Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentGoðsögnin: Kimo Leopoldo

Goðsögnin: Kimo Leopoldo

Kimo-cover

Goðsögn vikunnar vann aldrei titil en var áberandi og eftirminnileg persóna á upphafsárum MMA. Kimo Leopoldo, almennt þekktur sem Kimo, var ógnandi en á sama tíma áhugaverð týpa með brjálæðisleg húðflúr og skrítna klippingu.

Kimo átti litríkan feril sem þó var í styttri kantinum. Hann barðist samtals 18 sinnum og sigraði af þeim tíu. Hann byrjaði MMA ferilinn 26 ára og fór beint í djúpu laugina. Í hans fyrsta bardaga á ferlinum barðist hann við sjálfan Royce Gracie á UFC 3. Hann flakkaði mikið á milli sambanda og barðist meðal annars á fyrsta Pride FC kvöldinu. Á þessum tíma vissu allir hver Kimo var. Það var eitthvað öðruvísi við hann sem vakti athygli, reynum að átta okkur á hvað lá að baki.

Uppruni

Kimo fæddist árið 1968 í Þýskalandi. Móðir hans var þýsk en faðir hans var frá Suður-Kóreu sem útskýrir asískt útlit hans. Þegar Kimo var mjög ungur flutti fjölskyldan til Hawai þar sem hann stundaði glímu og lék sér á brimbrettum inn á milli. Í háskóla þótti hann mjög efnilegur í ruðningi þar til hann sleit krossbönd á báðum hnjám. Það bakslag gerði út af við draum Kimo um atvinnumennsku í amerískum ruðningi.

Eftir erfitt tímabil þar sem Kimo var farinn að selja fíkniefni og starfa sem handrukkari leitaði hann í bardagalistir. Hann náði sér í svart belti í Taekwondo og talsvert síðar svart belti í brasilísku jiu-jitsu. Stefnan var tekin á UFC og þá var ekki aftur snúið.

kimo-back

Einkenni

Kimo er með mjög óvenjulegt og einkennandi útlit. Hann er risastór og vöðvamikill. Trúarleg húðflúr eru mjög áberandi, þ.e. stór kross á baki og orðið Jesus á maganum. Þrátt fyrir svarta beltið í Taekwondo var Kimo meiri glímukappi en nokkuð annað. Hann vildi helst ná andstæðum símum í gólfið þar sem hann gat látið höggin flæða eða klárað bardagann með uppgjafartaki, sem hannn gerði í sex af tíu sigrum sínum.

royce-kimo

Stærstu sigrar

Stærsti sigur Kimo var í raun tap gegn Royce Gracie í UFC 3. Bardaginn var svo erfiður að Gracie þurfti að hætta keppni í mótinu sökum þreytu. Gracie hafði unnið fyrstu tvö mótin svo Kimo var sá fyrsti til að stöðva sigurgöngu Brasilíumannsins þrátt fyrir tap.

Einn eftirminnilegur sigur Kimo var á UFC 43 þar sem hann mætti Tank Abbott. Bardagans var beðið með mikilli eftirvæntingu en Kimo tók þetta örugglega, náði honum niður og afgreiddi með „arm triangle” á innan við tveimur mínútum.

Versta tap

Kimo tapaði í tvígang gegn Ken Shamrock. Í fyrra skiptið var það eftir ökklalás í bardaga um „UFC Superfight Championship”, sem var tilbúinn titill hreinlega til að auka áhorf. Seinna tapið gegn Shamrock á UFC 48 var talvert verra. Eftir rétt rúma mínútu rotaði Shamrock Kimo með vel staðsettu hnésparki.

ufc 48

Fáir vita

Enginn bardaga Kimo fór í aðra lotu.

Hvar er hann í dag

Það eru því miður ekki góðar fréttir af Kimo sem er leiðinlegt að heyra. Hann var handtekinn árið 2007 og 2009 í tengslum við fíkniefnamál. Hann er talinn vera amfetamínfíkill og almennt í slæmum málum þó lítið sé vitað um hvað hann hefur fyrir stafni þessa dagana.

mugshot
Endum þetta hins vegar á jákvæðari nótum. Hér er fyrsti bardagi Kimo á ferlinum, gegn Royce Gracie. Takið eftir krossinum sem Kimo ber í hringinn, einhverjir myndi telja þetta vera óþarfa orkueyðslu en trúin flytur víst fjöll.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular