Tuesday, April 16, 2024
HomeErlentHvað þarf til að verða stór stjarna í MMA?

Hvað þarf til að verða stór stjarna í MMA?

conor mcgregor
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Conor McGregor og Ronda Rousey eru stærstu stjörnurnar í MMA í dag. En hvað eiga stærstu stjörnurnar sameiginlegt og hvað þarf til að verða stór stjarna í MMA?

Nú þegar Ronda Rousey er hugsanlega hætt og Conor McGregor ekkert á leiðinni í búrið á næstunni er spurning hvort þetta ári verði jafn gott hjá UFC eins og síðustu tvö ár voru. Það er ljóst að UFC þarf stjörnur en eru einhverjar stjörnur í UFC núna fyrir utan Conor?

Stærstu stjörnurnar í sögu UFC eiga margt sameiginlegt þó ólíkar séu. Hér förum við stuttlega yfir sex stærstu stjörnur í sögu UFC en flestar af þeim hafa verið í aðalbardaga á bardagakvöldi með yfir milljón Pay Per View (PPV).

Chuck Liddell: Ísmaðurinn hafði ansi margt sem gerði hann að stjörnu. Hann var með útlitið með sér með hanakambinn skemmtilega og húðflúrið á hausnum. Þá var hann með flott gælunafn og átti skemmtilegan ríg við Tito Ortiz sem kveikti áhuga hjá mörgum. En það sem skipti mestu máli fyrir Liddell voru rothöggin og yfirburðirnir. Hann vann sjö bardaga í röð, alla með rothöggi og var sigursæll meistari. Hann varði léttþungavigtartitil sinn fjórum sinnum og var í mörgum skemmtilegum bardögum. Hann var akkúrat það sem MMA aðdáendur vildu fá á þeim tíma.

Anderson Silva: Einn besti bardagamaður allra tíma var lengi vel ekkert svo stór stjarna, ekki einu sinni í Brasilíu. Það var ekki fyrr en hann vann Vitor Belfort með framsparki í andlitið sem hann varð alvöru stjarna í Brasilíu. Belfort hefur alltaf verið þekkt nafn í Brasilíu enda tók hann þátt í brasilískum raunveruleikaþætti, var í sambandi með frægri fyrirsætu og þá var hann mikið í fréttunum þegar systir hans týndist. Eftir sigur Silva á Belfort varð Silva margfalt stærra nafn í heimalandinu og þá hjálpaði rígur hans við Chael Sonnen honum að komast á hærra plan í Bandaríkjunum. Það tók sinn tíma en yfirburðirnir og andstæðingarnir gerðu hann stóran.

Georges St. Pierre: Kanadíska goðsögnin er einn vinsælasti bardagamaður allra tíma. Bardagar hans þóttu ekkert sérstaklega skemmtilegir svona á seinni helming ferilsins en hann hafði þó gífurlega yfirburði sem fólk virðist vera hrifið af. Hann var auðvitað gríðarlega stór í Kanada og þar kom sennilega stór hluti af PPV tekjunum. Þá var hann einn sá fyrsti til að mæta ekki bara í íþróttagallanum á blaðamannafundi. GSP mætti í sérsniðnum jakkafötum á alla blaðamannafundi og kom gríðarlega vel fyrir. Hann talaði kannski ekki í fyrirsögnum en það var alltaf klassi yfir GSP og hann gat litið vel út á auglýsingaskiltum.

ronda rousey

Ronda Rousey: Hún var auðvitað fyrsta konan til að vinna titil í UFC og bar MMA kvenna á herðum sér í nokkur ár. Það helsta sem gerði hana svona stóra voru auðvitað yfirburðirnir í búrinu. Hún sigraði 12 bardaga í röð og kláraði þá alla nema einn í 1. lotu. Fjóra bardaga í röð vann hún samanlagt á tveimur mínútum og tíu sekúndum sem er hreinlega ótrúlegt og verður eflaust aldrei leikið eftir. Fólk vildi sjá hana berjast til að sjá hana rústa andstæðingum sínum og það var öruggt að bardagar hennar voru aldrei leiðinlegir.

Þá átti hún áhugaverðan ríg við Mieshu Tate sem hún barðist við tvisvar og átti ekki erfitt með að rífa kjaft og sýna smá persónuleika. Útlitið skemmdi ekki fyrir og fór hún í ófáar myndatökurnar þegar hún var á toppnum. Fólk annað hvort dýrkaði hana eða hataði hana og það er alltaf gott ef þú vilt verða stjarna.

