Friday, April 19, 2024
HomeErlentDonald Cerrone um tapið gegn Conor: Vildi ekki vera þarna

Donald Cerrone um tapið gegn Conor: Vildi ekki vera þarna

Donald Cerrone mætir Anthony Pettis á UFC 249 þann 9. maí. Þetta verður fyrsti bardaginn hans síðan hann tapaði fyrir Conor McGregor í janúar.

Donald Cerrone tapaði fyrir Conor McGregor eftir aðeins 40 sekúndur í janúar á þessu ári. Bardaginn fór fram í veltivigt en þetta var eitt versta tap ferilsins hjá Cerrone.

Í viðtali við ESPN segir Cerrone að honum hafi ekki liðið vel í klefanum fyrir bardagann. „Donald mætti í búrið en ekki Cowboy, rangur maður mætti. Ég komst ekki af stað, komst ekki í gang og vildi ekki vera þarna. Þetta var stærsti bardaginn, öll athyglin á manni, minn tími til að skína og ég vildi ekki vera þarna,“ segir Cerrone.

„Þetta er bilað. Ég veit ekki af hverju eða hvernig þetta getur verið svona eða hvernig ég á að breyta þessu en þetta er ömurlegt. Stundum mæti ég og er tilbúinn strax en stundum vil ég ekki vera þarna.“

Cerrone segist hafa fundið það tveimur dögum fyrir bardagann og um morguninn að hann væri ekki að komast í rétta gírinn fyrir bardagann. Cerrone hefur upplifað þetta áður en veit ekki hvernig hann á að laga þetta.

Cerrone sagði einnig að bardaginn hefði byrjað svo hratt að hann hefði aldrei náð áttum í búrinu. Cerrone byrjaði á að skalla mjaðmabein Conor þegar hann skaut í fellu snemma sem vankaði hann örlítið. Hann ætlaði svo að ná áttum standandi en þá tóku við axlarhögg frá Conor sem komu Cerrone á óvart og vönkuðu hann meira. Skömmu síðar fékk hann háspark sem gerði hann enn ringlaðri og áður en Cerrone vissi af var bardaginn búinn.

Strax eftir bardagann var Cerrone gagnrýndur af bardagaaðdáendum en einhverjir héldu því fram að Cerrone hefði gefið bardagann fyrir hærri peningagreiðslu. Cerrone þvertekur fyrir það.

„Ég gæti aldrei selt sálu mína. Það er ekki til nægur peningur í heiminum sem fær mig til að gefa bardaga. Eruði að grínast? Látið ekki svona! En það er til fólk þarna sem heldur að jörðin sé flöt, fólk er svo bilað.“

Cerrone mætir Pettis þann 9. maí en þetta er í annað sinn sem þeir mætast. Þeir mættust fyrst í janúar 2013 en þá sigraði Pettis með tæknilegu rothöggi eftir spark í skrokkinn.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular