Friday, March 29, 2024
HomeErlentGoðsögnin: Matt Hughes

Goðsögnin: Matt Hughes

matt hughesGoðsögnin í dag er enginn annar en Matt Hughes. Hann er einn sigursælasti  bardagamaður í sögu UFC og á næstflesta sigra í sögu UFC eða 17 talsins.

Matt Hughes var tvívegis veltivigtarmeistari UFC og varði beltið sitt samtals sjö sinnum. Hann er besti veltivigtarmaður sögunnar á eftir Georges St. Pierre og mun verða lengi minnst fyrir afreka sinna í búrinu. Hughes varð fyrst veltivigtarmeistari UFC er hann sigraði Carlos Newton í nóvember 2001. Hughes var á sínum tíma einn besti bardagamaður heims, pund fyrir pund, og er svo sannarlega goðsögn í íþróttinni.

Upphafið

Matt Hughes fæddist í Hillsboro, Illinois í október 1973. Hann og tvíburabróðir hans Matt höfðu í fyrstu lítinn tíma fyrir íþróttir á yngri árum vegna vinnu sinnar á bóndabæ fjölskyldunnar. Í gagnfræðiskóla æfðu þeir hins vegar ólympíska glímu og ruðning með góðum árangri. Í bandarísku háskólaglímunni skaraði Matt Hughes fram úr og var tvisvar meðal átta bestu í landinu í sínum þyngdarflokki í efstu deild (All-American).

Eftir háskólann var Hughes boðið að taka MMA bardaga. Hughes vann eftir „slamm“ sem varð síðar eitt af aðalsmerkjum hans. Hann hafði barist 32 bardaga þegar hann fékk titilbardaga í UFC í nóvember 2001. Hann hafði áður barist þrjá bardaga í UFC án þess að vera með fastan samning við bardagasamtökin. Hughes vann titilinn í ótrúlegum bardaga og barðist í UFC út ferilinn. Bardaginn var sögulegur en Hughes lyfti Newton hátt upp, sem var með „triangle“ hengingu, Hughes féll í yfirlið og rotaði Newton í leiðinni og vann þar með titilinn. Einn ótrúlegasti sigur í sögu UFC.

matt hughes carlos newton

Einkenni

Wrestling! Matt Hughes var frábær glímumaður og nýtti sér það til fulls allan ferilinn. Bóndastyrkurinn hjálpaði honum alltaf við að klára fellurnar og svo var Hughes mjög lunkinn í uppgjafartökum. Hann kláraði 18 bardaga með uppgjafartökum og kláraði svartbeltinga eins og Ricardo Almeida í gólfinu.

Stærstu sigrar

Matt Hughes á marga ótrúlega sigra. Fyrsti stóri sigurinn hans er fyrrnefndur sigur á Carlos Newton þegar hann tryggði sér veltivigtartitilinn í fyrsta sinn. Seinni bardaginn hans gegn Frank Trigg var frábær en Hughes var í bullandi vandræðum framan af í bardaganum en náði að snúa taflinu sér í vil á ótrúlegan hátt og sigraði í 1. lotu. Þetta er að margra mati einn besti bardagi í sögu UFC og ein besta endurkoma í sögu UFC.

Sigrar hans á BJ Penn og Georges St. Pierre voru einnig flottir og þá sérstaklega sigurinn gegn Penn. Hughes varð fyrsti maðurinn til að klára Penn en hann sigraði með tæknilegu rothöggi í 3. lotu.

Verstu töp

Matt Hughes er með níu töp í 54 bardögum. Matt Hughes tapaði titlinum fyrst til BJ Penn í janúar 2004 eftir hengingu. Hughes var mun sigurstranglegri hjá veðbönkum fyrir bardagann og kom tapið því á óvart hjá þessum sigursælasta meistara í sögu UFC þá. Hughes endaði ferilinn á tveimur töpum gegn BJ Penn og Josh Koscheck þar sem hann var rotaður í bæði skiptin. Þau töp voru nokkuð slæm enda Hughes kominn af léttasta skeiði.

Þá ber einnig að nefna töpin hans gegn Dennis Hallman. Hughes átti margfalt sigursælli feril en Dennis Hallman en samt tókst hinum síðarnefnda að sigra Hughes tvisvar á innan við mínútu.

Fáir vita

Þegar Matt Hughes fékk titilbardagann gegn Carlos Newton árið 2001 kom hann inn með skömmum fyrirvara. UFC vildi nefnilega fá nýkrýndan 168 punda meistara Pride, Anderson Silva, til að mæta Newton. Samningar við Silva náðust ekki en fyrsta titilvörn Hughes átti að vera gegn Silva. Aftur náðust samningar ekki við Silva.

Matt Hughes æfði oft fremur lítið þar sem hann var of upptekinn við að sinna bændastörfum. Fyrir seinni bardaga hans gegn Carlos Newton sást Matt Hughes ekki á æfingum í tvær vikur þar sem hann var upptekinn við að setja upp þak á hús bróður síns. Fyrir bardagann gegn Sean Sherk æfði hann í aðeins nokkra daga þar sem hann var svo upptekinn við skyldur sínar á bóndabýlinu. Hughes hélt því alltaf fram að störfin á bóndabænum væru góð æfing.

Matt Hughes tók 32 bardaga á fyrstu fjórum árum sínum í MMA.

Hvar er hann í dag?

Hughes lagði hanskana á hilluna þann 24. janúar 2013. Síðasti bardaginn hans var þó í september 2011.

Í dag er Matt Hughes með þægilegt skrifstofustarf innan UFC (Vice President of Athlete Development and Government Relations). Hann hefur einnig hýst veiðisjónvarpsþætti og gaf út ansi umdeilda ævisögu. Matt Hughes er ekki allra enda sveitastrákur frá miðríkjunum með sterkar skoðanir. Hann er afar trúaður maður og finnst ekki leiðinlegt að pósta myndum af sér með nýveiddum dýrum, nokkuð sem féll ekki í kramið hjá Dan Hardy t.d.

matt hughes

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular