Hekla Friðriksdóttir var hreint óstöðvandi á liðnu ári en hún fékk loksins bardaga eftir eins og hálfs árs bið í febrúar í fyrra. Hekla sigraði þá Paulette Spencer með glæsilegum armbar í fyrstu lotu. Hekla hélt áfram sigurgöngunni og lauk árinu með 3 sigra og engin töp. Hekla var svo valin bardagakona ársins í Fimmtu Lotunni, hlaðvarpi MMA Frétta.
Eftir þriðja sigurinn sinn á liðnu ári dró Hekla að sér mikla athygli í kjölfarið. Hán stefnir nú á titilbardaga í febrúar og mun hán mæta heimakonunni Louise Brady í Írlandi á Elite Fighting Championship-bardagakvöldinu. Bardaginn verður upp á Bantamvigtar og yrði besti árangur kvenna í áhugamanna MMA síðan að Sunna Tsunami varð Evrópumeistari 2015.
Louise „The Banshee“ Brady er 4 – 2 sem áhugamaður í MMA og hefur barist á Elite Fighting Championship þrisvar sinnum áður. Louise er því á algjörum heimavelli og með stuðning frá landi og þjóð. Það má búast við því að Brady verði erfiðasti andstæðingurinn sem Hekla hefur mætt á ferlinum enda reynslan og getan hennar Brady mikil. Brady varð Írlandsmeistari í MMA í desember 2021 og hefur haldið áfram að bæta sig síðan þá. Louise tapaði síðasta bardaganum sínum, þá gegn Shona McGrath. Þær áttu svo að mætast í titlabardaga á EFC 6 en bardaginn féll upp fyrir. Louise er nú að gera aðra atlögu að beltinu en í þetta skiptið gegn Heklu Friðrikdóttur á EFC 7.
Þeir sem fylgjast með Heklu á Instagram hafa séð að Hekla hefur verið dugleg að æfa yfir hátíðarnar enda var opinberlega tilkynnt um bardagann þann 22. desember. Eflaust snemmbúin jólagjöf í augum Heklu.
MMA Fréttir munu fylgjast með Heklu í aðdragandanum að bardaganum og skipuleggja áhorfsteiti þegar Hekla stígur inn í búrið.
