Dana White er nýbúinn að færa okkur allskonar bardagafregnir og ein þeirra er að Leon Edwards er kominn með nýjan andstæðing fyrir bardagakvöldið í London 22. mars, þar sem Gunnar Nelson verður einnig að berjast.
Það stóð til að Shavkat Rakhmonov yrði næstur til að skora veltivigtarmeistarann Belal Muhammad á hólm en vegna meiðsla þarf Shavkat að sitja hjá. Af þeim sökum hafa UFC dregið Jack Della Maddalena úr aðalbardaganum í London gegn Leon Edwards og gefið honum titilskot gegn Belal á UFC 315 sem haldið verður 10. maí í Montreal, Kanada.
Maðurinn sem leysir Maddalena af í bardaganum gegn Leon Edwards í London er enginn annar en Sean Brady. Brady er aðeins með 1 tap á ferlinum, gegn núverandi meistara Belal Muhammad, en þeir mættust á UFC 280 í október 2022 sem endaði á standandi TKO í 2. lotu. Auk þess að vera eina tap Sean Brady er það einnig eini bardaginn sem Belal Muhammad hefur klárað síðan 2019 en meistarinn hefur oft verið gagnrýndur fyrir að klára ekki andstæðinga sína. Þó margir hafi eflaust verið spenntir að sjá Edwards gegn Maddalena verður bardaginn milli Edwards og Brady einnig að teljast spennandi. Edwards er kannski aðeins meiri striker á meðan Brady er kannski aðeins meiri grappler en báðir menn eru góðir allsstaðar. Þeir eru þó báðir svolítið fyrir að fara alla leið í dómaraákvörðun í bardögum sínum, en það þarf ekki endilega að vera slæmt.






