Skemmtilegu bardagakvöldi Cage Steel 38 var að ljúka fyrir skömmu þar sem fimm bardagamenn frá Reykjavík MMA börðust en bardagamenn frá Reykjavík MMA. Í morgun var líklegt að okkar menn væru með fjóra bardaga þar sem Hákon Örn Arnórsson, Yonatan Francisco Romero Cruz, Jhoan Salinas og Aron Leó Jóhannson voru með bókaða bardaga en svo bættist Aron Kevinson í hópinn tæpri klukkustund áður en hann svo barðist.
Kvöldið byrjaði vel hjá okkar mönnum en Hákon reið á vaðið og gerði sér lítið fyrir og rotaði andstæðing sinn Alex Tamas þegar um hálf mínúta var liðin af fyrstu lotu. Virkilega sterkur sigur hjá Hákoni sem virkaði aggresívur og skarpur á fótum, virkilega spennandi bardagamaður þarna á ferð.
Yonatan átti fyrsta bardaga á aðalhluta kvöldsins þar sem hann var að verja Bantam-belti sitt í áhugamannaflokki gegn Arnan Oliphant. Yonatan fór snemma í fellu í fyrstu lotu sem Oliphant stöðvaði og virtist það slá Yonatan út af laginu að ná ekki að stjórna Oliphant með glímutökum. Oliphant sigraði fyrstu tvær loturnar en Yonatan skrúfaði upp ákefðina og fór að elta Oliphant meira í þriðju lotu og sló villtum höggum sem virtust slá Oliphant út af laginu. Erfitt kvöld fyrir Yonatan sem var ólíkur sjálfum sér í fyrstu tveimur lotunum en Oliphant sigraði bardagann með einróma dómaraákvörðun.
Í næsta bardaga var Aron Kevinson mættur, hann tók bardagann með mjög stuttum fyrirvara og barðist við Ryan Shaw. Bardaginn var rólegur framan af, Shaw var með ágætis box og var að ná að lenda krókum þegar Aron var að vinna sig úr höggfjarlægð Shaw. Shaw náði sterkum vinstri krók á Aron sem tók hann aðeins úr jafnvægi og virtist Aron örlítið ragur eftir það. Í annarri lotu var greinilegt að Aron þurfti að koma inn sterkum höggum svo Shaw hugsaði sig tvisvar um áður en hann stigi inn í höggfjarlægð. Shaw var betri í lotunni og var Aron enn þá að trekkja sig í gang en var aðeins farinn að slá meira seinni hluta lotunnar. Þriðja lotan var önnur saga, Aron kom mjög ákveðinn inn í lotuna og var greinilega orðinn heitur að elta rothöggið. Á tímabili leit út fyrir að Aron myndi ná því en Shaw hélt út og sigraði bardagann með einróma dómaraákvörðun.
Jhoan Salinas var næstur í hringinn þar sem hann mætti Mason Yarrow þar sem Salinas var töluvert betri allan bardagann þangað til Yarrow náði að festa hann í þríhyrningsuppgjafartaki. Bardaginn byrjaði vel og leit Salinas virikilega vel út, var ákafur og aggressívur og var að ná inn höggum. Þannig gekk bardaginn þangað til Yarrow náði að festa Salins í uppgjafartaki, grátleg niðurstaða eftir annars flotta frammistöðu hjá okkar manni.
Aron Leó Jóhannsson átti síðasta bardaga kvöldsins af bardagamönnum Reykjavík MMA stöðvarinnar en hann var að berjast um Weltervigtartitil í atvinnumannaflokki. Aron Leó er að verða stjarna á meðal áhorfenda Cage Steel þó að ekki margir þekki nafnið hér á landi en það gæti breyst á næstu árum. Aron Leó barðist við Jonny Brocklesby sem sá aldrei til sólar og sýndi Aron Leó mikinn þroska og yfirvegun í þessum bardaga. Ef það var einhver mínúta í bardaganum sem áhorfendur hefðu getað haldið að Brocklesby ætti séns var það í fyrstu lotunni. Aron var betri á fótum og reyndi Brocklesby þá að fara í fellu en því hefði hann betur sleppt þar sem Aron hafði jafnvel meiri yfirburði í gólfinu en hann hafði á fótum. Önnur lotan var svipuð saga og sú fyrsta, Aron var betri á öllum sviðum sem endaði með uppgjafartaki. Þetta er sterkur sigur hjá Aroni sem bætir við stjörnumátt sinn og er spurning hversu langt hann getur farið.
Myndband af bardagakvöldinu má sjá í spilaranum hér að neðan.