Brock Lesnar: Tröllið Brock Lesnar er ein stærsta sjónvarpsstjarna allra tíma ef litið er til PPV talna hans í UFC og í fjölbragðaglímunni WWE. Brock Lesnar var auðvitað stór stjarna í fjölbragðaglímunni og var því stórt nafn þegar hann kom í UFC fyrst. En vöðvamikið útlitið og nokkrir flottir sigrar hjálpuðu honum svo sannarlega að verða sú stjarna sem hann er í dag. Hann leit vel út á auglýsingaplaggatinu og var stór maður sem meðal maðurinn myndi aldrei þora að rífa kjaft við á bar (sem er akkúrat andstæðan við það sem menn upplifa þegar þeir sjá Demetrious Johnson).

Conor McGregor: Kjaftfori Írinn er stærsta stjarnan í sögu MMA og er það engin tilviljun. Hann hefur rifið kjaft við allt og alla frá fyrsta degi, ófeiminn við stórar yfirlýsingar og hreinlega kann ekki að halda kjafti. Allt þetta væri ekkert eins skemmtilegt fyrir áhorfendur ef hann væri ekki svona góður í búrinu. Sjö af tíu bardögum hans í UFC hafa endað með rothöggi Conor í vil og hefur hann nánast alltaf staðið við stóru orðin. Það er þessi stöðuga skemmtun og ótrúlegi kjaftur sem hefur gert hann svo stóran. Án tilþrifanna í búrinu væru þetta bara orðin tóm. Hann væri vissulega stór en ekkert í líkingu við það sem hann er í dag.

Hvað býr til stórt nafn?

Yfirburðir: Fólk elskar að horfa á sigurvegara. Floyd Mayweather var aldrei neitt sérstaklega skemmtilegur boxari en hann er samt ein stærsta PPV stjarna allra tíma. Öll stærstu nöfnin hér að ofan eiga það sameiginlegt að hafa notið mikilla yfirburða á einum tímapunkti ferilsins. Brock Lesnar vann ekki meira en fjóra bardaga í röð en hann þurfti ekki að vinna eins mikið þar sem hann var svo þekktur áður en hann byrjaði í MMA.

Vinna stórt nafn: Það að vinna stórt nafn hefur gríðarlega góð áhrif á vinsældir bardagamanna. Nate Diaz varð strax mjög þekktur þegar hann vann Conor McGregor en óljóst er hve stór PPV stjarna hann er þar til hann berst við einhvern annan en Conor. Það sama má segja um Holly Holm, hún varð mjög þekkt eftir sigur sinn á Rondu Rousey en náði þó ekki að fylgja því eftir með öðrum sigrum. Floyd Mayweather varð á sínum tíma stórt nafn í boxinu eftir að hann vann Oscar De La Hoya sem var þá auðvitað eitt stærsta nafnið í boxinu. Eins og við bentum á hér að ofan varð Anderson Silva mun stærra nafn í Brasilíu eftir að hann vann Vitor Belfort.

Persónuleiki: Ronda Rousey, Conor McGregor og Chuck Liddell eru öll skemmtileg í viðtölum og hafa auðveldlega komið sér í fréttirnar með svörum sínum. Persónuleiki Rondu var eitthvað sem heillaði meginstraums fjölmiðla og sama má segja um útlit hennar. Jose Aldo og Demetrious Johnson hafa báðir notið mikilla yfirburða en aldrei þótt neitt sérstaklega skemmtilegir í viðtölum. Chael Sonnen var ekkert meira en meðalbardagamaður en hann er með skemmtilegan persónuleika og kann að selja bardaga.

Skemmtilegir bardagar: Fólk vildi alltaf stilla inn á til að sjá Chuck Liddell rota einhvern og fólk horfði á Anderson Silva til að sjá hann gera eitthvað ótrúlegt. Bardagar þeirra og Conor McGregor eru alltaf skemmtilegir og það er það sem fólk vill umfram allt sjá – skemmtun!

Umdeildur: Það er gott að vera umdeildur eins og Conor McGregor, Ronda Rousey og Floyd Mayweather. Margir horfa á Conor bara í þeirri von um að sjá hann tapa og fögnuðu þeir manna mest þegar Nate Diaz sigraði hann í fyrra. Floyd Mayweather er sennilega einn hataðasti íþróttamaður síðari ára og vekur mikla athygli á sér með litríkum lífstíl sínum.

Það er því margt sem getur gert bardagamenn að stórum nöfnum en þó er alltaf erfitt að spá fyrir um hvaða bardagamenn verða stórstjörnur og hverjir ekki.

Amanda Nunes og Cody Garbrandt eru kannski þau sem gætu orðið næstu stjörnur í MMA. Til þess þyrftu þau að fara á góða sigurgöngu, klára andstæðinga sína sannfærandi og þá er aldrei að vita nema þau geti orðið stór nöfn. Það er þó ekkert öruggt í þessu en Jon Jones, Demetrious Johnson og Jose Aldo hafa aldrei náð að verða risastórar stjörnur þrátt fyrir mikla yfirburði í búrinu en það er efni í aðra grein.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular