Það er UFC bardagakvöld í Apex-inu í kvöld, eða fram á nótt fyrir okkur Íslendinga. Það eru ekki margir stórir bardagar á kortinu en aðalbardagi kvöldsins er góður þar sem Gilbert Burns mætir einum mest spennandi nýja unga bardagamanni veltivigtarinnar, Michael Morales, sem er talinn mjög sigurstranglegur gegn hinum 38 ára gamla Burns.
Stuðullinn á Gilbert Burns er 5.00 inná Coolbet þegar þetta er skrifað og hefur munurinn minnkað örlítið, var 6.5 fyrr í dag. Stuðulinn á Michael Morales er hins vegar aðeins 1.18. Veðbankarnir telja semsagt litlar líkur á sigri Burns en fullt af bardagamönnum og fleiri í bransanum hafa látið hafa það eftir sér að Burns gæti vel strítt hinum 25 ára, 17-0, upprennandi stórstjörnu Michael Morales.
Morales er á leiðinni í sinn sjötta UFC bardaga og þrátt fyrir að hafa mætt ágætis bardagamönnum til þessa hefur hann aldrei mætt manni í sama gæðaflokki og Gilbert Burns. Burns er á leiðinni í sinn tuttugasta og fjórða UFC bardaga og hefur barist við þá allra bestu í veltivigtinni síðustu 10 ár. Aldursmunurinn gæti þó verið stærsta breytan í þessum bardaga en það munar 13 árum á þeim tveimur.
Í síðustu þremur bardögum hefur Gilbert Burns mætt núverandi meistara, fráfarandi meistara og fyrsta titiláskorenda. Gilbert Burns hefur einnig farið í stríð við menn á borð við Khamzat Chimaev og auðvitað Gunnar Nelson. Michael Morales á þessar stóru stundir eftir og er Burns í raun fyrsti stóri bardaginn hans á ferlinum og gæti Morales með sigri tekið áttunda sæti styrkleikalistans af Burns en Morales situr fyrir þennan bardaga í því tólfta.

Aðrir þekktir bardagamenn á kortinu eru t.d. Paul Craig sem mætir Rodolfo Bellato en veðbankar telja Bellato svipað sigurstranglegan gegn Craig eins og Morales þykir gegn Burns. Þó bardagakvöldið sé haldið í Apex-inu í Las Vegas er það á ágætis tíma fyrir okkur Íslendinga. Prelims kortið hefst kl 20.00 og aðal kortið kl. 23.00.