Tuesday, September 10, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 200

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 200

amanda nunesRisa bardagakvöldið UFC 200 fór fram um helgina. Þó bardagakvöldið hafi að mörgu leyti ekki staðið undir væntingum er enginn skortur á umræðuefnum eftir helgina.

Amanda Nunes er nýr bantamvigtarmeistari UFC. Nunes hakkaði Mieshu Tate í sig í fyrstu lotu og enn einu sinni erum við með nýjan meistara í bantamvigt kvenna. Nunes er konan sem sigraði konuna sem sigraði konuna sem sigraði Rondu Rousey.

Hún hefur nú klárað tíu bardaga í fyrstu lotu og er það nokkuð sem áhorfendum finnst ekki leiðinlegt. Bardagi gegn Rondu Rousey yrði svo sannarlega áhugaverður og hlýtur nú að fara að styttast í endurkomu hennar.

Þó ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum er bardagi milli Nunes og Rousey afar áhugaverður. Sá bardagi mun kannski ekki selja jafn mikið og bardagi Rousey gegn Mieshu Tate en Nunes er ferskari og meira spennandi valkostur ef litið er á stíl beggja.

Brock Lesnar kom mörgum að óvörum og sigraði Mark Hunt. Fáranlega sveittur Brock Lesnar kláraði 3. lotuna ofan á Mark Hunt og átti Hunt fá svör. Lesnar sýndi að þó hann sé 38 ára gamall og ekki búinn að berjast í fjögur ár getur hann enn sigrað topp 10 bardagamenn í þungavigt UFC.

Fyrirfram var alltaf talað um að þetta yrði bara einn bardagi hjá Lesnar og svo myndi hann aftur snúa sér að fjölbragðaglímunni. Miðað við ummæli hans á blaðamannafundinum eftir bardagann ætti það ekki að koma á óvart ef hann heldur áfram.

Ef hann heldur áfram gætum við séð UFC freistast til þess að gefa honum óverðskuldaðan titilbardaga. Ef Alistair Overeem sigrar Stipe Miocic um þungavigtarbeltið í september gæti Brock Lesnar verið fyrsta áskorun Overeem.

Hollendingurinn Overeem sigraði Lesnar í desember 2011 í bardaga sem talin var vera sá síðasti á ferli Lesnar. Þá var Lesnar enn að glíma við veikindin og nokkrum mánuðum síðar féll Overeem á lyfjaprófi. Það þarf enginn að segja mér að þetta sé ekki bardagi sem UFC myndi vilja setja saman. Nýju eigendurnir gætu fengið vel í aðra hönd ef sá bardagi yrði settur saman. Aldrei að vita en sjáum hvað setur.

daniel cormier anderson silva

Daniel Cormier er af einhverjum ástæðum ekki sá vinsælasti meðal áhorfenda. Bardagi hans gegn Anderson Silva var enginn stórkostleg skemmtun en áhorfendur bauluðu gríðarlega á meðan Cormier var ofan á Silva. Baulið var ekki af sama mæli þegar Brock Lesnar var ofan á Mark Hunt.

Þetta baul er óréttlætanlegt. Daniel Cormier var að mæta allt öðruvísi andstæðingi en hann hafði undirbúið sig fyrir svo mánuðum skiptir. Hann var að mæta manni sem er vissulega kominn af léttasta skeiði en er með tugi rothögga á ferilskránni. Átti hann að standa og skiptast á höggum við hann þegar hann veit að hann getur tekið hann niður? Að sjálfsögðu ekki. Það var gríðarlega mikið í húfi fyrir Cormier og þurfti hann ekki að taka þennan bardaga með tveggja daga fyrirvara. Hann nýtti sér sína styrkleika og vann.

Áhorfendur baula stöðugt á Cormier á blaðamannafundum en klappa fyrir Jones. Jones hefði aldrei tekið bardaga við allt annan andstæðing en upphaflega var ætlað með aðeins tveggja daga fyrirvara – hvað þá manni með tugi rothögga á ferilskránni. Cormier er nánast eins og Rodney Dangerfield, fær enga virðingu.

Bardagi Jose Aldo og Frankie Edgar var tæknilega besti bardagi kvöldsins. Tveir frábærir bardagamenn að mætast í annað sinn. Fyrir bardagann var mikið talað um hvernig Jose Aldo kæmi til baka eftir rothöggið gegn Conor McGregor. Óhætt er að segja að Aldo hafi litið mjög vel út.

Það er kannski ofsögum sagt að Aldo sé allt annar bardagamaður í dag en fyrir ári síðan en hann sýndi nýjar hliðar. Hann var að hitta Edgar oft með beinni hægri sem gagnárás og sýndi sennilega einhverja bestu felluvörn sem sést hefur. Edgar náði aldrei að taka Aldo niður í 11 tilraunum. Hann er núna bráðabirgðarmeistari UFC í fjaðurvigtinni og mun mæta Conor McGregor þegar (ef?) hann fer aftur niður í fjaðurvigt.

Cain Velasquez sýndi ekta Cain Velasquez frammistöð sinni þegar hann valtaði yfir Travis Browne. Svona þekkjum við Cain og sýndi hann meira að segja nokkur ný trikk eins og snúningshælspark! Núna er bara að bíða og sjá hvort að Velasquez hafi komið alveg heill úr þessum bardaga.

Ef svo er ætti hann bara að skella sér aftur í búrið sem fyrst í stað þess að bíða eftir mögulegum titilbardaga. Nýta tækifærið á meðan hann er heill. Reyndar eru allir topp sex bardagamennirnir á styrkleikalista UFC með bardaga en kannski mun einhver meiðast. Stipe Miocic mun verja þungavigtarbeltið sitt gegn Alistair Overeem þann 10. september og gæti því biðin eftir titilbardaga verið löng fyrir Velasquez.

Á heildina litið var bardagakvöldið ekki sú flugeldasýning sem búist var við en þetta var skemmtileg helgi í alla staði. Við fengum 36 bardaga, furðulega gult gólf í búrinu á UFC 200, nýja liti í Reebok fötunum og mörg frábær tilþrif.

Næsta UFC er strax á miðvikudaginn þegar UFC heimsækir Sioux Falls þar sem þeir Michael McDonald og John Lineker eigast við í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular