Friday, March 29, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 215

Spá MMA Frétta fyrir UFC 215

UFC 215 fer fram í kvöld þar sem Amanda Nunes mun freista þess að verja bantamvigtartitil sinn. Andstæðingur hennar er Valentina Shevchenko og líkt og fyrir öll stærstu kvöldin birtum við spá okkar fyrir kvöldið.

Titilbardagi í bantamvigt kvenna: Amanda Nunes gegn Valentinu Shevchenko

Pétur Marinó Jónsson: Ég ætla bara að halda mig við sömu spá og fyrir UFC 215, bardaganum aðeins frestað en held að úrslitin verði samt þau sömu.

Það var svo margt í fyrri bardaganum sem gerir þennan bardaga svo áhugaverðan. Nunes átti í vandræðum með að finna fjarlægðina standandi í fyrri bardaganum og gekk henni best í gólfinu. En hún var samt ekkert að sækja í fellur, greip bara tækifærið þegar það gafst og þar var hún með yfirburði fyrstu tvær loturnar. Verða fellutilraunir í leikáætlun hennar núna? Svo gasaði hún eins og svo oft áður og Shevchenko tók yfir í 3. lotu og hefði sennilega unnið ef þetta hefði verið fimm lotu bardagi. En núna erum við með fimm lotur og báðar búnar að bæta sig síðan síðast.

Það er líka spurning hvort Nunes ætli að pace-a sig eitthvað til að vera ekki búin á því þegar líður á bardagann. En þetta virðist henta henni samt ansi vel að byrja svona aggressívt og refsa strax og kannski óþarfi að taka eitt af einkennum hennar af henni.

Þetta ætti því að verða mjög áhugaverður bardagi en ég ætla að tippa á að Valentina lifi af tvær erfiðar lotur, komi svo sterk til baka þegar Nunes gasar og klári þetta með uppgjafartaki í 4. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þeta er þrælgóður bardagi, sennilega einn besti kvennabardagi á pappír í sögu MMA. Báðar virðast hafa bætt sig síðan þær mættust síðast og fáar aðrar eiga séns í þær. Ég ætla að taka sénsinn á Shevchenko. Hún sigrar á stigum, þrjár lotur gegn tveimur á spjöldum dómaranna.

Brynjar Hafsteins: Dana White sagði að Nunes myndi aldrei aftur vera í aðalbardaga kvöldsins en hann gat ekki gert mikið í þessu. Finnst þessi bardagi vera bara mjög svipaður og seinasti bardagi. Shevchenko er betri kickboxari og chlincari en Nunes betri í gólfinu og með meiri styrk. Ef Shevchenko nær að halda þessu rólegu til að byrja með og ekki lenda á bakinu þá gæti hún krúsað með sigurinn í höfn. Ég vona það.

Arnþór Daði Guðmundsson: Ekki aðalbardaginn sem allir vildu, og allra síst Dana White. Þessi bardagi hefur samt allt til að verða ágætis skemmtun. Báðar eru þær strikerar sem vilja standa og skiptast á höggum. Shevchenko er örlítið tæknilegri á meðan að Nunes hefur einhvern dýrslegan kraft og drápseðli. Ef þetta fer lengra en þrjár lotur þá ætti Shevchenko að taka þetta á stigum en annars tekur Nunes þetta með rothöggi í fyrstu 2-3 lotunum. Tökum skemmtilegri valkostinn og við viljum rothögg. Nunes sigrar á tæknilegu rothöggi í 2. lotu.

Amanda Nunes: Arnþór
Valentina Shevchenko: Pétur, Óskar, Brynjar

Veltivigt: Neil Magny gegn Rafael dos Anjos

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er mjög athyglisverður bardagi og sérstaklega út af stærðarmuninum. Það er 18 cm hæðarmunur á þeim og Magny er með 25 cm langan faðm. Dos Anjos vill pressa inn og taka menn niður en það gæti reynst erfitt ef Magny nýtir sér faðmlengdina vel. Dos Anjos er samt með mjög góð spörk og gæti sparkað Magny sundur og saman. Ég held að dos Anjos sé ennþá að aðlagast nýjum þyngdarflokki og þurfi að sætta sig við tap í kvöld. Magny vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Á maður að falla í þá gryfju að vanmeta Magny enn einu sinni? Vandamálið er að hann er svo misjafn. Eina stundina er að hann að fara illa með Hector Lombard og þá næstu er Lorenz Larkin að leika sér að honum. RDA var flottur síðast í sínum fyrsta bardaga í veltivigt svo þyngdarflokkurinn ætti ekki að vera vandamál. Ég held að RDA nái að pressa Magny upp við búrið, raða inn spörkum og stjórna honum á gólfinu. RDA sigrar á stigum.

Brynjar Hafsteins: Hvaða Magny mætir? Ef við fáum bestu útgáfuna af honum þá verður þetta alvöru bardagi. RDA er samt óþægilegur andstæðingur fyrir Magny ef hann pressar og keyrir upp hraðann, þá vinnur hann á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: RDA leit vel út í fyrsta veltivigtarbardaganum sínum gegn Saffiedine á meðan að Magny hefur verið á uppleið sjálfur í þyngdarflokknum síðustu árin og margir talað um hann sem vænlegan andstæðing fyrir Gunna okkar. RDA hefur kannski meiri líkamlega burði eftir að hætta í þessum niðurskurði niður í 155 pundin en Magny hefur hæð og faðmlengdina yfir RDA sem ætti að koma honum að gagni. Mér finnst erfitt að spá gegn RDA, fyrrverandi léttivigtarmeistara, en ég held að Magny sigri eftir örugga dómaraákvörðun.

Neil Magny: Pétur, Arnþór
Rafael dos Anjos: Óskar, Brynjar

Fluguvigt: Henry Cejudo gegn Wilson Reis

Pétur Marinó Jónsson: Skemmtilegur bardagi. Cejudo hefur tapað tveimur bardögum í röð gegn tveimur af þeim bestu í fluguvigtinni, DJ og Joseph Benavidez, en nú kemur sigur. Wilson Reis er fínasti bardagamaður en held að Cejudo sé bara betri. Cejudo vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Áhugaverður glímubardagi. Reis er frábær í brasilísku Jiu-Jitsu en hann varð heimsmeistari brúnbeltinga árið 2004 á meðan Cejudo vann gull í ólympískri glímu árið 2008. Allir bardagar byrja standandi en það ætti að vera stutt í gólfið. Cejudo mun hafa yfirhöndina, stjórna Reis og sigra á stigum.

Brynjar Hafsteins: BJJ gegn Wrestling. Hef alltaf gaman af svona stíl gegn stíl bardögum. Finnst Cejudo vera fljótari og betri og þessi wrestling stíll er gerður til að vinna lotur. Cejudo, dómaraúrskurður.

Arnþór Daði Guðmundsson: Hér eru komnir tveir fluguvigtarmenn sem eiga eitt sameiginlegt, tap gegn Demetrious Johnson í titilbardaga. Cejudo er frábær bardagamaður með glímuna sína á meðan að Reis er svart belti í BJJ. Ég held samt að Cejudo sé það góður að hann finni leið til þess að sigra bardagann og tryggja sér annan titilbardaga gegn Mighty Mouse ef hann fer ekki upp um þyngdarflokk eftir 11. titilvörn sína, sem fer vonandi fram sem fyrst.

Henry Cejudo: Pétur, Óskar, Brynjar, Arnþór
Wilson Reis:

Léttþungavigt: Tyson Pedro gegn Ilir Latifi

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er erfiðasti bardaginn til að spá fyrir um. Tyson Pedro er ennþá dálítið óskrifað blað og Latifi solid gæji en ekkert stórkostlegur bardagamaður. Gæti alveg séð Latifi ná einhverri sleggju í Pedro og rota hann. Pedro hefur aldrei farið út fyrir 1. lotuna þannig að maður veit ekkert hvernig þolið hans er.Latifi gerir oft mjög lítið á milli þess sem hann kemur með sleggjurnar. Er með góðar fellur og kannski mun hann nýta sér það til að ná sigri. Er samt að vona eftir endurnýjun í léttþungavigtinni og ætla því að tippa á Tyson Pedro með sigur eftir TKO í 2. lotu. Smá óskhyggja en vonandi verður þetta bara skemmtilegur bardagi.

Óskar Örn Árnason: Við þekkjum staurinn sem kallst Ilir Latifi en Tyson Pedro er nýji gaurinn. Pedro er mjög spennandi efni og klárað alla sex andstæðinga sína á ferlinum í fyrstu lotu. Þetta ætti að verða erfiðara próf en Pedro hefur þreytt til þessa en ég ætla að láta hjartað ráða, Pedro rotar Latifi í fyrstu.

Brynjar Hafsteins: Latifi er hægur og ekkert voðalega merkilegur bardagamaður. Pedro er með mun meira talent en ég á erfitt með að treysta honum þar sem hann hefur aldrei farið úr fyrstu lotu og hann hefur ekki unnið neinn merkilegan. Latifi vinnur í 3. lotu á rothöggi.

Arnþór Daði Guðmundsson: Ilir Latifi er bardagamaður sem er bara ekkert spes en allir einhvern veginn vita hver hann er. Pedro leit vel út í síðasta bardaga sínum og það verður gaman að sjá hvernig hann lítur út núna. Gerum bara ráð fyrir því að Pedro haldi áfram að líta vel út og sigri Latifi. Pedro vinnur á dómaraákvörðun.

Ilir Latifi: Brynjar
Tyson Pedro: Pétur, Óskar, Arnþór

Fjaðurvigt: Gilbert Melendez gegn Jeremy Stephens

Pétur Marinó Jónsson: Báðir á frekar mikilli niðurleið. Dagar Jeremy Stephens sem topp 10 gæja í fjaðurvigtinni eru taldir að mínu mati. Gilbert Melendez er núna að fara niður í fjaðurvigt í fyrsta sinn eftir þrjú töp í röð í léttvigt en eini sigur hans í UFC var gegn Diego Sanchez. Líka erfitt að spá í þennan bardaga, held að þetta verði mjög jafnt en Melendez nær tæpum sigri eftir klofna dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þetta gæti orðið bardagi kvöldsins. Ætti að verða algjört stríð þar sem báðir eru grjótharðir og labba beint áfram. Melendez er með ás í erminni sem er glíman. Hann gæti byrjað standandi en ég held að hann endi á taka Stephens í gólfið og vinni á stigum.

Brynjar Hafsteins: Melendez finnst mér miklu betri allstaðar en Stephens er með kraftinn. Ef Melendez notar ekki glímuna eða hreyfanleikann til að vinna þá gæti þetta orðið að einhverju blóðbaði. Melendez er nógu klár til að vinna þetta á dómaraúrskurði.

Arnþór Daði Guðmundsson: Melendez er hérna að þreyta frumran sína í fjaðurvigtinni og það verður áhugavert hvernig það kemur út. Stephens hefur kraftinn til þess að rota alla í þyngdarflokknum en á móti hefur Melendez mikla reynslu. Það er áhugavert að spá í þetta, en ég held að niðurskurðurinn muni reynast Melendez erfiður og það muni verða honum að falli í bardaganum. Stephens vinnur á tæknilegu rothöggi í 3 lotu.

Gilbert Melendez: Pétur, Óskar, Brynjar
Jeremy Stephens: Arnþór

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular