Thursday, April 18, 2024
HomeForsíðaHvað segja erlendu sérfræðingarnir um bardaga Gunnars og Jouban?

Hvað segja erlendu sérfræðingarnir um bardaga Gunnars og Jouban?

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Það er alltaf gaman að sjá hvað erlendu sérfræðingarnir hafa að segja um bardaga Gunnars. Gunnar mætir Alan Jouban í kvöld en hér höfum við tekið saman það helsta sem þeir hafa að segja um bardagann.

Allir pennar Sherdog telja að Gunnar fari með sigur af hólmi nema einn. Connor Reubusch skoðar alla bardaga kvöldsins og hafði þetta að segja um bardaga Gunnars og Jouban:

„Jouban þarf nokkra hluti til að vinna Nelson. Í fyrsta lagi ráðast á skrokkinn til að þreyta Nelson og það ætti ekki að vera vandamál fyrir Jouban sem elskar spörk í lifrina. Í öðru lagi þarf hann að verjast í gólfinu ef hann er tekinn niður. Gólfglíma Jouban er sjaldséð en hann er mjög góður þar. Í þriðja lagi þarf hann smá heppni. Nelson er með mikinn sprengikraft og er erfitt að lesa hann. Jouban mun án efa vera á tæpasta vaði og þá sérstaklega í fyrri hluta bardagans. Ef hann lifir það af getur hann unnið. Jouban vinnur eftir einróma dómaraákvörðun.“

Þess má geta að sá sami var handviss um að Tumenov myndi vinna Gunnar.

Sjö af 11 pennum MMA Junkie velja Gunnar á meðan fjórir telja að Jouban sigri.

Enginn af Bloody Elbow pennunum velur Jouban en allir eru þó á því að Jouban hafi vopn til að valda Gunnari vandræðum og vinna. Nokkrir benda á að Gunnar byrji vel en svo fjari út og þá eigi Jouban mikla möguleika. Að þeirra mati verður þetta jafn bardagi en Gunnar ætti að taka þetta.

MMA Mania telur að Jouban sigri. „Nelson er góður standandi en kærulaus nálgun hans skorar ekki nægilega mörg stig gegn Jouban sem er mun duglegri standandi. Ef Jouban nær að halda þessu standandi, sem hann mun örugglega gera, mun sá myndarlegi vinna eftir örugga dómaraákvörðun. Jouban sigrar Nelson eftir einróma dómaraákvörðun.

Vefsíða UFC velur Gunnar en bendir á að Jouban geti svo sannarlega meitt Gunnar standandi þó hann verði kannski upptekinn að verjast fyrst um sinn. Damon Martin sem skrifar greinina telur að eitt af bestu vopnum Jouban séu hnéspörk eða upphögg þegar Gunnar fer í felluna.

Luke Thomas telur að Gunnar muni hreinlega valta yfir Jouban og bendir á að Jouban taki slæmar ákvarðanir þegar hann þarf að bregðast við á augabragði.

Gunnar er sigurstranglegri samkvæmt veðbönkum en margir af ofangreindum sérfræðingum eru hissa á hve ójafnir stuðlarnir séu enda á Jouban góða möguleika gegn Gunnari.

Bardaginn er í kvöld en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 21 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Gunnar Nelson ætti að byrja í kringum 22 leitið.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular