Thursday, March 28, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 209

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 209

UFC 209 fór fram um helgina og var bardagakvöldið fínasta skemmtun. Tyron Woodley hélt veltivigtarbeltinu eftir umdeildan sigur en hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir helgina.

Tyron Woodley bar sigur úr býtum gegn Stephen ‘Wonderboy’ Thompson. Að mati tveggja dómara vann Woodley þrjár lotur gegn tveimur hjá Thompson en ekki eru allir sammála niðurstöðu dómaranna. Margir fjömiðlamenn, Dana White og aðdáendur töldu að Thompson hefði unnið þrjár lotur.

Þetta er þó viðureign sem við þurfum ekkert að sjá aftur. Þetta eru tveir bardagamenn sem kjósa að beita gagnárásum standandi og var því mjög lítið að gerast í þessum 25 mínútna bardaga eins og má sjá á myndinni hér að neðan.

Fight Metric Stephen Thompson UFC 209 Tyron Woodley
Tölur frá Fight Metric.

Við ætlum þó ekki að fara ýtarlega yfir dómaraákvörðunina hér heldur ætlum við aðeins að pæla í Tyron Woodley.

Bardaginn á laugardaginn sýndi hvers vegna Tyron Woodley mun ekki fá stóra peningabardaga á næstunni og hvers vegna hann er fremur óvinsæll meistari. Á milli þess sem hann nær rothöggi með stórum bombum eins og gegn Robbie Lawler, Dong Hyun Kim og Josh Koscheck er hann í tíðindarlitlum bardögum. Frammistöðurnar gegn Jake Shields, Kelvin Gastelum og nú Stephen Thompson skilja eftir sig ákveðið óbragð.

Tyron Woodley vill verða vinsæll meistari eða að minnsta kosti meistari sem fær aðdáendur til að kaupa Pay Per View bardagakvöldsins. Hann vill fá stóra bardaga og allt sem því fylgir en til þess þarf hann að vera stöðugri í sínum frammistöðu.

Að klára bardaga eftir bardaga með stæl eins og Conor McGregor og Ronda Rousey hafa gert er eitt það erfiðasta í bardagaíþróttum. Það eru afskaplega fáir sem geta gert það og þess vegna eru svo fáir sem ná að verða stórar stjörnur eins og Jones og fyrrgreindir bardagamenn. Auk þess er tuðið í Woodley yfir ósanngjarna meðferð ekki að hjálpa.

Þetta var tæknilegur bardagi og báðir bardagamenn þorðu ekki að gera mikið af ótta við að lenda í gagnárásum. Það er vel skiljanlegt en bardagaaðdáendur búast við meiru á þessu stigi íþróttarinnar.

Loturnar tíu sýndu eiginlega allt sem Woodley er fær um. Hann getur bombað menn niður, getur tekið menn niður og stjórnað þeim vel þar og líka gert nákvæmlega ekki neitt löngum stundum.

Þó við séum mikið að tala um Woodley má ekki gleyma því að það þarf tvo til að dansa tangó. Stephen Thompson á alveg jafn mikla sök á því að bardaginn var eins og hann var. Mörgum finnst ósanngjarnt að Woodley sé meistarinn en í báðum bardögunum var hann mun nær því að klára bardagann.

Nú er bara spurningin, hvað er næst fyrir Woodley? Demian Maia ætti að vera 100% næstur í röðinni en af einhverjum ástæðum var Maia bókaður nokkrum dögum fyrir bardagann um helgina. Maia mætir Jorge Masvidal í maí og er spurning hvort Woodley muni bíða þangað til eða vera bókaður gegn öðrum andstæðingi.

Það er óskiljanlegt að UFC hafi bókað Maia þegar hann var búinn að gera nóg til að fá titilbardaga. Vonandi fær Woodley bara smá hvíld á meðan hann bíður eftir sigurvegara úr viðureign Maia og Masvidal.

Mynd: Ester Lin

Alistair Overeem átti glæsilega frammistöðu þegar hann rotaði Mark Hunt í 3. lotu. Overeem var að stjórna vel, annað hvort alveg úti eða alveg inni (clinch). Overeem fékk meira að segja þung högg í höfuðið frá Mark Hunt en stóð þau af sér. Þetta var sennilega ein besta frammistaða Overeem í UFC og minnti hann aðdáendur á að hann væri alls ekki búinn.

Overeem er 36 ára og hefur verið rotaður 13 sinnum á ferli sínum í MMA og sparkboxi en virðist enn eiga eitthvað eftir. Þess má geta að Overeem er búinn með 58 MMA bardaga og 14 í sparkboxi. Það er enginn smá reynsla í þessum gæja og margar mílur á tankinum. En hann er enn í fremstu röð og mun vera það eitthvað aðeins lengur.

David Teymur og Cynthia Calvillo áttu líka frábærar frammistöður. Það voru ekki margir sem reiknuðu með sigri Teymur en hann kom verulega á óvart gegn Lando Vannata og er nú 3-0 í UFC. Calvillo sýndi svo magnaða tilburði þegar hún fór úr „D’Arce“ hengingu og yfir í „rear naked choke“.

Darren Elkins og Iuri Alcantari sýndu báðir magnaðar endurkomur í sínum bardögum. Alcantara var í tómu basli með Luke Sanders og hefði bardaginn getað verið stöðvaður í 1. lotu. Upp úr engu náði Alcantara hins vegar glæsilegum „kneebar“ og tappaði Sanders út. Það verður sennilega á lista yfir endurkomur ársins þegar árið verður gert upp.

Sú endurkoma fellur samt auðveldlega í skuggann á endurkomu Darren ‘The Damage’ Elkins. Mirsad Bektic var einfaldlega að lemja Elkins í döðlur í tvær og hálfa lotu. Þetta var ótrúlega einhliða bardagi en eins og Elkins hefur áður sýnt þarf ótrúlega mikið til að klára hann. Elkins var blóðugur, marinn, laminn og illa farinn en náði samt að rota Bektic þegar sá síðarnefndi var orðinn þreyttur.

Næsta UFC fer fram nú á laugardaginn í Brasilíu. UFC er með mjög skemmtilegt Fight Night kvöld þar sem Kelvin Gastelum og Vitor Belfort eigast við í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular