Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaBolamótið: Sighvatur sigraði Tom Breese

Bolamótið: Sighvatur sigraði Tom Breese

Bolamótið fór fram í Mjölni í kvöld þar sem níu glímur fóru fram. Salurinn var smekkfullur og fóru frábærar glímur fram.

Svo kallaðar EBI reglur voru í gildi en þar eru engin stig og einungis hægt að sigra á uppgjafartaki. Þetta er í fyrsta sinn sem mót með slíkum reglum hefur verið haldið hér á landi.

Í aðalglímu kvöldsins mættust þeir Sighvatur Magnús Helgason (Mjölnir) og UFC-bardagamaðurinn Tom Breese (Renegade MMA). Sá breski byrjaði á að ná fellu snemma í glímunni. Er Sighvatur var undir náði hann með ótrúlegum hætti að ná bakinu á Breese. Sighvatur reyndi að ná hengingunni en Breese varðist vel. Eftir smá baráttu náði Sighvatur að einangra aðra höndina og læsti „rear naked choke“ hengingunni. Frábærlega vel gert hjá Sighvati!

Í næstsíðustu glímu kvöldins mættust þeir Halldór Logi Valsson (Mjölnir) og Bjarni Kristjánsson (Mjölnir). Glíman var einstaklega skemmtileg og hröð. Að lokum náði Halldór Logi „guillotine“ hengingu og kláraði glímuna þegar skammt var eftir af tímanum. Frábær glíma sem var á endanum valin glíma kvöldsins og fengu þeir að launum 20.000 kr. hvor frá Sportvörum.

Karlotta Brynja Baldvinsdóttir (VBC) mætti Alex Coleman (Standard BJJ og Globetrotters) frá Bandaríkjunum. Glíman var hnífjöfn og spennandi og þurfti bráðabana til að knýja fram úrslit. Eftir þrjár lotur í bráðabana tókst Karlottu að ná armlás í þriðju og síðustu lotunni. Alex þurfti því að ná uppgjafartakinu á 24 sekúndum en það tókst henni ekki og stóð Karlotta uppi sem sigurvegari í frábærri glímu.

Uppgjafartak kvöldsins lét sjá sig í þriðju glímu kvöldsins þegar þeir Kristján Helgi Hafliðason (Mjölnir) og Sigurpáll Albertsson (VBC) mættust. Glíman var æsispennandi en Sigurpáll náði glæsilegum fótalás og neyddist Kristján Helgi til að tappa út. Virkilega vel gert hjá Sigurpáli og fékk hann að launum 30.000 kr. frá Drunk Rabbit fyrir besta uppgjafartak mótsins.

 

Glímur kvöldsins voru æsispennandi en hér má sjá öll úrslit kvöldsins:

Sighvatur Magnús Helgason sigraði Tom Breese með „rear naked choke“
Halldór Logi Valsson sigraði Bjarna Kristjánsson með „guillotine“ hengingu
Bjarki Þór Pálsson sigraði Davíð Frey Guðjónsson með „guillotine“ hengingu
Ómar Yamak sigraði Magnús ‘Loka’ Ingvarsson með „heel hook“
Karlotta Brynja Baldvinsdóttir sigraði Alex Colemen eftir bráðabana
Inga Birna Ársælsdóttir sigraði Dóru Haraldsdóttur með „heel hook“
Sigurpáll Albertsson sigraði Kristján Helga Hafliðason með „kneebar“
Margrét Ýr Sigurjónsdóttir sigraði Lilju Rós Guðjónsdóttur með „rear naked choke“ í framlengingu
Jósep Valur Guðlaugsson sigraði Helga Rafn Guðmundsson með „arm-triangle“

Áhuginn á mótinu var mikill og er ljóst að þetta mót og fleiri slíkir viðburðir eru komnir til að vera.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular