Kolbeinn Kristinsson er nýr WBF heimsmeistarinn í hnefaleikum
Kolbeinn Kristinsson átti heldur betur góðan dag á skrifstofunni þegar hann sigraði Mike Lehnis í 1.FCN leikvanginum í gær. Þetta var átjándi bardaginn hans Kolbeins á ferlinum og jafnframt hans átjándi sigur. Kolbeinn sigraði Lehnis eftir sjöttu lotu en Mike Lehnis neitaði að koma úr horninu sínu og halda bardaganum áfram þegar sjöunda lotan var við það að hefjast. Þetta er í fjórða skiptið í röð þar sem andstæðingurinn hans Kolbeins neitar að stiga út úr horninu sínu og halda bardaganum áfram. Kolbeinn vann WBF heimsmeistaratitilinn með sigrinum gegn Lehnis og heldur því á tveimur titlum samtímis en Kolbeinn er nú þegar Baltic Union Boxing meistari, titil sem hann vann í Finnlandi í fyrra.
Bardaginn við Mike Lehnis átti upprunalega að vera upp á GBU heimsmeistaratitilinn en þýska hnefaleikasambandið neitaði að samþykkja bardagann með GBU beltið undir. Því var ákveðið að WBF-beltið yrði undir í staðinn. Bardaginn hefði getað enst í tólf lotur ef hann hefði farið alla leið og endað í dómaraúrskurði en það tók Kolbein aðeins sex lotur að brjóta Lehnis niður á líkama og sál.
Lehnis byrjaði bardagann vel og átti Kolbeinn erfitt með að koma sér almennilega í gang til að byrja með. Fyrstu þrjár loturnar hafa að öllum líkindum farið til Lehnis en í fjórðu lotu byrjaði bardaginn að snúast Kolbeini í hag. Kolbeinn sló Lehnis svo niður í fimmtu lotu og líklegt að bardaginn hafi jafnast þar á stigatöflu dómaranna. Í sjöttu lotu var Lehnis lengi að standa upp af stólnum sínum og má segja að hann hafi verið heppinn að vera ekki dæmdur úr leik þá. Lehnis átti vægast sagt ósannfærandi frammistöðu í sjöttu og seinustu lotunni og virtist aðeins tímaspursmál hvenær Kolbeinn myndi finna rothöggið og ljúka bardaganum af.
Kolbeinn byrjaði á því að lenda þungum vinstri krók sem smellhitti og tók jafnvægið undan Lehnis, seinna lenti Kolbeinn hægri hendi sem sló munnstykkið úr Lehnis og hafnaði það á gólfinu langt fyrir utan hringinn. Þjóðverjarnir tóku sér góðan tíma til að sækja munnstykkið, þrífa það og reyna fá sinn mann í gang áður en bardaginn var látinn halda áfram. Lehnis var þá búinn að fá góða pásu en dómarinn var hvergi nærri hættur og skipaði Kolbeini að laga teipið utan á hönskunum sínum. Lehnis hafði þá líklega fengið um eina og hálfa mínútu til að jafna sig eftir höggin frá Kolbeini. Bardaginn hélt áfram og endaði með því að Lehnis hengir á Kolbeini, þeir snúast í hring og falla saman í gólfið. Dómarinn skipar þeim að standa upp og fara í hornin sín en tekur í hendina á Lehnis til að hjálpa honum að standa upp – sem er alveg hrikalega bannað! Þó að Þjóðverjinn hafi gert ýmislegt til að hjálpa sínum manni að ná áttu var ekki hægt að fá Lehnis til að halda áfram og veifaði dómarinn bardagann af.
Kolbeinn hefur verið virkilega aktífur upp á síðkastið og má búast við að hann snúi aftur í hringinn bráðlega. Eins og er hefur Kolbeinn samþykkt að berjast á heljarinnar hnefaleikakvöldi í Kongo í febrúar en hann vildi ekki staðhæfa við MMA Fréttir að það væri endilega næst á dagskrá hjá honum og að margt væri að ske á bak við tjöldin.
Mike Lehnis, fyrir bardagann gegn Kolbeini, hafði fengið boð um að berjast á hnefaleikakvöldi í Ríad á einum af stærstu viðburðum ársins með því skilyrði að honum tækist að sigra Kolbein. En Lehnis situr eftir með sárt ennið eftir viðskiptin sín við íslenska ísbjörninn sem kramdi alla drauma þjóðverjans.
Það þarf ekki neinar snilldargáfur til að máta Kolbein við sama tilboð og Lehnis var með á borðinu og því vert að velta fyrir sér hvort leiðin liggi til Sádí Arabíu. En það má teljast öruggt að stórir hlutir séu fram undan fyrir hin ósigraða BBU og WBF heimsmeistarann!
Hægt er að horfa á bardagann inn á Youtube síðu MMA Frétta – Bardaginn hefst ca. á 2:47:00