0

Egill: Svakaleg andleg þrekraun

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Egill Øydvin Hjördísarson sigraði bardaga sinn á Shinobi War 8 bardagakvöldinu sem fram fór á dögunum. Bardaginn var mikil þrekraun fyrir Egil en við spjölluðum við hann um bardagann, blóðsykurfallið og fleira.

Egill vann Will Jones eftir þrjár erfiðar lotur. Egill var orðinn vel þreyttur í bardaganum en það er sjaldséð sjón enda drengurinn í fantaformi. Hvernig stóð á því að hann var svona þreyttur? „Í fyrstu lotu þegar ég er að fara í D’Arce henginguna finn ég hvernig orkan sogast úr mér og þegar ég reyni að herða takið er enginn styrkur til staðar. Á þeim tíma átta ég mig ekki á því hvað er að gerast en þetta var blósyrkurfall og man ég voða lítið eftir bardaganum. Þetta er allt í mók, hlutir sem ég hélt að hefðu verið í 1. lotu gerðust í 3. lotu,“ segir Egill og hlær.

„Mér leið eins og ég væri fullur í bardaganum. Ég áttaði mig ekki á fjarlægðinni á milli mín og Jones, hafði ekki stjórn á eigin höggum og ég átti erfitt með að sjá hann. Hefði hann áttað sig á þessu og bara strike-að við mig efa ég að bardaginn hefði farið á minn veg. Ég náði þó að fela þetta ágætlega en ef þú horfir á byrjun 3. lotu má sjá að lappirnar eru orðnar linar eins og gúmmí. Allar hreyfingar komu nokkrum sekúndum eftir að ég hugsaði þær.“

Egill var lengi að jafna sig eftir bardagann og lá á gólfinu í búningsklefanum í hálftíma eftir bardagann. „Ég ligg þarna og er að detta inn og út. Svo átta ég mig á hvað var í gangi og bað Jón Viðar um kókglas. Drekk það og þá er eins og ekkert hafi gerst.“

„Ég var svo spenntur fyrir að keppa að ég borðaði ekkert frá klukkan tvö um daginn og bardaginn var klukkan níu um kvöldið ef ég man rétt. Þetta er ágætis bil án matar en þessi mistök liggja alfarið hjá mér og ég mun gæta betur upp á þetta næst.“

Egill er þekktur fyrir að vera með góða D’Arce hengingu og reyndi eina slíka snemma í 1. lotu. Þeir sem þekkja til Egils töldu að þarna væri bardaginn búinn en Will Jones gerði mjög vel og varðist hengingunni. „Þetta var mjög þétt en ég hafði ekki orku til að setja þetta finishing touch á sem vantaði. Það kom mér mest á óvart að ég skyldi ekki hafa getað hert takið því ég var með það mjög djúpt. Hann stóð bara upp og það var ekkert sem ég gat gert.“

Egill sigraði 1. lotuna, Jones 2. lotu og var því allt í járnum fyrir 3. og síðustu lotuna en sjálfur man Egill lítið hvað gekk á í lotunni. „Ég var í algjöru móki og man ekki hvað ég hugsaði áður en síðasta lotan byrjaði. Ég man að ég átti erfitt með að labba og allar hreyfingar sviðu. Þetta var svakaleg andleg þrekraun. Ef ég get tekið svona andstæðing á auto-pilot þá er ekkert sem er að fara að stoppa mig þegar ég mæti ferskur til leiks. Ég get ekki beðið eftir að keppa aftur til að sýna allt sem ég gat ekki sýnt í þessum bardaga. Þetta var bara brotabrot af því sem ég get.“

Egill stefnir á keppni á Evrópumeistaramótinu í nóvember. Egill mun þá mæta reynslunni ríkari en hvaða lærdóm dregur hann helst af þessum bardaga? „Að gefast ekki upp. Alltaf að halda áfram og trúa á mig. Það kom tími þar sem ég hélt ég gæti ekki meir en ég ákvað að prufa að keyra aðeins meira á mig og það gekk eftir,“ segir Egill að lokum.“

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.