0

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 213

Um helgina fór UFC 213 fram þar sem Robert Whittaker varð nýr bráðabirgðarmeistari í millivigtinni eftir glæstan sigur á Yoel Romero. Hér eru Mánudagshugleiðingar eftir helgina.

Robert Whittaker gerði það sem margir efuðust um að hann gæti og sigraði vélina Yoel Romero um helgina. Uppgangur Whittaker í millivigtinni hefur í raun verið lygilegur.

Árið 2014 var Whittaker nýbúinn að tapa tveimur í röð í veltiviginni gegn Court McGee og Stephen Thompson. Skömmu síðar ákvað hann að færa sig upp í millivigtina en á þeim tíma var Chris Weidman kóngurinn eftir að hafa sigrað Anderson Silva tvisvar og síðan varið titilinn gegn Lyoto Machida. Það var ekkert sem gaf til kynna að hinn 24 ára gamli Nýsjálendingur, Robert Whittaker, væri efni í meistara í millivigtinni.

Whittaker má um margt líkja við fjaðurvigtarmeistarann Max Holloway. Báðir koma frá afskekktum svæðum, annar frá Nýja-Sjálandi og hinn frá Hawaí og báðir áttu þeir frekar hógvært upphaf á ferlinum í UFC. Þeir hafa lengi verið vanmetnir en bætt sig hægt og rólega og sigrað hvern andstæðinginn á fætur öðrum.

Whittaker hefur nú sigrað átta í röð á meðan Holloway hefur sigrað 11 í röð og báðir eru þeir ungir: Holloway 25 og Whittaker 26 ára. Það verður áhugavert að sjá hvort Whittaker getur gert það sem Holloway gerði gegn Aldo og sameinað beltin í millivigtinni þegar hann mætir Michael Bisping.

Að sigra Yoel Romero með þeim hætti sem Whittaker gerði er án efa stærsta fjöður í hatt hans hingað til. Romero hefur litið nær óstöðvandi út; valtað yfir Lyoto Machida, ‘Jacaré’ Souza og Chris Weidman. Hinn fertugi Kúbverji tók tapinu vel og virðist horfa fram á veginn enda eru margir spennandi bardagar fyrir Romero í millivigtinni. Útlit er fyrir að einhver hreyfing sé loks að komast á hlutina efst í flokknum eftir mjög svo frústrerandi stöðu með Bisping á toppnum þar sem hann hefur ekki barist við neina af helstu áskorendunum síðan hann hirti titilinn af Rockhold í júní 2016.

Einn bardagi sem við fengum ekki að sjá var titilibardagi í bantamvigt kvenna. Amanda Nunes sagðist vera veik og ekki geta barist. Læknar gáfu henni grænt ljós á að keppa en Nunes valdi þrátt fyrir það að sitja hjá. Samkvæmt henni hrjáist hún af krónískum kinnholubólgum og að það hefði verið ógjörningur fyrir hana að keppa í því ástandi.

Dana White var að vonum mjög óhress með þessa ákvörðun Nunes, sem og andstæðingur hennar Valentina Shevchenko. White var harðorður í garð meistarans og tíminn verður að leiða í ljós hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér fyrir Nunes.

Næsta UFC fer fram á sunnudaginn í Skotlandi en þá keppir okkar maður Gunnar Nelson í aðalbardaga kvöldsins gegn Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio.

Guttormur Árni Ársælsson

-Pistlahöfundur
-Fjólublátt belti í BJJ
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
-M.Sc. í viðskiptafræði
Guttormur Árni Ársælsson

Comments

comments

Guttormur Árni Ársælsson

-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera -M.Sc. í viðskiptafræði

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.