Fimmta Lotan, hlaðvarp MMA Frétta, hélt úti hlustendakosningu um það helsta og það besta úr bardagaheiminum á árinu. Kosið var í ýmsum flokkum, meðal annars erlendir UFC bardagamenn og íslenskir keppendur. Kosningin var virkilega vinsæl og margar tilnefningar komu í gegnum Instagram-reikning Fimmtu Lotunnar.
MMA Rothögg Ársins: Arnar Bjarnason vs. Robin Kristiansen á Glacier Fight Night (overhand hægri)
Það trylltust allir í húsinu þegar Arnar Bjarnason lenti sínum “pabba power hægri” beint á pönnuna á andstæðingi sínum og fylgdi eftir með nokkrum ofurnauðsynlegum höggum í gólfinu. Þetta var nánast fullkomið högg, einfalt en árangursríkt, og greinilegt að Addi Bjarna býr yfir miklum krafti í höndunum sínum. Arnar Bjarnason hafði líklega séð fyrir sér að glíma andstæðing sinn í þessum bardaga því Robin Kristiansen er aðallega striker en eitt hreint högg var nóg til að slökkva öll ljós hjá Norðmanninum.
Honourable mention: Aron Franz Kristjánsson vs. Ben Aris á Combat Night St. Pete í Florida (spinning wheel kick)
Það er eiginlega ótrúlegt að þetta rothögg hafi ekki fengið viðurkenninguna fyrir rothögg ársins en Aron Franz var einn úti í Florida og dómnefnd Fimmtu Lotunnar mat svo að augnablikið, þegar fyrsta rothögg í sögu MMA á Íslandi kom fyrir fullu húsi í Andrew´s Theater í Keflavík, hafi vegið þyngra. Það má þó ekki líta framhjá hversu stórt augnablikið var fyrir Aron Franz en hann fer einn út í sinn fyrsta atvinnumannabardaga gegn heimamanni, sem var líka að þreyta frumraun sína sem atvinnumaður, en hafði átt góðan enda á áhugamannaferli sínum innan Combat Night samtakanna og var á fjögurra bardaga sigurgöngu.
MMA Uppgjafartak Ársins: Ari Biering vs. Ash Shemeld á Caged Steel 39 (triangle)
29. mars 2025 steig yngsti íslenski bardagamaður sögunnar, Ari Bieiring, inn í búrið á Caged Steel 39. Ari var aðeins 17 ára gamall á þeim tímapunkti, endaði svo árið með 3 bardaga og var einnig kosinn nýliði ársins. Ari vann þennan fyrsta bardaga gegn Ash Shemeld, rígfullorðnum manni, og þurfti að hafa nokkuð mikið fyrir sigrinum. Ari át nokkur þung högg frá andstæðingi sínum áður en honum tókst að taka bardagann í gólfið. Ari festir Shemeld í triangle en Shemeld lyftir Ara upp og skellir honum niður. Shemeld nær að losa sig en Ari hendir upp öðrum þríhyrningi sem Shemeld nær ekki að losa sig úr og á endanum missir hann meðvitund.
Honourable mention: Hekla María Friðriksdóttir vs. Nicole Gomez á Glacier Fight Night (rear naked choke)
Fyrsti íslenski kvenmaðurinn til að berjast og sigra á íslenskri grundu var hún Hekla María Friðriksdóttir og náði hún sér í leiðinni í fyrsta uppgjafartaki í sögu MMA á Íslandi þegar hún kláraði Nicole Gomez í fyrstu lotu. Táknrænt augnablik sem mun eflaust lifa lengi í minningu viðstaddra.
Hnefaleika Rothögg Ársins: Kolbeinn Kristinsson vs. Pedro Martinez (víð hægri í kvið)
Það voru ekki mörg rothögg á árinu í hnefaleikum en Kolbeinn Kristinsson hefur eflaust verið mjög ánægður með sitt rothögg gegn Pedro Martinez en margir andstæðingar í röð hafa gefist upp á stólnum milli lotna. Kolli náði að framkvæma það sem hann hafði verið að æfa en hann rifbeinsbraut Martinez með nákvæmlega sama hægri króknum og hann hafði rifbeinsbrotið Tind Jónsson æfingafélaga sinn með í síðasta sparrinu, eins og sást í “Leiðinni að búrinu” þættinum sem MMA Fréttir gáfu út í aðdraganda bardagans. Kolli er núna 19-0 sem atvinnumaður og verður mjög spennandi að fylgjast með hvað gerist næst á hans ferli og má vænta þess að 2026 verði risastórt fyrir okkar fremsta atvinnumann í sportinu.
Honourable mention: Arnar Jaki Smárason vs. Alex Ederström á King of the Ring (overhand hægri)
Það er ekki mikið um hrein rothögg í ólympískum hnefaleikum og reyna dómarar ávallt að vernda boxarana og skerast í leikinn snemma ef þeir sjá stefna í slíkt, sértaklega meðal ungmenna. Arnar Jaki náði þessum TKO sigri í fyrstu lotu á King of the Ring og fékk næst flest atkvæði frá hlustendum.
Jiu-Jitsu Uppgjafartak Ársins: Stefán Fannar á RVK Open (flying triangle)
Stefán Fannar var kosinn glímumaður ársins og tók einnig kosninguna um uppgjafartak ársins fyrir flying triangle gegn Marek Gorczyca á RVK Open. Það er erfitt að vinna ekki uppgjafartak ársins fyrir flying triangle en Breki Harðar fékk viðurkenninguna í fyrra fyrir nákvæmlega það sama. Stebbi Fannar er þekktur fyrir fótalásana sína en greinilegt að hann hefur ýmislegt annað í vopnabúrinu. Stefán átti rosalega gott ár og sópaði að sér verðlaunum.
Árið var gert upp í Áramótaannál Fimmtu Lotunnar sem má nálgast á Spotify og YouTube:
