Erika Nótt Einarsdóttir varð í kvöld Icebox meistari eftir sigur á Nora Guzlander. Erika Nótt hefur verið hrikalega áberandi í hnefaleikasenunni á Íslandi síðustu ár og er vart hægt að hugsa sér Icebox kvöld án hennar. Óhappadagurinn föstudagurinn þrettándi hafði engin áhrif á Eriku sem sigraði Nora Guzlander með öflugri frammistöðu sem tryggði henni hið langþráða og flotta Icebox belti.
Bardaginn byrjaði af miklum krafti þar sem Erika þurfti að veðra sænska storminn frá Guzlander í fyrstu lotu. Erika gerði það með svakalega mikilli virkni og svaraði storminum með sínum eigin stormi.
Í annarri lotu bar á veðurofsanum úr fyrstu lotu og þurfti Erika að grafa djúpt til finna þol og ákefð til að passa að Guzlander myndi ekki vinna sig inn í bardagann aftur. Vinstri krókurinn hennar Eriku var mögulega hennar besta vopn í bardaganum en hún notaði hann gjarnan til að loka fléttum og færa sig úr fjarlægðinni við Guzlander. Dómarinn fann sig knúinn til að telja yfir Guzlander í þriðju lotu eftir gott högg frá Eriku en Guzlander var ekki hrifinn af þeirri ákvörðun og vildi halda áfram án tafar.
Ekki voru allir dómararnir sammála um sigurvegara eftir þrjár lotur en Erika endaði á að sigla heim sigri með klofinni dómaraákvörðun.
Í viðtali eftir bardagann tilkynnti Erika fyrir áhorfendum að hún stefndi á að fara í atvinnumennskuna á komandi ári og því spennandi að sjá hvað við fáum frá henni í framtíðinni.