Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaUFC London: Gunnar tapar eftir klofna dómaraákvörðun

UFC London: Gunnar tapar eftir klofna dómaraákvörðun

Gunnar Nelson tapaði fyrir Leon Edwards eftir klofna dómaraákvörðun í hörku bardaga. Edwards er þar með búinn að vinna sjö bardaga í röð í veltivigt UFC.

Gunnar Nelson fékk frábæran stuðning í höllinni þegar hann gekk í búrið. Á sama tíma var baulað á Edwards af þeim fjölmörgu stuðningsmönnum Gunnars sem voru í höllinni.

Gunnar náði fellu í 1. lotu en komst ekki í yfirburðarstöðu. Edwards stóð upp en Gunnar kom honum aftur niður en aftur varðist Edwards vel í gólfinu og komst Gunnar ekki í nógu góða stöðu. Edwards náði síðan að standa upp og taka Gunnar sjálfur niður tvisvar. Edwards hékk fyrir aftan Gunnar í dágóðan tíma og kom með nokkur stutt högg í Gunnar en ekkert sem gerði mikinn skaða.

Önnur lotan var mjög jöfn þar sem báðir reyndu fellur án þess að klára en Gunnar var að reyna fleiri fellur. Gunnar reyndi að stökkva inn með hröð högg en ekkert þeirra virtust hitta vel eða meiða Edwards. Í lok 2. lotu stökk Gunnar í „clinchið“ en um það leyti sem þeir voru að aðskiljast úr „clinchinu“ kom Edwards með góðan olnboga sem felldi Gunnar. Edwards fylgdi því eftir með höggum í gólfinu og virtist dómarinn vera nálægt því að stöðva bardagann en Gunnari tókst að lifa af.

Í 3. lotu var allt undir og reyndi Gunnar að taka Edwards niður ítrekað. Edwards sýndi frábæra felluvörn sína og stöðvaði fellur Gunnars. Þegar tæp mínúta var eftir náði Gunnar loksins að klára felluna og komst fljótlega í „mount“. Þar varðist Edwards vel hins vegar, greip utan um Gunnar svo Gunnar fékk lítið pláss til að koma með þung högg. Gunnar reyndi að búa til pláss en tíminn rann því miður út og fór bardaginn því allar 15 mínúturnar.

Tveir dómarar dæmdu á endanum Edwards sigur á meðan einn dómari dæmdi Gunnari sigur. Gunnar tók klárlega 3. lotuna og Edwards 2. lotuna en dómararnir voru sennilega ósammála um 1. lotuna. Einn dómarinn dæmdi 2. lotuna 10-8 þar sem Edwards var nálægt því að klára bardagann.

Edwards var einfaldlega betri bardagamaður í kvöld en bardaginn var jafn og erfiður. Edwards sagði eftir bardagann að hann hefði horft á bardaga með Gunnari og vissi að olnboginn væri vopn sem hann gæti notað þegar þeir væru að aðskiljast úr „clinchinu“.

Leon Edwards er því  17-3 á ferli sínum sem bardagamaður á meðan Gunnar er nú 17-4-1.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular