Thursday, April 18, 2024
HomeErlentGegard Mousasi yfirgefur UFC og fer til Bellator

Gegard Mousasi yfirgefur UFC og fer til Bellator

Millivigtarmaðurinn Gegard Mousasi hefur ákveðið að semja við Bellator. Samningur hans við UFC var runninn út og kaus hann að semja frekar við Bellator.

Eftir sigur Mousasi á Chris Weidman í apríl var samningur hans útrunninn við UFC. Það var fimmti sigur hans í röð og er hann sem stendur í 4. sæti á styrkleikalista UFC í millivigtinni. Hann mun hverfa af listanum innan tíðar enda hefur hann samið við Bellator.

Þetta tilkynnti hann í The MMA Hour fyrr í dag. Mousasi fékk betra tilboð frá Bellator en þetta snérist ekki eingöngu um peninginn segir hann. „Þetta er ekki bara út af peningum. Ég hef unnið með Scott Coker áður og hann stendur við gefin loforð. Hann er heiðarlegur maður og bardagalistamaður sjálfur. Hann kemur fram við bardagamenn af virðingu,“ sagði Mousasi í þættinum.

Mousasi var 9-3 í UFC en áður en hann fór til UFC var hann í Strikeforce. Scott Coker er núverandi forseti Bellator en var áður forseti Strikeforce og þekkjast þeir frá Strikeforce dögunum.

„Þetta snýst líka um tækifærin og framkomuna. UFC kom vel fram við mig og hef ég ekkert slæmt um UFC að segja.“

Mousasi hafði einnig ýmislegt neikvætt að segja um Reebok samninginn eins og svo margir bardagamenn. „Reebok er slæmt fyrir UFC og ég veit ekki hvort nýju eigendurnir [WME-IMG] átti sig á því hvað þeir eru að gera. Þetta er ekki skemmtanabransinn, þetta er allt annað mál, þetta er bardagaheimurinn.“

Það besta í stöðunni var að semja við Bellator að mati Mousasi. Mousasi telur að hann myndi vera sigurstranglegri gegn meisturunum Michael Bisping og Robert Whittaker og bað því um það sem honum þótti sanngjarnt.

Mousasi ætlar að byrja á því að ná millivigtarbeltinu í Bellator og síðar skora á léttþungavigtarmeistarann Ryan Bader.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular