Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaUFC 194: Gunnar Nelson gegn Demian Maia

UFC 194: Gunnar Nelson gegn Demian Maia

maia-vs-nelson2Nú eru aðeins nokkrir dagar í risabardaga Gunnars Nelson gegn Demian Maia. Þetta verður stærsti bardaginn á ferli Gunnars en hér förum við ítarlega yfir bardagann.

Veltivigt: Gunnar Nelson (14-1-1) gegn Demian Maia (21-6)

Demian Maia er 38 ára Brasilíumaður sem hefur unnið 21 bardaga og tapað sex. Hann er einn besti gólfglímumaður sögunnar og er til að mynda þrefaldur heimsmeistari svartbeltinga í brasilísku jiu-jitsu. Þá sigraði hann ADCC (sterkasta uppgjafarglímumót heims) árið 2007 og hafnaði í 2. sæti tveimur árum áður.

Maia hefur sýnt frábær tilþrif í MMA og sigrað tíu bardaga með uppgjafartökum. Hann barðist áður í millivigt en færði sig niður í veltivigt árið 2012. Í veltivigtinni hefur honum vegnað afar vel og sigrað sex bardaga og tapað tveimur.

Sjá einnig: Friðsæli stríðsmaðurinn Demian Maia

Síðan hann færði sig niður í veltivigtina hefur hann verið með nánast sömu leikáætlun í öllum bardögum sínum. Um leið og bjallan glymur pressar hann andstæðinginn og hefur nánast alltaf klárað fyrstu felluna eftir 20 sekúndur eða minna.

Hann er virkilega góður að tengja fellurnar sínar og fer úr einni fellu yfir í aðra tiltölulega áreynslulaust. Maia notar „single leg“ felluna mjög mikið og þá sérstaklega í fyrstu lotu. Maia er með mjög góðar fellur upp við búrið og hefur tekið sterka glímumenn á borð við Rick Story, Dong Hyun Kim, Chael Sonnen, Jon Fitch og Jake Shields niður við búrið. Upp við búrið krækir hann um aðra löpp andstæðingsins og dregur hann þannig niður eins og sjá má hér.

maia fitch 3

Í gólfinu hefur Maia yfirburði gegn nánast öllum sínum andstæðingum. Það hefur reynst ómögulegt fyrir sterka glímumenn á borð við Jon Fitch og Ryan LaFlare að standa upp eftir að Maia tekur þá niður.

Standandi er Maia ekki eins sterkur og í gólfinu. Hann hefur samt aðeins einu sinni verið rotaður (gegn Nate Marquardt) og er nánast aldrei vankaður eða kýldur niður. Þrátt fyrir að hafa mætt sterkum sparkboxurum eiga margir þeirra erfitt með að koma góðum höggum á hann af einhverjum ástæðum. Maia er með óhefðbundinn stíl og það getur ruglað marga. Einnig eru allir andstæðingar hans alltaf með áhyggjur af fellunum hans og eiga þeir því erfitt með að finna taktinn standandi.

rory maia

Nokkrir hlutir til að hafa í huga fyrir bardagann:

  • Getur hann stjórnað Gunnari í gólfinu? Maia hefur náð að stjórna nánast öllum sínum andstæðingum í gólfinu og hefur þeim reynst gífurlega erfitt að komast undan Maia í gólfinu. Gunnar er þó mjög fær í gólfinu líka, tekst honum að standa upp lendi hann undir Maia?
  • Þreytist þegar líður á bardagann: Maia er ekkert unglamb lengur og á það til að þreytast þegar líður á bardagann og þá sérstaklega ef hann er ekki að stjórna bardaganum. Rory MacDonald lét Maia vinna og hafa fyrir hlutunum og var Maia orðinn vel þreyttur um miðbik 2. lotu.
  • Aldrei tapað eftir uppgjafartak: Gunnar Nelson hefur sigrað tíu bardaga með uppgjafartaki en það verður afar erfitt að ná Maia í eitt slíkt. Maia hefur aldrei tapað eftir uppgjafartak í MMA.
  • Tapar bara gegn topp andstæðingum: Af þeim sex bardagamönnum sem hafa unnið Maia hafa fimm af þeim barist um titil. Sigur á Maia gæti sagt okkur ýmislegt um okkar mann.

Leið til sigurs: Það er ekkert leyndarmál hvað Maia vill gera. Það er ólíklegt að Maia ætli sér að standa gegn Gunnari lengi. Hann mun pressa Gunnar strax, reyna að ná fellu á fyrstu sekúndunum og vinna þaðan. Þetta gæti hann gert allar þrjár loturnar og sigrað eftir dómaraákvörðun.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Gunnar Nelson þarf vart að kynna. Gunnar snýr nú aftur til leiks eftir frábæran sigur á Brandon Thatch fyrr á árinu. Brandon Thatch er afar hættulegur standandi en Gunnari tókst að kýla Thatch niður og kláraði hann svo með uppgjafartaki í gólfinu.

Þetta var sennilega glæsilegasti sigur Gunnars á ferlinum og verður gaman að sjá hvort hann nái að fylgja honum eftir.

gunni thatch knockdown

Bardaginn gegn Maia verður hans stærsti og erfiðasti á ferlinum enda Maia í 6. sæti styrkleikalista UFC og einn af bestu veltivigtarmönnum heims.

Ólíkt flestum af andstæðingum Maia er Gunnar feikilega góður í brasilísku jiu-jitsu. Maia hefur átt góðu gengi að fagna gegn glímumönnum með bakgrunn í ólympískri glímu en ekki mætt manni eins og Gunnari áður. Jake Shields og Jon Fitch eru vissulega svart belti í brasilísku jiu-jitsu en talsvert ólíkari glímumenn heldur en Gunnar.

Líkt og hjá Maia reyna andstæðingar Gunnars ekki að ná honum niður af ótta við að lenda í uppgjafartaki. Maia mun sennilega ekki óttast það enda ekki eins og flestir.

Gunnar ætti að hafa yfirburði standandi gegn Maia enda virðist sparkboxið hans vera að smella núna. Það sást gegn Thatch hversu hættulegur Gunnar getur verið standandi og verður áhugavert að sjá hvort Gunnar hafi bætt sig enn meira þar.

Samkvæmt veðbönkum er Maia sigurstranglegri þó stuðlarnir séu jafnir. Með sigri verður Gunnar kominn ansi ofarlega í veltivigtinni en það verður þrautinni þyngri enda Maia frábær bardagamaður. Maia hefur unnið stærri sigra í jiu-jitsu heiminum heldur en Gunnar en það þarf ekki að þýða að Maia sé betri en Gunnar í gólfinu í MMA.

Nokkrir hlutir til að hafa í huga:

  • MMA glíman: Gunnar hefur alltaf æft BJJ með MMA í huga. Hann notar ekki mikið af hlutum í BJJ sem virka illa í MMA eða gera hann opinn fyrir höggum. Þá er hann einnig virkilega fær í að nota höggin til að finna opnur fyrir hengingar.
  • Ekkert panic: Þó Gunnar vilji eflaust ekki vera undir Maia í gólfinu mun hann ekki missa stjórn á sér við að reyna að komast strax upp. Gunnar hefur trú á glímunni sinni og mun vera yfirvegaður þrátt fyrir að vera í erfiðri stöðu.
  • Hungraður: Gunnar virðist afar einbeittur og hungraður um þessar mundir. Hann ætlar sér að komast í titilbaráttuna og telur að tapið gegn Rick Story hafi vakið sig upp af værum blundi. Var sigurinn á Thatch fyrsta skrefið af nokkrum í átt að titlinum?
  • Tekst Gunnari að stöðva felluna? Maia hefur tekist að ná öllum andstæðingum sínum niður nema Anderson Silva, Chris Weidman og Nate Marquardt. Allt eru þetta töp hjá Maia og myndi það setja Maia í slæma stöðu ef hann nær ekki Gunnari niður. Við höfum lítið fengið að sjá felluvörn Gunnars enda hefur enginn reynt að ná honum niður ennþá í UFC. Það breytist á laugardaginn.
  • Slæm hugmynd að vilja glíma við Maia? Gunnar hefur sagt það oft áður að hann óttist ekki að fara í gólfið með Maia. Að flestra mati hefur Gunnar yfirburði standandi gegn Maia og ætti að halda bardaganum þar. Margir vilja meina að það sé slæm hugmynd að fara í gólfið með manni eins og Maia. Það kemur þó í ljós á laugardaginn.

Leið til sigurs: Það sem Gunnar þarf að gera er að festast ekki undir Maia líkt og Jon Fitch, Ryan LaFlare og fleiri andstæðingar hans. Það er hæpið að Gunnar nái Maia í uppgjafartak af bakinu og vill hann ekki vera þar gegn jafn góðum glímumanni og Maia er. Gunnar er betri standandi og ætti að hafa betur þar. Gunnar gæti líka hæglega meitt Maia í gólfinu komist hann ofan á. Gunnar hefur fleiri leiðir til sigurs en Maia, spurningin er hvort Gunnar nái að gera sitt.

Spá MMA Frétta: Gunnar heldur áfram þar sem frá var horfið gegn Thatch og sigrar Maia með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Hann meiðir Maia standandi og fylgir því svo eftir með höggum í gólfinu.

Bardaginn er á aðalhluta UFC 194 á laugardaginn. Bardagakvöldið verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst bein útsending kl 3. Bardagi Gunnars ætti að hefjast um kl 3:30.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular