Thursday, April 18, 2024
HomeErlentDana White: Conor sama um hópslagsmálin

Dana White: Conor sama um hópslagsmálin

Dana White var afar vonsvikinn þegar hann talaði við fjölmiðla í nótt eftir UFC 229. Eftir sigur Khabib á Conor brutust út hópslagsmál sem settu svartan blett á kvöldið.

Khabib Nurmagomedov sigraði Conor McGregor eftir hengingu í 4. lotu. Um leið og Conor tappaði út stóð Khabib yfir Conor og hraunaði aðeins yfir hann Hann fór svo að rífast við hornið hjá Conor og stökk yfir búrið og fór að slást við Dillon Danis, æfingafélaga Conor. Upp frá því urðu hópslagsmál utan búrsins. Tveir af liðsfélögum Khabib stukku síðan yfir búrið og réðust á Conor.

Dana White, forseti UFC, var harðorður í garð Khabib á blaðamannafundinum. „Við sjáum til hvað gerist með íþróttasamband Nevada-fylkis. Það verða sektir og Guð má vita hvað. Fá þeir áfram vegabréfsáritun í landið? Stærsta kvöld allra tíma og ég gæti ekki verið svekktari,“ sagði Dana.

Þrír liðsfélagar Khabib voru handteknir eftir hópslagsmálin en þeim verður sleppt þar sem Conor ætlar ekki að kæra. „Honum var alveg sama um það sem gerðist eftir bardagann. Hann var bara að hugsa um tapið,“ sagði Dana en hann ræddi við Conor baksviðs eftir bardagann. Conor ræddi ekki við fjölmiðla eftir bardagann.

Dana White líkti þessu við þegar Mike Tyson beit í eyrað á Evander Holyfield. Hann sagði þó að öryggisgæslan hefði verið gífurleg fyrir bardagakvöldið og margir fundir haldnir á milli liðanna til að tryggja að allt færi með felldu. Allt kom þó fyrir ekki en Dana hrósaði öryggisgæslu fyrir vel unnin störf. Dana óttaðist að uppþot myndu brjótast út meðal áhorfenda eftir atvikið.

Einn af þeim sem réðst að Conor er UFC bardagamaðurinn Zubaira Tukhugov en hann átti að mæta Artem Lobov, liðsfélaga Conor, á UFC bardagakvöldi síðar í mánuðinum. Þeim bardaga hefur verið aflýst í kjölfar atviksins í nótt. Tukhugov verður líklegast rekinn úr UFC.

Þá sagði Dana að íþróttasamband Nevada-fylkis (NAC) muni halda launum Khabib á meðan málið verði til rannsóknar. NAC hefur skoðað myndbandsupptökur af atvikinu og mun ekki halda launum Conor.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular