Saturday, April 20, 2024
HomeErlentGoðsögnin: Evan Tanner

Goðsögnin: Evan Tanner

evan

Evan Tanner er með eftirminnilegri persónum þegar litið er yfir sögu MMA. Hann setti svip sinn á íþróttina og á skilið að vera viðurkenndur sem goðsögn. Hann átti góða sigra í Pancrase og vann titilinn í millivigt í UFC. Hann lést því miður aðeins 37 ára gamall eftir að hafa ofþornað einn á ferð í eyðimörk árið 2008. Minnumst hans í dag.

Upphafið

Evan Loyd Tanner (32-8-) fæddist árið 1971 í Texas þar sem ríkir mikil hefð fyrir ólympískri glímu. Hann hóf því snemma að hnoðast á dýnunum en prófaði ekki MMA fyrr en hann var orðinn 26 ára gamall. Hann fór hratt af stað. Hans fyrsta reynsla var mót sem fór fram á einu kvöldið í bardagasamtökum sem hétu Unified Shoot Wrestling Federation. Tanner gerði sér lítið fyrir og sigraði þrjá andstæðinga og þar með mótið. Einn af þessum andstæðingum var Paul Buentello sem barðist síðar um titil í þungavigt í bæði UFC og Strikeforce. Eftir þetta kvöld var ekki aftur snúið.

Einkenni

Evan Tanner var þögull og nokkuð leyndardómsfullur maður. Hann var hógvær og var þekktur fyrir að koma fram af mikilli virðingu við andstæðinga sína. Hann var sérstakur í útliti og undir lok ferilsins var mikið og flott skegg eitt af hans helstu einkennum. Bardagastíllinn byggðist á glímu en af 32 sigrum voru aðeins 3 bardagar sem hann sigraði á stigum. Af þessum 29 sigrum voru átta eftir rothögg og 21 eftir uppgjafartök sem sannar að hann var miklu meira en bara glímukappi. Til að mynda voru Muay Thai hnéspörkin hans sérstaklega hættuleg eins og Phil Baroni fékk að finna fyrir.

UFC45

Stærstu sigrar

Stærsti sigur Evan Tanner var án efa á UFC 51 þegar hann sigraði David Terrell og varð millivigtarmeistarinn í UFC. Murilo Bustamante hafði verið meistarinn en þegar hann fór yfir hafið í Pride varð titillinn laus og Tanner greip tækifærið báðum höndum. Aðrir stórir sigrar voru gegn Phil Baroni í tvígang og ekki má gleyma sigri með uppgjafartaki gegn ríkjandi UFC meistara, Robbie Lawler.

Verstu töp

Verstu töp Tanner voru á móti sama andstæðingnum, þ.e. Rich Franklin. Það fyrsta kom beint í kjölfarið á stærsta sigrinum. Í hans fyrstu titilvörn rotaði Franklin hann í fyrstu lotu en það var þó skárra en þegar þeir mættust aftur tveimur árum síðar. Eftir að hafa verið laminn sundur og saman í tæpar fjórar lotur var Tanner nær óþekkjanlegur. Að lokum var það læknirinn sem bjargaði honum. Annað slæmt tap sem vert er að nefna er á UFC 30 þegar hann barðist fyrst um UFC titilinn gegn Tito Ortiz og var rotaður á aðeins 32 sekúndum.

FranklinvsTanner

Fáir vita

Evan Tanner lærði MMA fyrst og fremst með því að horfa á kennslumyndbönd heima hjá sér.

Margar MMA vefsíður lýstu yfir áhyggjum af mótorhjólaför Tanner og þeirri hættuför sem hann var á leið í. Tanner deildi ekki þessum áhyggjum og sagði: „Látið ekki svona, það er mjög algengt að fara í svona ferðir í Suður-Kaliforníu. Planið er að fara í eyðimörkina, tjalda, keyra um á hjólinu og skjóta úr byssum. Hljómar eins og frábær ferð. Fullt af fólki fer í svona ferðir. Þetta er ekkert eins og myndin Into the Wild.“

Hvar er hann í dag

Eins og fram kom að ofan lést Evan Tanner úr ofþornun eftir mótohjólaferð um eyðimörk. Hann var 37 ára gamall er hann lést þann 8. september 2008. Árið 2013 var gerð stutt heimildarmynd um síðustu daga Evan Tanner. Myndin er vel gerð og greinir vel frá þeim atburðum sem drógu hann til dauða. Myndin heitir einfaldlega 1 og hana má sjá hér:

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular