Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaFinnsk bardagakona skorar á Sunnu

Finnsk bardagakona skorar á Sunnu

Finnska bardagakonan Minna Grusander vill ólm mæta Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur í Invicta. Hún vill sanna að hún sé fremsta bardagakona Norðurlandanna í strávigt kvenna.

Minna Grusander er 3-1 sem atvinnumaður en áður en hún tók skrefið í atvinnumennskuna nældi hún sér í heimsmeistaratitil áhugamanna (IMMAF World Champion) í Las Vegas 2015. Sunna Rannveig varð Evrópumeistari (IMMAF European Champion) sama ár og telur Grusander að bardagi á milli þeirra yrði afar áhugaverður.

„Atvinnubardagi milli tveggja IMMAF meistara væri svo sannarlega áhugaverður! Það væri fullkomin tímasetning fyrir mig og Sunnu núna þar sem við erum báðar með nokkra atvinnubardaga en samt er ekki svo langt síðan við vorum í áhugamennskunni,“ segir Grusander við MMA Viking.

„Það er búið að vera gaman að sjá Sunnu klára áhugamannaferilinn sem IMMAF meistari og byggja upp ferilinn í Invicta. Ég ber mikla virðingu fyrir henni miðað við það sem ég hef séð af henni í búrinu og heyrt af henni í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Það er ekki eins og ég sé öskrandi að ég ætli að rústa henni eða þvíumlíkt enda myndi ég aldrei gera það. Staðreyndin er sú að þetta er bardagi sem myndi vera ofarlega á listum yfir bestu bardaga ársins og myndi sýna hæfileikana í kvenna MMA hjá tveimur framtíðarstjörnum.“

Sunna Rannveig er 3-0 á atvinnuferlinum en allir bardagar hennar hafa farið fram í Invicta. Grusander tók sinn fyrsta atvinnubardaga í október í fyrra og hefur verið að berjast í Finnlandi, Svíþjóð og Japan en vill fá tækifæri í Invicta. Á styrkleikalista MMA Viking í strávigt kvenna yfir fremstu bardagakonur Norðulandanna er hin norska Celine Haga í 1. sæti og Sunna Rannveig í 2. sæti. Grusander er í 3. sæti en vill sanna að hún eigi að vera í efsta sæti.

„Celine og Sunna eru í Invicta. Ég og mitt lið hef ekki verið í neinu sambandi við Invicta en þar eru þær tvær eru öruggar frá mér eins og er. Það eru alltaf aðrar leiðir til að hrista upp í styrkleikalistunum en ég væri að ljúga ef ég myndi ekki segja að það væri mjög áhugavert að mæta þessum tveimur bardagakonum fyrr en seinna.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular