins nokkra daga á UFC Fight Night 87.

ShogunAnderson

10. UFC 198, 14. maí – Maurício ‘Shogun’ Rua gegn Corey Anderson (léttþungavigt)

Shogun Rua hefur á köflum virkað gamall en kemur svo stundum á óvart eins og með frammistöðu sinni gegn Lil Nog í ágúst á síðasta ári. Corey Anderson er ekki með mikla reynslu en hann vann The Ultimate Fighter og hefur unnið þrjá harðjaxla í röð.

Spá: Þetta verður erfitt fyrir Rua. Anderson sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

renan-barao-stephens

9. UFC Fight Night 88, 29. maí – Renan Barão gegn Jeremy Stephens (fjaðurvigt)

Það er ekki langt síðan Renan Barão var einn af bestu pund fyrir pund bardagamönnum í heimi og talinn nær ósnertanlegur. Eftir tvö töp gegn T.J. Dillashaw er það allt breytt en Barão er þó engan veginn búinn enda aðeins 29 ára gamall. Hér mætir hann Jeremy Stephens sem er alltaf skemmtilegur og hefur oft verið vanmetinn. Stephens mun gera sitt besta til að rota Brassann en mun það takast?

Spá: Barão ætti að sigra þennan, sigur á stigum í fjörugum bardaga.

king mo davis

8. Bellator 154, 14. maí – Phil Davis gegn Muhammed Lawal (létt þungavigt)

„Mr. Wonderful“ Phil Davis sigraði sína fyrstu tvo bardaga í Bellator og þar með lítið mót. Davis átti að mæta Muhammed ‘King Mo’ Lawal í úrslitunum en því miður meiddist kóngurinn á síðustu stundu. Nú verður bætt úr þessu í eitt skipti fyrir öll.

Spá: Phil Davis sigrar á stigum og sannar sig sem glímukóngur Bellator.

silva hall

7. UFC 198, 14. maí – Anderson Silva gegn Uriah Hall (millivigt)

Við verðum að venjast því að sjá Anderson Silva í bardögum sem þessum. Hann er í raun orðinn hliðvörður (e. gatekeeper) í millivigt, sem er ekkert endilega slæmt. Þessi bardagi gæti orðið mjög skemmtilegur, þar sem Silva og Hall eiga það báðir til að koma með brjáluð tilþrif. Hann gæti reyndar líka ollið vonbrigðum ef þeir verða of varkárir, ætla báðir að beita gagnárásum og verða kannski hræddir við fljúgandi spörk frá hinum.

Spá: Hall sigrar á stigum í tæknilegum standandi bardaga.

Almeida-Garbrandt

6. UFC Fight Night 88, 29. maí – Thomas Almeida gegn Cody Garbrandt (bantamvigt)

Þessi ætti að verða rosalegur. Tveir ungir og efnilegir strákar mætast í bantamvigt. Báðir eru 24 ára og ósigraðir. „The Terminator“ Thomas Almeida er með talsvert fleiri bardaga á bakinu og einum fleiri en Garbrandt í UFC. Báðir hafa vakið athygli með frábærum tilþrifum svo þetta ætti að verða flugeldasýning.

Spá: Erfið spá en höldum okkur við þann reynslumeiri. Almeida sigrar á tæknilegu rothhöggi í annarri lotu.

Maia-Brown

5. UFC 198, 14. maí – Demian Maia gegn Matt Brown (veltivigt)

Matt Brown vildi þennan bardaga sem er aðdáunarvert en hættulegt eins og við vitum. Brown þarf á stórum sigri að halda svo Maia er stórt tækifæri fyrir hann. Brown hefur tapað níu sinnum á ferlinum með uppgjafartaki en þó eru fimm ár síðan síðast. Maia hefur unnið fjóra bardaga í röð og gæti loksins fengið titilbardaga sigri hann þennan.

Spá: Maia sigrar í fyrstu lotu með uppgjafartaki.

overeem arlovski

4. UFC Fight Night 87, 8. maí – Alistair Overeem gegn Andrei Arlovski (þungavigt)

Þesssi bardagi er aðalbardagi kvöldins í Rotterdam og á pappír á hann varla að geta klikkað. Báðir vilja standa, báðir eru höggþungir og báðir eru með veika höku. Það þýðir rothögg, nánast öruggt. Overeem er á sigurgöngu á meðan Arlovski tapaði sínum síðasta bardaga. Sigri Overeem er hann hér um það bil öruggur í titilbardaga úr því að Ben Rothwell tapaði gegn Junior dos Santos um daginn.

Spá: Overeem sigrar á rothöggi í fyrstu lotu og berst næst um beltið.

Jacare-vs-Belfort-Poster

3. UFC 198, 14. maí – Ronaldo Souza gegn Vitor Belfort (millivigt)

Hvaða útgáfa af Vitor Belfort mætir til leiks í maí? Bardaginn fer fram í Brasilíu svo það verður áhugavert að sjá hvort það verði orkuboltinn sem rotaði Luke Rockhold eða gamli kallinn sem Chris Weidman valtaði yfir. Jacare Souza er ekki eins mikið spurningarmerki, hann mætir alltaf til leiks svo það er eins gott fyrir Belfort að vera tilbúinn ef hann vill eiga möguleika.

Spá: Belfort á möguleika snemma en Souza ætti að lifa af og valta yfir hann. Souza sigrar í þriðju lotu eftir högg í gólfinu.

Werdum-Miocic

2. UFC 198, 14. maí – Fabrício Werdum gegn Stipe Miočić (þungavigt)

Fabricio Werdum er smá saman og á mjög lúmskan hátt búinn að stimpla sig inn sem besta þungavigtarbardagamann í sögu MMA. Hann hefur sigrað Fedor Emelianenko og Cain Velasquez og hefur nú sigrað sex bardaga í röð. Stipe Miočić ætti að verða erfiður andstæðingur en hann rotaði Mark Hunt og Andrei Arlovski í hans síðustu tveimur bardögum.

Spá: Allt getur gerst í þungavigt en Werdum ætti að verja beltið sitt að þessu sinni. Sigur á stigum.

gunnar nelson albert tumenov

1. UFC Fight Night 87, 8. maí – Gunnar Nelson gegn Albert Tumenov (veltivigt)

Albert Tumenov er granítharður Rússsi sem æfir eins og hellisbúi og étur nagla með rjóma í morgunmat. Veðbankarnir eru á móti okkar manni og eftir tvö töp í síðustu þremur bardögum þarf hann á sigri að halda. Orðið á götunni er að Gunnar hefur litið hrikalega vel út á æfingum svo það er engin ástæða til að örvænta. Gunnari hefur gengið vel á móti þessum stíl andstæðinga þó svo að engir tveir séu eins. Bardaginn ætti að verða hraður og spennandi. Sigurvegarinn verður sá sem nær inn þungu höggunum og heldur bardaganum þar sem honum hentar best.

Spá: Eftir spennandi fyrstu lotu þar sem báðir skiptast á höggum fer bardaginn í gólfið í annarri lotu og Gunnar sigrar með „armbar“ eða „rear naked choke“.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular