Thursday, March 28, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 224

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 224

UFC 224 fer fram í kvöld í Brasilíu. Amanda Nunes mætir þá Raquel Pennington í aðalbardaga kvöldsins en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

Amanda Nunes í gamla formið?

Amanda Nunes var ólík sjálfri sér í sínum síðasta bardaga þegar hún mætti Valentinu Shevchenko. Hún var mjög varkár og virtist hrædd um að sprengja sig en bardaginn var frekar leiðinlegur. Nunes er vön því að sækja grimmt frá fyrstu sekúndu og ná rothögginu sem allra fyrst. Yfir fimm lotur gegn Shevchenko náði hún aðeins 16 höggum í höfuðið á Shevchenko en til samanburðar náði hún að lenda 23 höggum í höfuðið á aðeins 48 sekúndum gegn Rondu Rousey. Nunes átti ekki gott ár í fyrra og þarf að komast aftur í sama form og þegar hún kláraði Mieshu Tate og Rondu Rousey að því er virtist auðveldlega. Það væri gaman að sjá Nunes jafn aggressíva og hún er þekkt fyrir í kvöld.

Næsti áskorandi í millivigt?

Þeir Kelvin Gastelum og Ronaldo ‘Jacare’ Souza mætast í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Bardaginn er afar mikilvægur fyrir millivigtina en sigurvegarinn hér gæti fengið næsta titilbardaga í millivigtinni. Gastelum hefur átt erfitt með felluvörnina í millivigt og spurning hvort hann nái að halda sér standandi gegn Jacare. Það er auðvitað lykil atriði fyrir Gastelum að lenda ekki undir Jacare enda er Brasilíumaðurinn einn sá allra færasti á gólfinu. Gastelum hefur aftur á móti litið afar vel út standandi og gæti vel fundið hökuna á Jacare. Brasilíumaðurinn var rotaður í fyrsta sinn í langan tíma gegn Robert Whittaker í fyrra og spurning hvort hakan á hinum 38 ára Jacare sé farin að gefa sig.

Mackenzie Dern í þessu af fullri alvöru?

Mackenzie Dern var heilum sjö pundum yfir í vigtuninni í gær og er þetta í þriðja sinn sem hún nær ekki vigt. Þá var hún einnig beðin um að yfirgefa The MMA Lab þar sem hún æfði, missti af fluginu sínu til Rio og hefur verið sögð taka æfingum kæruleysislega. Mackenzie Dern mætir Amanda Cooper og er spurning hvort Dern sé í MMA af fullri alvöru. Frammistaða hennar á morgun mun segja okkur mikið um hana sem MMA bardagakonu.

Í alvörunni síðasti bardagi Vitor Belfort?

Hinn 41 árs gamli Vitor Belfort mætir Lyoto Machida í kvöld en þetta verður kveðjubardagi Belfort. Reyndar er aldrei hægt að segja með fullri vissu hvort þetta verði hans síðasti bardagi og aldrei að vita nema hann verði allt í einu kominn í Rizin eða Bellator eftir ár og með aðeins fleiri vítamín. Belfort mætti þó eins og starfsmaður sem er nýbúinn að segja upp vinnunni sinni á fjölmiðladaginn á fimmtudaginn og væri í raun slétt sama um álit yfirmanna. Kannski er þetta í alvörunni síðasti bardgi hans á ferlinum en satt best að segja er erfitt að treysta því 100%.

Fjör í veltivigtinni

Á kvöldinu eru þrír bardagar í veltivigt sem gætu allir orðið verulega spennandi. Elizeu Zelski dos Santos mætir Sean Strickland, Warlley Alves mætir Sultan Aliev og Alberto Mina mætir Ramazan Emeev og eru þetta nokkur nöfn sem eru oftar en ekki í skemmtilegum bardögum.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22:15 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular