Thursday, April 25, 2024
HomeForsíðaDagmar tilbúin í bardagann í kvöld - töskum liðsins stolið

Dagmar tilbúin í bardagann í kvöld – töskum liðsins stolið

Dagmar Hrund Sigurleifsdóttir keppir í kvöld sinn annan MMA bardaga. Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel hjá Dagmar en litlu munaði að allur búnaður liðsins hefði horfið.

Dagmar Hrund (0-1) mætir Levi Steedman (1-0) í 57 kg fluguvigt í kvöld. Um áhugamannabardaga er að ræða en bardaginn fer fram á Evolution of Combat bardagakvöldinu í Morecombe í kvöld.

Undirbúningurinn hefur gengið vel hjá Dagmar að sögn Bjarka Þórs Pálssonar, þjálfara Dagmarar.

„Þetta hefur bara gengið mjög vel. Erum búin að vera að vinna að ákveðnu gameplani á móti þessum andstæðingi. Hún Levi er með góða beina vinstri og gott vinstra háspark sem hún notar mikið og erum við búin að vera að vinna í vörn gegn því,“ segir Bjarki Þór.

Dagmar æfir hjá Reykjavík MMA og hefur hún fengið góða hjálp fyrir bardagann. „Hún hefur verið að sparra við Valgerði [Guðsteinsdóttur], Immu [Ingibjörg Helga] og svo hef ég sjálfur verið að sparra við hana þar sem ég set bara mikla pressu á hana til að þreyta hana og gera hana tilbúna í þetta. Þetta er búið að ganga mjög vel og henni líður bara mjög vel. Hún fer róleg og örugg inn í þennan bardaga.“

Ferðalagið á Englandi hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig en töskum liðsins var stolið á fimmtudag.

„Við erum sem sagt á íbúðarhóteli á jarðhæð. Þegar við komum fyrst á hótelið henti ég bara töskunni á rúmið og svo fórum við aðeins út. Þegar við komum til baka tók ég ekki eftir neinu, lagði mig bara í rúmið þar sem taskan mín hefði átt að vera og svaf eins og engill. Síðan fara stelpurnar að leita að töskunum og þá áttum við okkur á því að við vorum rænd!“

„Við hringjum í gæjann sem er með showið og konuna sem rekur hótelið og við förum að hlaupa um allt hverfið að leita að töskunum. Svo endum við á því að finna töskurnar í einhverju húsasundi þarna. Það var búið að róta í öllu en ekkert tekið nema íslenskt neftóbak!“

Þarna fundust töskurnar.

„Þarna var vegabréfið mitt, heyrnartól og allur okkar MMA búnaður. Gómurinn, skýlan og hanskarnir hennar Dammý voru þarna líka. Padsarnir okkar líka og mínir hanskar. Það hefði verið ansi slæmt að mæta í bardagann með ekkert af þessu, hálf tómhent.“

Sem betur fer komust töskurnar í leitirnar og er allur búnaður þeirra á sínum stað fyrir bardagann í kvöld. Bardagakvöldið hefst kl. 17 á íslenskum tíma og er Dagmar í 7. bardaga kvöldsins. Hægt verður að horfa á bardagann hjá Reykjavík MMA en hér er hægt að kaupa streymi á bardagann.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular