0

Darren Till: Gunnar frábær en sigur á Wonderboy eða dos Anjos færir mig nær toppnum

Darren Till virðist vera nokkuð sama hvaða andstæðing hann fær næst. Hann vill þó alls ekki vera ásakaður um að fá gefins titilbardaga og langar mest að mæta Stephen Thompson.

Darren Till er tilbúinn fyrir sinn næsta bardaga og koma margir mögulegir andstæðingar til greina. Till tók sér smá hlé eftir sigurinn á Donald ‘Cowboy’ Cerrone í október en sá sigur kom honum á kortið. Till er þó með fæturnar á jörðinni eftir sigurinn og ætlar ekki eyða um efni fram.

„Svo lengi sem ég get keypt í matinn og keypt mér skópar þá er ég sáttur. Ég er nægjusamur og hamingjusamur maður. Mér er sama um Benz bíla og Lamborghini. Montrassarnir mega eiga það fyrir Instagram. Ég vil bara leggja mikið á mig og rífa kjaft,“ segir Darren Till við MMA Junkie.

Darren Till er ósigraður á ferli sínum í UFC og situr nú í 7. sæti styrkleikalistans í veltivigtinni. Bardagi gegn Stephen ‘Wonderboy’ Thompson heillar hann mest en viðurkennir að hann eigi það ekki endilega skilið.

„Mér finnst ég ekki eiga skilið að fá titilbardaga og ef ég á að segja alveg eins og er á ég ekki skilið að fá topp 3 andstæðing. Eina ástæðan fyrir því að ég bað um Wonderboy var sú að það mun að mínu mati sýna hver er sá besti í standandi viðureign í veltivigtinni. En mér er sama hvar andstæðingurinn er á styrkleikalistanum, hvort sem hann er nr. 1 eða nr. 10.“

„Thompson er frábær bardagamaður, einn af þeim bestu og ég vil ekki auðvelda leið að titlinum en mig langar að prófa að berjast við þá bestu. Ef hann vinnur mig og tekur allan meðbyrinn frá mér, vel gert hjá honum. En ég held hann geti það ekki.“

Till er nú tilbúinn að fá næsta bardaga og verður áhugavert að sjá hvern hann fær næst. „Ég vildi taka mér smá pásu um jólin og bóka svo bardaga sem fyrst. Ég var að búast við að vera kominn með andstæðing núna en ég býst við að þeir [UFC] sé að bíða eftir réttum andstæðingi og rétta bardagakvöldinu.“

Darren Till kvartaði þó yfir því á samfélagsmiðlum í nóvember að enginn vildi fara í búrið með honum. Gunnar svaraði um hæl og sagðist vera til í að berjast við hann. Síðan þá hefur ekkert gerst en Gunnar sagði í The MMA Hour á mánudaginn að hann búist við að berjast á UFC bardagakvöldinu í London í mars. Gunnar nefndi þá Darren Till sem mögulegan andstæðing.

„Mér væri nokkuð sama ef ég enda á að berjast við Gunnar. Gunnar er auðvitað frábær bardagamaður en ég held að sigur á Wonderboy eða Rafael dos Anjos færir mig nær toppnum. En ég vil taka erfiðu leiðina að toppnum. Þess vegna er mér sama hvern ég fæ næst. Þannig er bara hugarfarið mitt,“ sagði Till.

Það verður áhugavert að sjá hvaða andstæðing Till fær næst og hvort Gunnar verði fyrir valinu hjá UFC.

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.