Friday, April 19, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 242

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 242

UFC 242 fór fram í Abu Dhabi á laugardaginn. Khabib Nurmagomedov sigraði Dustin Poirier í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Khabib Nurmagomedov er nú 28-0 eftir sannfærandi sigur á Dustin Poirier. Enn á ný naut hann mikilla yfirburða í bardaga sínum gegn topp andstæðingi. Khabib er núna 12-0 á ferli sínum í UFC.

Dustin Poirier hafði engin svör við glímunni hjá Khabib líkt og allir andstæðingar Khabib. Poirier, líkt og svo margir, hafði eytt mörgum vikum í að undirbúa sig fyrir Khabib. Samt hafði hann engin svör í bardaganum. Dustin Poirier, og nánast allir andstæðingar Khabib í UFC, vissi nákvæmlega hvað Khabib ætlaði að gera en tókst samt ekki að stoppa eina fellu. Dustin Poirier er ekki lélegur glímumaður, Khabib er bara það ógeðslega góður.

Embed from Getty Images

Það var hálf kómískt að heyra Poirier segja eftir 2. lotu; „ég get bara ekki losað hann af mér.“ Það var mjög auðvelt að skilja upplifun hans og hafa hinir 27 andstæðingar Khabib örugglega upplifað það nákvæmlega sama.

Hver ætlar að stoppa Khabib Nurmagomedov? Eins og með sigursæla meistara eins og Jon Jones og Georges St. Pierre er erfitt að sjá þá tapa. Það virðist einhvern veginn ekkert virka gegn Khabib.

Kannski þarf einhvern sem er með frábæran glímubakgrunn eins og Justin Gaethje en Gaethje var All-America (topp 8 á landsvísu í efstu deild) í bandarísku háskólaglímunni og hefur glímt frá barnsaldri. Al Iaquinta og Michael Johnson voru báðir með bakgrunn í ólympískri glímu (ekki eins góða ferilskrá og Gaethje þó) en voru ekki nálægt því að vinna Khabib. Tony Ferguson er líka með bakgrunn í ólympískri glímu og það gæti hjálpað honum. Ferguson og Gaethje eiga það þó sameiginlegt að koma með ákveðna ringulreið og „f*kk it“ viðurhorf í búrið. Kannski þarf eitthvað þannig til að vinna Khabib? Vonandi fáum við fleiri svör ef UFC bókar Tony Ferguson gegn Khabib í fimmta sinn.

Þó Dustin Poirier hafi tapað kemur hann vel úr þessu. Hann var gríðarlega svekktur í leikslok og var ekki annað hægt en að hafa samúð með honum. Hann hélt að hann hefði getað gert aðeins betur hér og þar en persónulega held ég að það hafi ekki skipt máli. Khabib er bara betri bardagamaður. Poirier var búinn að æfa vel fyrir þennan bardaga en Khabib var bara með svör við öllu því sem Poirier gerði til að verjast fellunni.

Embed from Getty Images

Bardagi Paul Felder og Edson Barboza var mjög skemmtilegur eins og við var að búast en niðurstaða dómaranna var ekki eins skemmtileg. Felder vann eftir klofna dómaraákvörðun sem er svo sem ekki fráleitt. Barboza tók 1. lotuna, Felder klárlega 3. lotuna en 2. lota var jöfn og hefði getað dottið báðu megin. Það er hins vegar mjög skrítið að einn dómari hafi gefið Barboza allar loturnar og annar dómari Felder allar loturnar. Það er gjörsamlega óskiljanlegt. Barboza og hans lið ætlar að áfrýja en það mun sennilega ekki skila neinu.

Bardagakvöldið var ágætt en margir bardagamenn kvörtuðu yfir miklum hita í höllinni eftir bardaga sína. Það var gríðarlega heitt í höllinni í eyðimörkinni og var loftræstingin ekki að virka sem skildi fyrst. Hitinn var þó orðinn bærilegri þegar leið á kvöldið en fáránlegt að þetta geti verið breyta í UFC bardaga.

UFC fer til Kanada um næstu helgi þar sem þeir Justin Gaethje og Donald Cerrone mætast í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular