Friday, March 29, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 224

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 224

UFC 224 fór fram um síðustu helgi og var bardagakvöldið einfaldlega geggjað. 11 af 13 bardögum kvöldsins kláruðust og er af nógu að tala um í Mánudagshugleiðingunum eftir bardagakvöldið.

Amanda Nunes var ekki í teljandi vandræðum með Raquel Pennington í aðalbardaga kvöldsins. Nunes kláraði Pennington með tæknilegu rothöggi í 5. lotu og hefur hún nú varið bantamvigtartitilinn þrisvar sinnum. Pennington ógnaði Nunes lítið sem var eitthvað sem margir bjuggust við fyrirfram og virðist Nunes bera höfuð og herðar yfir aðrar konur í þyngdarflokkinum.

Öllum spurningum um vafasamt þol Nunes hefur eflaust verið svarað enda hefur hún litið út fyrir að vera nokkuð spræk í 5. lotu nú tvo bardaga í röð. Enginn augljós áskorandi fyrir Nunes er í augsýn þessa stundina. Holly Holm er sem stendur flokki fyrir ofan og mætir Megan Anderson í fjaðurvigt í júní. Juliana Pena tapaði sínum síðasta bardaga og eignaðist barn nýlega og er þar af leiðandi ekki á leiðinni í búrið á næstunni. Ketlan Vieira er ekki spennandi kostur fyrir Nunes og virðist ekki vera mikil ógn fyrir ríkjandi meistara. Besti kosturinn í stöðunni væri því að sjá Nunes skora á fjaðurvigtarmeistarann Cris ‘Cyborg’ Justino og væri það hörku bardagi.

Embed from Getty Images

Stærsta umræðuefnið eftir helgina er sú ákvörðun hjá horni Pennington að láta hana halda áfram þrátt fyrir að Pennington hafi sagst vilja hætta. Mikið hefur verið deilt um þá ákvörðun og menn og konur ýmist komið horni Pennington til varnar eða gagnrýnt. Pennington sagði eftir fjórðu lotu að hún vildi ekki halda áfram en hornið sannfærði hana um að halda áfram. Það eina sem Pennington fékk með því að halda áfram voru fleiri högg og meiri barsmíðar.

Pennington vildi augljóslega hætta og ef dómarinn hefði heyrt í henni hefði hann stöðvað bardagann. Hlutverk hornsins er að styðja við bardagamanninn/konuna, gefa góð ráð, veita hvatningu og stundum þarf að taka ábyrgð á öryggi keppenda eins og dómarinn ‘Big’ John McCarthy orðaði það. Þegar keppandi segir að þetta sé búið á þetta að vera búið.

Þegar Pennington sagðist vilja hætta hvatti hornið hana áfram og sögðu henni að gefa allt í þetta. En var hún ekki búin að gefa nákvæmlega allt í þetta í 20 mínútur og langt frá því að ná sigri? Hvað átti að breytast á þessum síðustu fimm mínútum? Pennington var búin að gefa allt í þetta en hæfileikamunurinn á Pennington og Nunes er bara það mikill eins og sást í bardaganum. Það að senda Pennington út í síðustu lotuna þegar hún er þegar búin að gefast upp í hausnum er svo ólíklegt til árangurs. Það voru svona 1% líkur á að ná einhverri bombu sem hefði rotað Nunes enda Pennington ekki þekkt fyrir mikinn höggþunga með sinn eina sigur á ferlinum eftir rothögg. Hornið var búið að segja henni að gefa allt í þetta en það var bara ekki nóg. Í versta falli átti hornið að kasta inn handklæðinu þegar Nunes náði fellunni í 5. lotu. Þá var sénsinn á rothöggi alveg farinn.

Tecia Torres, unnusta Pennington, sagði á Instagram í gær að þær hefðu verið sammála ákvörðun hornsins. Við getum tautað og gagnrýnt ákvörðunina en Pennington segist vera sátt með ákvörðunina. Þegar allt er á botninn hvolft þekkir hornið Pennington betur en við munum nokkurn tímann gera.

#Forever I am extremely proud of my lady. You are a warrior babe. Fought every second you possibly could. You continue to amaze me daily. You motivate me to work hard and one day too receive the same opportunity to fight for a UFC championship. We are the 1%ers. Very few will ever know what we go thru as fighters and an even smaller percentage will ever earn the chance to fight on such a big stage and for a world title. #RideOrDie #AlwaysProud PS: Both us and our coaches agree with the decision made to go into the 5th round. We know Raquel more than anyone else and know if we let her give up on herself going into the last round she would have always regretted it. She fought with heart and grit until the end. PSS: Exactly one year ago today you asked me to marry you, I can’t freaking wait to wife you! ? @raquel_pennington

A post shared by Tecia Torres (@teciatorres) on

Að lokum var áhugavert að sjá Nunes tárast eftir bardagann þar sem mikill vinskapur er á milli hennar, Ninu Ansaroff (unnusta Nunes), Pennington og Torres. Þær fjórar eru miklar vinkonur en settu vinskapinn aðeins til hliðar fyrir bardagann en þó voru aldrei nein illindi á milli þeirra og ekkert skítkast. Bara mikil virðing fyrir andstæðingnum og ekkert vesen!

Besti bardagi kvöldsins var viðureign Kelvin Gastelum og Ronaldo ‘Jacare’ Souza. Bardaginn var hnífjafn en þegar í þriðju lotu var komið hafði hvor um sig unnið eina lotu. Þriðja lotan var gríðarlega jöfn og hefði maður eiginlega ekki orðið ósáttur þó Jacare hefði unnið, bardaginn var það jafn. Með sigrinum hlýtur Gastelum að fá titilbardaga gegn sigurvegaranum úr viðureign Robert Whittaker og Yoel Romero á UFC 225. Það væri síðan gaman að sjá Jacare mæta Chris Weidman þegar sá bandaríski hefur náð heilsu.

Mackenzie Dern fékk alla til að gleyma vigtunarskitu sinni með frábærum sigri á Amöndu Cooper. Dern kýldi Cooper niður með yfirhandar hægri og kláraði svo í gólfinu. Dern leit út fyrir að vera mun stærri en Cooper í bardaganum enda var hún sjö pundum yfir í vigtuninni sjálfri og næstum því einum þyngdarflokki ofar. Það setur svartan blett á annars glæsilegan sigur Dern en hún hlýtur nú að fara upp í fluguvigt. Hún er 7-0 á MMA ferlinum en þrisvar sinnum hefur hún ekki náð vigt. Það er slæm tölfræði hjá annars frábærri bardagakonu.

Embed from Getty Images

Vitor Belfort kvaddi UFC og vonandi búrið með tapi gegn Lyoto Machida. Drekinn náði geggjuðu framsparki í Belfort, svipað og Anderson Silva gerði gegn Belfort, sem rotaði gamla undrið. Belfort hefur lofað því að hann sé hættur í MMA enda 41 árs gamall en á tímum þar sem Tito Ortiz, Ken Shamrock, Royce Gracie og fleiri gamlingjar taka allt í einu hanskana af hillunni er erfitt að treysta orðum Vitor Belfort. Það kæmi ekki á óvart ef við myndum síðan sjá Belfort í öðrum bardagasamtökum á gömlu góðu fæðubótarefnunum í náinni framtíð.

Eins og áður segir var bardagakvöldið frábært og mælum við með að bardagaaðdáendur kíki á alla bardaga kvöldsins. Næsta UFC kvöld fer fram á laugardaginn í Síle þegar Kamaru Usman mætir Demian Maia í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular