Friday, April 19, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 194

Spá MMA Frétta fyrir UFC 194

Loksins loksins er komið að þessu. UFC 194 fer fram í kvöld þar sem tveir titilbardagar verða á dagskrá og svo keppir Gunnar Nelson. Eins og vanalega fyrir stór bardagakvöld birtum við okkar spá.

Conor McGregor Jose Aldo

Titilbardagi í fjaðurvigt: Jose Aldo gegn Conor McGregor

Pétur Marinó Jónsson: Þetta bardagakvöld er svo sturlað gott, ég get bara ekki beðið eftir að þetta byrji! Allir bardagarnir á main cardinu geta farið á hvorn veginn sem er. Þessi bardagi er auðvitað þannig. Það kæmi manni ekkert á óvart ef Aldo vinnur og ekki heldur ef Conor vinnur. Ég elska Aldo, hef verið fan síðan ég sá hann steinrota Cub Swanson í WEC en ég held að nú sé kominn tími á að hann tapi. Það er ekki hægt að vinna að eilífu. Conor mun stjórna pressunni og er með fleiri vopn standandi. Conor mun á endanum finna hökuna á Aldo. Conor klárar hann með tæknilegu rothöggi í 3. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég hef sjaldan verið jafn óviss með útkomu bardaga og Conor gegn Aldo. Ég held hins vegar að Conor tilheyri New breed af bardagaköppum og að hann sigri með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu eftir að hafa refsað Aldo með skrokkhöggum. Ég held að báðir fái talsvert af höggum á sig og að þetta verði hin mesta skemmtun.

Brynjar Hafsteins: Jose Aldo gegn Conor McGregor er 50/50 bardagi finnst mér. Mig langar að sjá Conor fara fimm lotur þar sem hann sker niður all svakalega og ég held að það verði ekki gott fyrir hann í seinni lotunum. Ég held að það verði erfitt fyrir Aldo að komast inn því Conor er frábær að nota lengd sína í bardögum. Hann velur alltaf bestu hornin til þess að hreyfa sig í og er mjög meðvitaður um staðsetningu sína í búrinu. Allt partýið í kringum McGregor er eiginlega búið að sannfæra mig um að hann roti hann í þriðju lotu en ég ætla samt að veðja á Aldo á dómaraúrskurði.

Óskar Örn Árnason: Bardaginn verður tvísýnn framan af þar til Conor McGregor fer að raða inn framspörkum í magann og vinstri höndum beint á kjammann. McGregor afgreiðir Aldo í þriðju lotu, rothögg.

Eríkur Níels Níelsson: Það er mjög erfitt að spá í þennan bardaga. Ég held að margir séu að gleyma hversu góður Aldo er í gólfinu. Það kæmi mér ekki á óvart ef Aldo tæki McGregor niður í fyrstu tveimur lotunum. Það sem mun samt gera herslumuninn er að Aldo er yfirleitt alveg búin á því í seinni lotunum í fimm lotu bardögum. Því mun McGregor taka síðustu þrjár lotunar og sigra á dómaraúrskurði.

Jose Aldo: Brynjar
Conor McGregor: Pétur, Guttormur, Óskar, Eiríkur.

weidman rockhold

Titilbardagi í millivigt: Chris Weidman gegn Luke Rockhold

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er svo sturlaður bardagi. Get séð báða vinna, báðir stórkostlegir bardagamenn. Ég fíla Rockhold en ég er á Weidman vagninum. Ég held að hann sé svo ómannlega sterkur andlega að það sé ómögulegt að klára hann. Rockhold meiðir hann og tekur fyrstu tvær loturnar. Svo tekur Weidman seinustu þrjár á hörkunni og vinnur eftir dómaraákvörðun í frábærum bardaga.

Guttormur Árni Ársælsson: Weidman mun sýna af hverju hann er meistarinn. Hann sigrar Rockhold á sannfærandi hátt með TKO í annarri lotu.

Brynjar Hafsteins: Weidman gegn Rockhold er annar bardagi sem er ömurlegt að spá fyrir um. Rockhold hefur meiri sprengikraft og er betri í gólfinu að mínu mati. Titilbardagar eiga þó oft í hættu að vera bara standandi. Weidman er svakalega góður en Rockhold hefur aðeins fleiri vopn í vopnabúri sínu held ég. Rockhold á dómaraúrskurði.

Óskar Örn Árnason: Rockhold mun verjast Weidman á gólfinu og sparka hann í sundur standandi. Luke Rockhold klárar Weidman í fjórðu lotu og nýr meistari verður krýndur.

Eríkur Níels Níelsson: Weidman á eftir að taka Rockhold niður í fyrstu lotu og lenda mjög öflugum höggum í gólfinu. Þó svo að Rockhold sé mjög tæknilegur striker þá stoppar Weidman einfaldlega ekki. Hann virðist geta tekið við gífurlegri refsingu án þess að það hægi á honum. Það má líka ekki gleyma hversu höggþungur Weidman er. Því tel ég að Weidman eigi eftir að klára bardagann með tæknilegu rothöggi í annarri lotu.

Chris Weidman: Pétur, Guttormu, Eiríkur.
Luke Rockhold: Brynjar, Óskar

souza romero

Millivigt: Ronaldo ‘Jacare’ Souza gegn Yoel Romero

Pétur Marinó Jónsson: Enn einn bardaginn sem er hrikalega erfitt að spá fyrir. Ég hélt að Jacare gæti tekið hann niður þar sem verri glímumenn eins og Derek Brunson og Ronny Markes hafa tekið Romero niður. EN, svo las ég að Romero hafi ekki æft neitt wrestling eftir að hann fór í MMA þangað til fyrir bardagann gegn Brad Tavares. Síðan þá hefur hann aldrei verið tekinn niður. Þannig að, ég held að Jacare nái honum ekki niður en taki þetta samt standandi. Hann er tæknilegri standandi þó Romero sé með hrikalegt power. Get séð fyrir mér Romero rota hann en ég held samt að Jacare taki þetta eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Jacare gegn Romero fer í dómarákvörðun þar sem Jacare sigrar.

Brynjar Hafsteins: Einn mjög massaður maður gegn öðrum hrikalega mössuðum manni. Jacare er fáranlegur í jörðinni og Romero er með frábært wrestling. Ég held að Romero nái að halda þessu standandi og vinni með rothöggi í 2. lotu. Þetta er frábær bardagi einnig.

Óskar Örn Árnason: Bardaginn gæti orðið jafn á gólfinu en standandi ætti Jacare að hafa betur. Jacare sigrar á stigum.

Eríkur Níels Níelsson: Romero er öflugur glímukappi sem notar sjaldan glímugetu sína. Hann er hins vegar mjög höggþungur og getur rotað hvern sem er í UFC þó það virðist vera mjög handhófskennt hjá honum. Hann er einfaldega ekki nógu tæknilegur standandi. Jacare er mun betri að mínu mati og á eftir að rota Romero í fyrstu lotu.

Ronaldo ‘Jacare’ Souza: Pétur, Guttormur, Óskar, Eiríkur.
Yoel Romero: Brynjar.

maia-vs-nelson2

Veltivigt: Gunnar Nelson gegn Demian Maia

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður svo hrikalega spennandi bardagi! Ég held að Gunni sé á hraðri leið upp og þetta sé eitt skref í átt að toppnum. Maia getur auðveldlega unnið þetta og Gunni þarf að vera upp á sitt allra besta. Ég held að hann verði upp á sitt besta og taki Maia með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Hann meiðir hann standandi og fylgir því eftir með höggum í gólfinu.

Guttormur Árni Ársælsson: Því miður fyrir BJJ aðdáendur fer bardagi Gunna og Maia að mestu leiti fram standandi. Gunnar eftir einróma dómaraákvörðun.

Brynjar Hafsteins: Þegar tveir frábærir gólfglímumenn eigast við enda oft bardagarnir í lélegu sparkboxi. Ég held að Maia sé á seinustu metrunum á ferli sínum. Hann er orðinn 38 ára gamall og hefur bætt sig ágætlega sem boxari en bíður upp á lítið af hlutum standandi. Nelson sigrar þetta örugglega með rothöggi eða eftir dómaraúrskurð. Hallast frekar að rothöggi í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Eftir nokkrar skemmtilegar byltur á gólfinu sigrar Gunnar á tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Og múgurinn ærist.

Eríkur Níels Níelsson: Þegar tveir andstæðiingar með svarta beltið í BJJ mætast fer bardaginn sjaldan fram í gólfinu. Maia er reyndar með ágætt „single leg“ en Gunni er með of gott jafnvægi þannig að þessi bardagi fer fram standandi. Gunni er með góð spörk og á eftir að halda Maia frá sér. Þetta fer í dómaraúrskurð þar sem Gunni sigrar eftir einróma dómaraákvörðun.

Gunnar Nelson: Pétur, Guttormur, Brynjar, Óskar, Eiríkur.
Demian Maia: …

holloway-and-stephens

Fjaðurvigt: Max Holloway gegn Jeremy Stephens

Pétur Marinó Jónsson: Ég held að Holloway sé tæknilegri standandi þó Stephens sé með hrikalegt power. Stephens getur alltaf rotað og mun vera hættulegur allar þrjár loturnar. Sé fyrir mér að Stephens komi á óvart og roti Holloway, en ég held samt að Holloway taki þetta eftir dómaraákvörðun í mjög skemmtilegum bardaga.

Guttormur Árni Ársælsson: Holloway er búinn að bæta sig gífurlega mikið síðan hann mætti Conor McGregor fyrir rúmum tveimur árum. Sjö sigrar í röð tala sínu máli og ég held að hann bæti við þeim áttunda. Tæknilegt rothögg í þriðju lotu.

Brynjar Hafsteins: Holloway gegn Stephens er örugglega bardaginn sem ég er búin að skoða mest á þessu bardagakvöldi. Flestir halda að Holloway sigri. Stephens er samt einn sá harðasti. Holloway er mun hæfileikaríkari og hefur fleiri vopn. Stephens er með svakalegan kraft í höndunum og erfitt að rota hann eða vanka. Holloway sigrar á klofnum dómaraúrskurði.

Óskar Örn Árnason: Ég hef stundum vanmetið Stephens en get þó ekki annað en valið Holloway sem hefur litið mjög vel út upp á síðkastið. Holloway sigrar á stigum.

Eríkur Níels Níelsson: Eftir tap sitt gegn McGregor hefur Holloway bætt sig gífurlega og ég trúði því varla þegar hann vann Cub Swanson. Aftur á móti lemur Stephens eins og trukkur. Holloway á eftir að sigra fyrri hluta fyrstu lotu en svo kemur alger bomba, segi og skrifa B.O.B.A bomba! frá Stephans sem endar bardagann.

Max Holloway: Pétur, Guttormur, Brynjar, Óskar.
Jeremy Stephens: Eiríkur.

Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 í nótt en fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23:30.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular