Wednesday, April 24, 2024
HomeErlentUFC staðfestir bardagakvöldið í Liverpool - Till í aðalbardaganum en gegn hverjum?

UFC staðfestir bardagakvöldið í Liverpool – Till í aðalbardaganum en gegn hverjum?

UFC staðfesti fyrr í dag bardagakvöldið í Liverpool þann 27. maí. UFC tilkynnti að Darren Till myndi vera í aðalbardaga kvöldsins en nú er stóra spurningin; hver verður andstæðingur hans?

Þar með er ljóst að UFC mun ekki heimsækja Dublin í maí eins og bardagasamtökin ætluðu upphaflega að gera. UFC staðfesti bardagakvöldið með skemmtilegri tilkynningu í dag.

Darren Till er Liverpool strákur í húð og hár og verður stemningin eflaust frábær þegar hann leggur leið sína að búrinu í maí. Spurningin er bara hver verður andstæðingur hans.

Till hefur margoft sagt að hann vilji mest fá Stephen Thompson en nýlega hefur hann einnig nefnt Rafael dos Anjos. Þeir tveir eru efstu áskorendurnir í veltivigt UFC og spurning hvort þeir vilji taka bardaga gegn Till í hans heimaborg.

Colby Covington er í 3. sæti styrkleikalistans en þar á eftir koma þeir Robbie Lawler, Demian Maia, Jorge Masvidal og svo Till sjálfur. Í 8. sæti er Kamaru Usman og svo koma þeir Neil Magny og Santiago Ponzinibbio. Enginn af þessum mönnum er með bardaga sem stendur.

Þegar er byrjað að tala um að Thompson verði andstæðingur Till en karatestrákurinn segist ekki ennþá hafa fengið neitt samningsboð um að berjast við Till í Liverpool. Robbie Lawler er meiddur og umboðsmaður Jorge Masvidal lét hafa eftir sér að tímasetningin hentaði Masvidal ekki. Demian Maia er algjört bananahýði fyrir Till og ólíklegt að UFC hætti á að setja Maia gegn Till.

Santiago Ponzinibbio mun að öllum líkindum berjast í aðalbardaga kvöldsins þegar UFC heimsækir Síle í fyrsta sinn viku á undan Liverpool bardagakvöldinu. Ponzinibbio vantar enn andstæðing þar og sagðist Neil Magny vera laus.

Gunnar Nelson virðist ekki vera ofarlega á lista UFC yfir mögulega andstæðinga fyrir Darren Till í Liverpool. Það er þó ekki öll von úti ennþá fyrir Gunnar enda gætu þeir Thompson, dos Anjos, Covington og Usman allir neitað að berjast við Till. Það er auðvitað ómögulegt að segja en enginn af þeim hefur verið að óska eftir bardaga gegn Till á samfélagsmiðlum eða í viðtölum. Það er þó alveg á hreinu að Gunnar er til í að mæta Darren Till.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular