0

Lyfjapróf Anderson Silva innihélt stera og þvaglosandi efni

Anderson Silva féll á lyfjaprófi á síðasta ári og nú hefur verið greint frá efnunum sem fundust í lyfjaprófinu. Efnin tvo sem fundust reyndust vera anabólískur steri og þvaglosandi efni.

Anderson Silva átti að mæta Kelvin Gastelum í nóvember í fyrra. Nokkrum vikum fyrir bardagann var hann sviptur réttinum til að keppa þar sem hann féll á lyfjaprófi. Lyfjaprófið var tekið þann 26. október á síðasta ári af USADA sem sér um öll lyfjamál UFC.

Anabólíski sterinn sem fannst í lyfjaprófinu kallast methyltestosterone en Combate greindi fyrst frá. Sterinn er gjarnan notaður af karlmönnum þegar líkaminn getur ekki framleitt nógu mikið testósterón og er keimlíkur nátturulega testósteróninu sem líkaminn framleiðir sjálfur. Sterinn getur einnig verið notaður við meðferð á brjóstakrabbameini hjá konum.

Þar sem þetta er anabólískur steri gæti Silva fengið tveggja ára bann. Hinn 42 ára Silva neitar því að hafa tekið inn ólögleg efni og er málið hans til rannsóknar hjá USADA.

Silva féll einnig á lyfjaprófi árið 2015 fyrir bardaga hans gegn Nick Diaz en þar var einnig um anabólíska stera að ræða. Þar fékk hann eins árs bann af íþróttasambandi Nevada fylkis (NAC) en það var áður en USADA tók yfir lyfjamálin hjá UFC. USADA gæti tekið fyrra brotið með í reikninginn þegar refsing Silva verður ákveðin en Silva og hans lið eru andsnúnir því. Silva og hans lið vilja meina að það eigi ekki að vera tekið með enda var það áður en samstarf USADA og UFC hófst. Ef USADA tekur fyrra brotið með gæti Silva fengið fjögurra ára bann.

Þetta setur (aftur) stóran svartan blett á feril eins besta bardagamanns allra tíma. Anderson Silva var lengi vel millivigtarmeistari UFC en hann vann 16 bardaga í röð í UFC þegar hann var upp á sitt besta. Það met stendur enn í dag og átti hann flestar titilvarnir í sögu UFC þar til Demetrious Johnson bætti það met í fyrra.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.