Home Innlent Þessar voru bestar á árinu

Þessar voru bestar á árinu

0

Fimmta Lotan, hlaðvarp MMA Frétta, hélt úti hlustendakosningu um það helsta og það besta úr bardagaheiminum á árinu. Kosið var í ýmsum flokkum, meðal annars erlendir UFC bardagamenn og íslenskir keppendur. Kosningin var virkilega vinsæl og margar tilnefningar komu í gegnum Instagram-reikning Fimmtu Lotunnar. Í kvennaflokkum voru það Hekla María Friðriksdóttir (RVKMMA), Hildur Kristín Loftsdóttir (HFH) og Lili Racz (Mjölnir) sem þóttu bestar í sínum greinum árið 2025.

Hekla María Friðriksdóttir – kláraði alla andstæðinga sína með uppgjafartaki

Hekla María Friðriksdóttir hefur komið eins og stormsveipur inn í íslensku MMA senuna en hún hóf áhugamannaferil sinn í mars á Caged Steel þar sem hún sigraði Paulette Spencer með armbar í fyrstu lotu. Hekla hélt uppteknum hætti og kláraði alla þrjá andstæðinga sína á árinu með uppgjafartaki og endar árið með 3 bardaga, 3 sigra og 100% finishing hlutfall. Hekla er eini íslenski kvenmaðurinn sem er virkur keppandi í MMA þannig valið á bardagakonu ársins var ekki erfitt þetta árið.

Hekla sneri aftur í búrið fyrir sinn annan bardaga í september en þá mætti hún Nicole Vernon á UK Fighting Championship í Preston, Englandi. Nicole Vernon reyndist mun betri andstæðingur en margir áttu von á og gaf Heklu fyrstu alvöru mótspyrnuna á ferlinum eftir algjöra yfirburði í fyrsta bardaganum. Vernon er góður striker og Hekla kynntist því en Hekla hafði yfirburði í glímunni sem hún náði að nýta sér og var á góðri leið með að sigla sigrinum heim á dómaraákvörðun þegar hún fer í armbar tilraun í blálokin og klárar bardagann með aðeins þrjár sekúndur eftir á klukkunni.

Hekla endaði svo árið með afar sterkri frammistöðu gegn Nicole Gomez á Glacier Fight Night og náði þar í fyrsta uppgjafartakssigur í MMA á Íslandi. Það tók Heklu ekki nema rúma mínútu að klára Gomez með rear naked choke uppgjafartaki, táknrætt augnablik sem hafði mikla þýðingu fyrir sögu blandaðra bardagalista á Íslandi. Fyrsta uppgjafartak í sögunni og fyrsti íslenski kvenmaðurinn til að berjast og sigra á Íslenskri grundu. Þrátt fyrir að Gomez hafi lent góðum höggum í byrjun bardagans tók Hekla hana niður nokkuð auðveldlega og þegar í gólfið var komið var greinilegt að Hekla hafði gífurlega yfirburði og var ekki lengi að tryggja sigurinn.

Hekla barðist ekki einungis í búrinu á þessu ári heldur glímdi líka á Jiu-Jitsu mottunni og sótti m.a. silfurverðlaun á ADCC Trials í Varsjá, Póllandi sem fram fór í september. Hún sigraði fyrri glímuna sína á uppgjafartaki í fyrstu lotu en tapaði úrslitaglímunni á sama máta.

Hekla er strax búin að bóka næsta MMA bardaga en það var tilkynnt skömmu fyrir jól að hún mun mæta heimakonunni Louise Brady fyrir bantamvigtartitil kvenna hjá Elite Fighting Championship 7. febrúar í Cork, Írlandi.

Hildur Kristín Loftsdóttir – mögulega besta ár allra tíma hjá íslenskri hnefaleikakonu

Hildur Kristín Loftsdóttir átti rosalegt ár og var erfitt að keppa við hennar árangur. Hildur fór á Golden Girl þar sem hún sigraði Guzlander sem er með yfir 100 bardaga undir beltinu og tapaði svo naumlega í úrslitum gegn Mariu Elenu Evram sem er með 120+ bardaga.

Eftir það fór Hildur á Romerikke Open þar sem hún mætti og sigraði Anne Line Hofstad sem er fyrrum Muay Thai heimsmeistari sem keppti í One Championship þar sem hún sat í öðru sæti styrkleikalista síns þyngdarflokks. Anne Line er núna 1-0 sem atvinnuboxari en þurfti að sætta sig við annað sæti á meðan Hildur hreppti gullið.
Hildi bauðst svo að hoppa í annan flokk þar sem hún mætti og sigraði með afgerandi hætti Didriku Kaur, landsliðskonu Noregs sem mætti Eriku Nótt á Icebox árinu áður, og tók því tvöfalt gull heim af mótinu.

Hildur keppti svo á afmælismóti HFH í október á móti Mariam frá HFR og sigraði þá viðureign. Hildur hélt svo út til Noregs undir lok árs en andstæðingur hennar dróg sig úr keppni þannig hún fékk bara sparr lotur útur þeirri ferð.

Hildur var einnig valin Hnefaleikakona ársins af Hnefaleikasambandi Íslands.

Lili Racz – Íslandsmeistari, landsliðsverkefni fyrir Ungverjaland og mikil ferðalög

Það var erfitt að velja eina ákveðna konu sem átti afgerandi betra ár en allar hinar til að veita viðurkenninguna Glímukona ársins og dreifðust tilnefningar hlustenda jafnt á Heklu Maríu Friðrikdóttur, Sigurdísi Helgadóttur og Kolku B. Hjaltadóttur. Þáttarstjórnendur tilnefndu sjálfir Lili Racz sem hefur kannski ekki stóran aðdáendahóp hér heima fyrir en Lili kemur frá Ungverlandi og var búsett hér á landi þar til nýlega. Dómnefnd Fimmtu Lotunnar ákvað að gefa þetta til hennar og hefur orðið mikið umtal í kringum þá ákvörðun eftir harkalega gagnrýni frá Gelluglímunni sem sökuðu Fimmtu Lotuna og MMA Fréttir um veita konum ekki jafna athygli.

Lili byrjaði glímuárið sitt í heimlandinu á Budapest Brawls í febrúar þar sem hún sigraði eina glímu með uppgjafartaki og aðra á dómaraákvörðun fyrir fljótari escape tíma.

Í mars fór hún bæði á Kaizen League Amsterdam Open þar sem hún sótti gull í sínum flokki (fjólublátt -61,5kg) eftir tvo sigra á stigum og keppti einnig til að vinna sér inn sæti í Ungverska landsliðhópnum. Lili sigraði báðar glímurnar sínar á því móti, eina með uppgjafartaki og hina á stigum.

Í apríl hélt hún til Brno í Tékklandi og keppti á Tatami Invitational þar sem hún sigraði sína einu glímu á stigum.

Í maí var komið að Íslandsmeistaramótinu í Nogi þar sem Lili sigraði sinn flokk (fjólublátt, brúnt og svart -65kg) en þar hafði hún betur gegn bæði Kristínu Marsibil Sigurðardóttur frá Atlantic og Álfrúnu Cortez Ólafsdóttur frá Mjölni.

Í október keppti Lili fyrir hönd Ungverjalands á UWW World Championship þar sem henni tókst ekki að sækja sigur en hún hafði lent í krossbandsmeiðslum fjórum vikum fyrir keppni sem hafði líklega einhver áhrif á frammistöðu hennar.

Lili flutti af Íslandi undir lok árs og hélt til Suður-Ameríku þar sem hún vinnur í hjálparstarfi og kennir Jiu-Jitsu. Hún keppti á AJP Peru Grand Prix í höfðbörginni Lima í nóvember þar sem hún sigraði eina glímu en tapaði svo í úrslitum og fékk silfurverðlaun.

Rosalegt ár og rosaleg virkni frá glímukonu ársins og auk þess fær hún aukastig frá dómnefnd Fimmtu Lotunnar fyrir hjálparstarfið sem hún er að vinna í Suður-Ameríku þar sem hún vinnur með börnum sem lifa við mikla fátækt og hafa jafnvel ekki aðgang að hreinu vatni.

NO COMMENTS

Leave a ReplyCancel reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Exit mobile version