Friday, April 19, 2024
HomeErlentHringborðið: Er Conor í alvörunni hættur?

Hringborðið: Er Conor í alvörunni hættur?

conor mcgregor jose aldo
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Conor McGregor tilkynnti í gær að hann væri hættur í MMA. Ekki eru allir sannfærðir um að hann muni standa við stóru orðin enda ekki í fyrsta sinn sem Conor segist vera hættur.

Þessi ákvörðun Conor kom nokkuð á óvart þar sem talað var um mögulegan stóran bardaga í júlí. Pennar MMA Frétta tóku smá hringborðsumræðu um hvort Conor sé í alvörunni hættur í MMA og hvað hann sé mögulega að pæla með þessari yfirlýsingu.

Pétur Marinó Jónsson: Þetta hljómar kannski barnslega einfalt en ég held að hann sé hættur þangað til hann hættir við að vera hættur. Kannski er Conor bara að taka blaðsíðu úr bók Floyd Mayweather og segjast vera hættur nokkrum sinnum. Floyd hefur tilkynnt að hann sé hættur svona fjórum sinnum en alltaf komið aftur og nú síðast í einhverjum sýningarbardaga í Rizin. Þannig að ég held að þetta sé ekki hans síðasti bardagi, hvorki í MMA né boxi. Ég held samt að keppnismaðurinn sem Conor var í upprisu sinni í UFC, frá 2013-2016 sé hættur. Ef hann berst aftur verður það í einhverjum peningabardögum t.d. gegn Nate Diaz, Donald Cerrone, Anthony Pettis eða þess vegna Paulie Malignaggi í boxi (ælukall). Skemmtilegir bardagar en engin svakalega áskorun eins og Khabib. Ég stórlega efast um að hann ætli sér að vinna aftur beltið eða eitthvað þannig.

Ólíkt Floyd þá er meira mál fyrir Conor að hætta og byrja aftur þar sem Conor þarf að vera í 6 mánuði í USADA lyfjaprófunum áður en hann getur barist aftur ef hann hættir almennilega núna og hættir að fara í lyfjapróf. Það gætu svo sem verið nokkrar ástæður fyrir þessari tilkynningu. Conor vill ennþá verða hluthafi í UFC og kannski er UFC ekki reiðubúið að gefa virkum bardagamanni hlut en frekar til ef Conor kemur inn sem fyrrum bardagamaður. Svo er auðvitað mögulegt dómsmál í uppsiglingu á Írlandi og mögulega er hann að beina athyglinni frá því. Að lokum má nefna að það að segjast vera hættur í MMA virðist vera ákvörðun sem endist ótrúlega stutt. Urijah Faber, Vitor Belfort og Chuck Liddell eru nýleg dæmi um menn sem ákveða að taka hanskana af hillunni og er alltaf sorglegt að sjá þá ákvörðun. Þannig að nei, held að Conor sé ekki í alvörunni hættur.

Óskar Örn Árnason: Ég held að Conor sé á slæmum stað og efast um að hann snúi aftur sem elítu MMA bardagamaður. Hann mun samt berjast aftur einhvern tímann. Á þessari stundu trúi ég að hann trúi því að hann sé hættur en ég held að það muni breytast. Hvað sem er rétt í þessu er ég persónulega búinn að fá leið á þessu ævintýri. Vil frekar setja fókus á þá góðu bardaga sem eru mögulegir á næstunni.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held að Conor frá 2013-2016 sé ekki til lengur – gaurinn sem var hungraður í að vinna titla og sanna sig. Í dag held ég að hann sé buinn að afreka flest sem hægt er að gera í íþróttinni og ekki vantar honum peninga. Síðan bætist ofan á það ruglið í persónulega lífi hans, nauðgunarákærur og orðrómar um fíkniefnaneyslu sem benda til þess að hann sé mögulega ekki á góðum stað andlega. Hann er 30 ára gamall og ég hugsa að ef hann snýr aftur þá verði það bara í einhverjum money fights. Þessi yfirlýsing lyktar samt mjög mikið af einhverju power play, sérstaklega eftir viðbrögð Dana White, sem þóttist vera himinlifandi yfir því að hans stærsta cash cow væri að hætta. Þannig að það kæmi mér ekki á óvart að Conor og UFC væru í grimmum samningaviðræðum. Hver veit – mögulega sjáum við Conor vs. Nate 3 á næstunni?

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular