Gunnar Nelson er loksins kominn með sinn næsta staðfesta bardaga. Gunnar mætir þá Claudio Silva þann 19. mars en bardagakvöldið verður í London.
Gunnar Nelson er kominn með sinn fyrsta bardaga síðan í september 2019. Gunnar mætir Brasilíumanninum Claudio Silva í veltivigt. Vitað hefur verið um bardagann í nokkra daga en UFC staðfesti loksins bardagann í dag.
Gunnar Returns! 🇮🇸@GunniNelson vs Claudio Silva on deck for #UFCLondon
— UFC Europe (@UFCEurope) January 28, 2022
Get early access to tickets 🎟️ https://t.co/wg9VkLrok2 pic.twitter.com/UR7Nts2Xc5
Bardaginn verður á UFC bardagakvöldinu í London þann 19. mars. UFC hefur ekki heimsótt Evrópu síðan kórónuveiran skall á og verða flest af stærstu nöfnum UFC í Evrópu á bardagakvöldinu. Bardagakvöldið verður í O2 höllinni í London en UFC hefur heimsótt höllina nánast árlega frá 2014.
Claudio Silva er 39 ára Brasilíumaður og hefur verið í UFC síðan 2014. Silva byrjaði UFC ferilinn mjög vel og vann fyrstu fimm bardaga sína en hefur nú tapað tveimur í röð. Eftir tap í frumraun sinni á ferlinum tókst Silva að vinna 14 bardaga í röð þar til hann tapaði fyrir James Krause í október 2020.
Líkt og Silva hefur Gunnar tapað tveimur bardögum í röð – gegn Leon Edwards og Gilbert Burns en báðir eru á topp 5 í veltivigtinni.
Gunnar hefur glímt við meiðsli sem hann varð fyrir skömmu fyrir bardagann gegn Burns en meiðslin ágerðust eftir glímu við Hafþór Júlíus á vormánuðum í fyrra. Gunnar hefur nú náð sér af meiðslunum og er spenntur fyrir því að mæta aftur í búrið.