Friday, March 29, 2024
HomeErlentRafael dos Anjos lýsir hræðilegum niðurskurði í léttvigt

Rafael dos Anjos lýsir hræðilegum niðurskurði í léttvigt

Rafael dos Anjos hefur ákveðið að fara upp í veltivigt eftir langa veru í léttvigt. Fyrrum léttvigtarmeistarinn greindi frá hrikalegum niðurskurði sínum í viðtali við ESPN.

Rafael dos Anjos tapaði léttvigtartitli sínum í fyrra til Eddie Alvarez eftir rothögg í 1. lotu. Hann reyndi svo að komast aftur á sigurbraut í nóvember en tapaði fyrir Tony Ferguson í frábærum bardaga. Hann er nú á leið upp í veltivigt og er það vel skiljanlegt miðað við frásögn hans af niðurskurðinum.

Dos Anjos skar niður fimm sinnum í léttvigt á 11 mánaða tímabili og fann hvernig niðurskurðurinn varð erfiðari í hvert sinn. Niðurskurðurinn fyrir titilvörn hans gegn Eddie Alvarez gekk sérstaklega illa.

Allt fór fram samkvæmt áætlun í niðurskurðinum og morguninn sem vigtunin fór fram var hann aðeins þremur pundum frá 155 punda léttvigtartakmarkinu. Þá fór hins vegar að halla undir fæti og voru síðustu pundin afar erfið. Dos Anjos fór í bað í 15 mínútur til að losa sig við síðustu pundin og er hann stóð upp úr baðinu svimaði honum. Hann settist aftur niður en í hvert sinn sem hann stóð upp fann hann fyrir miklum svima og gat ekki staðið uppréttur sjálfur.

„Þjálfararnir mínir hjálpuðu mér úr baðinu og komu mér í rúmið. Það leið yfir mig en ég kom til baka í tvær sekúndur áður en það leið yfir mig aftur en það leið þrisvar sinnum yfir mig. Ég var meðvitundarlaus í næstum því þrjár mínútur. Þjálfararnir vildu hringja í neyðarlínuna og hætta við bardagann. Eftir allt þetta vissi ég ekki hvort ég hefði náð tilsettri þyngd. Ég gat þó ekki staðið upp og það tók mig 40 mínútur að standa upp. Ég vigtaði mig og var 155 pund. Ef ég hefði verið yfir hefði ég aldrei getað skorið meira niður. Mér leið hörmulega á leið í vigtunina.“

Rúmum sólarhringi síðar fór hann í búrið þar sem hann mætti Eddie Alvarez og tapaði eftir rothögg í 1. lotu. Hann vill þó ekki meina að niðurskurðurinn sé megin orsök tapsins. „Ég hef sterkan hug og var tilbúinn í bardagann. Eitt var þó skrítið, æfingafélagar mínir tóku eftir því að ég var ekki að svitna eins mikið og venjulega. Líkaminn slökkti bara á sér og ég var ekki að svitna. Ég hef fengið þyngri högg en þessi frá Alvarez en lappirnar gáfu sig bara. Það var skrítið. Ég vil ekki taka neitt af Alvarez en niðurskurðurinn hafði áhrif á mig.“

Dos Anjos taldi að þetta hefði bara verið einstakt tilvik og tók því annan bardaga í léttvigt gegn Tony Ferguson. „Það er of erfitt að skera niður í 155 pund. Ég er 200 pund núna og þegar ég kem mér aftur í form verð ég 180 pund og þá verða síðustu 10 pundin létt.“

Hann útilokar þó ekki að taka einn ofurbardaga í léttvigt í framtíðinni en telur að dagar sínir í léttvigt séu taldir. Nú vill hann fá topp andstæðing í veltivigtinni, einhvern sem er á styrkleikalistanum þó hann hafi engan ákveðinn í huga. Gæti Gunnar Nelson kannski verið næsti andstæðingur dos Anjos?

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular