Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentMax Holloway svarar Jose Aldo

Max Holloway svarar Jose Aldo

Max Holloway var ekki sáttur með ummæli Jose Aldo um sig í viðtali við Ariel Helwani. Aldo sagði að Holloway hefði neitað að berjast við sig en Holloway er ekki á sama máli.

Max Holloway varð bráðabirgðarmeistari í fjaðurvigtinni eftir sigur á Anthony Pettis á UFC 206 í desember. Jose Aldo heldur því fram að Holloway og Pettis hafi vitað að sigurvegarinn myndi mæta sér á UFC 208. Holloway hafi svo hafnað bardaganum gegn Aldo í febrúar á UFC 208 eftir sigurinn.

Holloway neitar því að hann hafi vitað að sigurvegarinn myndi mæta Aldo á UFC 208. Strax eftir bardagann bauð Dana White, forseti UFC, Holloway að berjast við Aldo á UFC 208 þann 11. febrúar en þá fyrst heyrði Holloway af bardaganum.

 

Holloway sagði strax já og sagðist vera að leita að Jose Aldo enda væri hann týndur. „Holloway sagði helling eftir bardagann. Fyrst heyrði ég að hann hefði snúið á sér ökklann og myndi ekki ná sér í tæka tíð. Svo heyrði ég að hann hefði bókað ferð í Disney World með fjölskyldunni og gæti ekki breytt ferðinni. Síðan heyrði ég að bardagaklúbburinn hans væri lokaður yfir jólin og hann myndi ekki hafa nægan tíma til að æfa,“ sagði Aldo við Ariel Helwani hjá MMA Fighting.

Holloway samþykkti óformlega að berjast við Aldo strax í búrinu þegar adrenalínið var á fullu en þá hélt hann að tíu vikur væru í bardagann. Daginn eftir var ökklinn hans töluvert bólginn og samkvæmt læknisráði á hann að hvíla í 4-6 vikur.

Hann hafði því fljótt samband aftur við UFC og tilkynnti þeim að hann gæti ekki barist á UFC 208. „Þetta er fyndið. Nú er Aldo með mikinn kjaft en þegar ég reif kjaft og gagnrýndi Aldo sagði hann ekki orð. Um leið og hann komst af því að ég get ekki barist vegna meiðsla byrjar hann allt í einu að rífa kjaft. Aldo er nú að tala því hann veit að bardaginn er ekki að fara að gerast þann 11. febrúar,“ sagði Holloway við Fox Sports.

Holloway segir að Aldo hafi ekki efni á því að gagnrýna sig enda hefur Aldo margoft þurft að hætta við bardaga vegna meiðsla og lítið barist á undanförnum árum. „Ég barðist 10 sinnum á síðustu þremur árum. Hversu oft hefur hann barist?“ spyr Holloway en Aldo hefur barist fjóra bardaga síðan í janúar 2014.

Í viðtalinu við Helwani kveðst Aldo aldrei hafa hafnað bardaga. Þegar honum var boðið að berjast við Conor McGregor á UFC 196 með tíu daga fyrirvara var það þjálfarinn hans, Andre Pederneiras, sem hafnaði því en ekki Aldo.

Holloway gefur lítið fyrir þessi ummæli Aldo og segir að UFC hafi boðið Aldo að berjast við sig á UFC 205 og 206. Aldo hafi hins vegar neitað þeim bardögum þar sem hann vildi frekar berjast við Anthony Pettis að sögn Holloway.

Holloway býst við að snúa aftur í búrið í apríl eða maí eftir ökklameiðslin og vonast eftir bardaga gegn Aldo.

 

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular