Thursday, April 25, 2024
HomeErlentVerður fluguvigtin í UFC lögð niður?

Verður fluguvigtin í UFC lögð niður?

Sá háværi orðrómur er nú á kreiki að UFC ætli að leggja niður 125 punda fluguvigtina. Jose Torres var nýlega látinn fara frá UFC en hann heldur því fram að þyngdarflokkurinn verði lagður niður í UFC.

FloCombat hélt því fram á dögunum að UFC ætli sér að losa sig við fluguvigtina.

Jose Torres, 1-1 í fluguvigt UFC, greindi frá því í vikunni að samningi hans við UFC hefði verið rift og það sama gerði Jarred Brooks. Torres segir að UFC muni leggja niður fluguvigtina og hann sé einn af þeim fyrstu til að fara.

Nokkrum bardagamönnum (aðallega þeir sem unnu sinn síðasta bardaga) verður boðið að fara upp í 135 punda bantamvigt á meðan öðrum verður sagt upp. Staðfest er að UFC er klárlega að fækka bardagamönnum sínum í fluguvigtinni en óljóst er hvort þyngdarflokkurinn lifi áfram í UFC.

Samkvæmt heimildum MMA Junkie mun UFC losa sig við þyngdarflokkinn. Henry Cejudo er ríkjandi meistari í fluguvigt eftir sigur á Demetrious Johnson í ágúst. Cejudo mun að öllum líkindum skora á bantamvigtarmeistarann T.J. Dillashaw í sínum næsta bardaga í stað þess að verja beltið í fyrsta sinn.

Fyrsti fluguvigtarmeistari UFC, Demetrious Johnson, er svo farinn til ONE Championship í Asíu en Johnson var í opinberum ágreiningi við UFC í fyrra þar sem bardagasamtökin hótuðu því að leggja þyngdarflokkinn niður. UFC hefur átt í erfiðleikum með að búa til áhuga á fluguvigtinni frá því flokkurinn kom fyrst í UFC árið 2012.

Conor McGregor blandaði sér óvænt í málið og kenndi græðgi ONE Championship um lokun fluguvigtarinnar. Conor vill meina að Chatri Sityodtong, forseti ONE, eigi að semja við alla þá fluguvigtarmenn sem verða látnir fara frá UFC.

Eins og áður segir er ekkert í þessu staðfest og hugsanlega er UFC einungis að minnka fluguvigtina. Önnur bardagasamtök eins og ONE Championship, Brave FC, BAMMA og Rizin FF eru enn með 125 punda þyngdarflokka.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular