Thursday, March 28, 2024
HomeErlentHverju ætlar UFC að tefla fram í MSG?

Hverju ætlar UFC að tefla fram í MSG?

Árleg heimsókn UFC í eina frægustu íþróttahöll heims, Madison Square Garden, verður þann 3. nóvember. UFC 230 fer þá fram og nú er spurning hvaða stóru nöfn berjast á einum stærsta viðburði ársins.

UFC hefur tvívegis haldið bardagakvöld í Madison Square Garden (MSG) í New York. Í þeirra fyrstu heimsókn árið 2016 sáum við þrjá titilbardaga en í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Conor McGregor og Eddie Alvarez. Í fyrra fengum við einnig þrjá titilbardaga en þá voru það þeir Georges St. Pierre og Michael Bisping í aðalbardaga kvöldsins.

UFC er farið að bóka bardaga á UFC 230 þann 3. nóvember en enn vantar aðalbardaga kvöldsins. Þeir Nate Diaz og Dustin Poirier mætast (enn sem komið er) í næstsíðasta bardaga kvöldsins og nú er spurning hver aðalbardagi kvöldsins verður.

Það er hægt að útiloka að Conor McGregor berjist í MSG enda mætir hann Khabib Nurmagomedov mánuði fyrr. Það væri ekki nema annar hvor þeirra myndi meiðast lítillega og bardaga þeirra yrði frestað um fjórar vikur en það er frekar ólíklegt. Millivigtarmeistarinn Robert Whittaker verður ekki tilbúinn fyrr en á næsta ári og getum við því útilokað að hann berjist í MSG í ár.

Í kvennaflokkunum er Rose Namajunas ríkjandi meistari en hún er án andstæðings eins og er. Þær Jessica Andrade og Karolina Kowalkiewicz mætast á UFC 228 í september en sigurvegarinn þar mun að öllum líkindum fá næsta titilbardaga. Það væri ansi snöggur viðsnúningur fyrir sigurvegarann þar og satt best að segja ekki nægilega stór bardagi til að vera aðalbardaginn í MSG og það sama má segja um titilbardaga í fluguvigt kvenna.

Bantamvigtarmeistarinn Amanda Nunes og fjaðurvigtarmeistarinn Cris ‘Cyborg’ Justino munu að öllum líkindum mætast á þessu ári. Einhverjar tafir hafa orðið á staðfestingu bardagans en talið er líklegt að bardaginn endi á UFC 232 í lok desember. UFC gæti hent þessum bardaga í MSG í nóvember enda væri það skemmtilegur ofurbardagi á milli tveggja sigursælla meistara og tvær af bestu konunum í MMA í dag.

Það er enginn líklegur áskorandi til staðar fyrir Henry Cejudo enda fyrrum meistarinn Demetrious Johnson meiddur og er ólíklegt að DJ geti barist strax í nóvember. Cejudo gæti þó mætt bantamvigtarmeistaranum T.J. Dillashaw í ofurbardaga. Báðir virðast vera til í ofurbardaga en það verður samt að teljast ólíklegt að meistari sem aldrei hefur varið beltið sitt og er ekki stórt nafn fái strax tækifæri á öðru belti.

Enginn veit hvað hefur amað að Max Holloway undanfarnar vikur en hann þurfti skyndilega að hætta við bardaga sinn gegn Brian Ortega fyrr í sumar. Holloway er þó á batavegi en það er áhyggjuefni að Holloway skuli ekki ennþá vera kominn með svör við þeim veikindum sem hrjáðu hann í júlí. Bardagi Holloway og Ortega gæti þó vel átt heima sem aðalbardaginn á UFC 230.

Veltivigtarmeistarinn sívinsæli, Tyron Woodley, mun verja beltið sitt þann 8. september gegn Darren Till. Hugsanlega gæti sigurvegarinn þar snúið fljótt aftur og mætt Colby Covington átta vikum síðar en það er frekar ólíklegt. Tækifæri á að vera í aðalbardaga kvöldsins í MSG mun samt alltaf heilla.

Daniel Cormeir er svo með bæði beltin hjá stóru strákunum. Eftir að bardagi Alexander Gustafsson og Volkan Oezdemir datt út er enginn líklegur áskorandi fyrir Cormier í léttþungavigtinni. Cormier gæti varið þungavigtarbeltið sitt en hann mun sennilega bíða eftir Brock Lesnar og stóru fjárhæðunum sem fylgja þeim bardaga. Lesnar er enn í banni og má ekki berjast fyrr en í fyrsta lagi í janúar.

Miðað við ríkjandi meistara er ekkert um einhverja risabardaga á döfinni. Það væri þá ekki nema að UFC hendi fram einhverjum gömlum kóngum eins og Georges St. Pierre, Anderson Silva og Nick Diaz í einhvers konar ofurbardaga.

Það eru nokkrir fínir möguleikar í boði fyrir UFC en vantar kannski þetta stóra nafn eins og Conor McGregor, Rondu Rousey eða Georges St. Pierre til að gera þetta að alvöru risa kvöldi. Það er þó aldrei að vita nema Jon nokkur Jones skjóti allt í einu upp kollinum en USADA (sem sér um lyfjamál UFC) á enn eftir að klára hans mál.

Hér að neðan má svo sjá þá bardaga sem hafa verið staðfestir á UFC 230 en auk neðangreindra bardaga er ansi líklegt að þeir Chris Weidman og Luke Rockhold mætist aftur.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular