Friday, March 29, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 228

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 228

UFC 228 fer fram í kvöld í Dallas í Texas. Bardagakvöldið lítur ansi vel út og má þar finna nóg af spennandi viðureignum sem eru á dagskrá.

Nýr meistari í veltivigt?

Í nótt mun Tyron Woodley reyna að verja beltið sitt í fjórða sinn. Andstæðingur hans að þessu sinni verður Bretinn Darren Till. Woodley er ekki sá vinsælasti eftir mikið tuð í fjölmiðlum og síður en svo sannfærandi sigra að undanförnu. Á sama tíma er Till rísandi stjarna og eru eflaust margir sem óska sér þess að sjá hann með beltið um mittið eftir bardagann í nótt. Tyron Woodley hefur oft verið vanmetinn en andstæðingar hans í titilbardögunum hafa alltaf verið líklegri til sigurs fyrir utan Demian Maia. Mun Woodley enn og aftur þagga niður í efasemdarmönnum og halda beltinu eða fáum við nýjan meistara?

Næsti andstæðingur Rose Namajunas

Þær Jessica Andrade og Karolina Kowalkiewicz mætast í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Bardaginn er afar mikilvægur í strávigtinni enda mun sigurvegarinn hér að öllum líkindum fá næsta titilbardaga gegn Rose Namajunas. Báðar hafa þær unnið tvo bardaga í röð og er mikið undir fyrir þær báðar í kvöld.

Framtíðin í fjaðurvigtinni

Gríðarleg spenna ríkir fyrir Zabit Magomedsharipov. Hann hefur unnið alla 3 bardaga sína mjög sannfærandi og fengið bónus í öllum bardögunum. Zabit er frábær standandi, með öflugar fellur og góður í gólfinu. Hann er með enga augljósa veikleika og getum við hreinlega ekki beðið eftir því að sjá hann gegn þeim bestu. Zabit átti upphaflega að mæta Yair Rodriguez en því miður þurfti sá síðarnefndi að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla og mætir þess í stað Brandon Davis. Zabit ætti að fara nokkuð létt með Davis ef hann er eins góður og við höldum.

Líkleg rothögg

Það má segja að líkurnar á rothöggi séu ansi miklar í bardaga Abdul Razak Alhassan og Niko Price. Allir níu sigrar Abdul hafa komið eftir rothögg í 1. lotu á meðan Price hefur klárað alla 12 sigra sína nema einn og þar af átta eftir rothögg. Þetta ætti að verða geggjaður bardagi sem byrjar aðalhluta bardagakvöldsins.

Ekki gleyma

Það er heill hellingur af skemmtilegum bardögum á dagskrá. Diego Sanchez berst við Craig White en gífurlegur reynslumunur er á þeim. Þetta verður 28. bardagi Sanchez í UFC á meðan White er að berjast sinn 2. bardaga í UFC. Jim Miller keppir í sínum 30. bardaga í UFC þegar hann mætir Alex White en enginn er með fleiri bardaga í UFC en Miller. Þá verður fjör í bantamvigtinni þegar Jimmie Rivera mætir John Dodson og Aljamain Sterling mætir Cody Stamann. Að lokum má ekki gleyma að Carla Esparza mætir Tatiana Suarez en Suarez þykir mjög spennandi í strávigtinni og fær nú fyrrum meistara.

Fyrsti bardagi kvöldsins byrjar kl. 22:15 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2 á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular