Steinar Bergsson mætti Svíanum Viggo Axelsson í úrslitaviðureigninni á Nordic Championship í kvöld. Steinar þurfti aðeins að hafa fyrir þessu en kláraði bardagann sinn með glæsibrag í fyrstu lotu.
Í upphafi bardagans gekk Axelsson vel gegn Steinari. Hann sá um að halda pressunni og lenti nokkrum fínum höggum. Steinar svaraði alltaf fyrir sig og sást snemma að hann var í raun betri strikerinn í búrinu þó að höggin hans væru ekki að finna skotmarkið í byrjun. Bestu tilburðir Steinars komu úr southpaw stöðu. Steinar lenti svakalega flottu outside leg kick og stimplaði sig inn í bardagann og byrjaði að byggja upp smá móment. Þegar um 2 mínútur voru búnar af bardaganum lenti Steinar í svaðalegum hægri krók úr southpaw sem vankaði Axelsson svakalega. Steinar nýtti sér augnablikið og pressaði á Axelsson sem hafnaði í gólfinu og varð dómarinn að stíga inn í og stöðva bardagann áður en sá sænski hlaut of mikinn skaða frá höggunum hans Steinars sem dundu yfir andstæðinginn.
Steinar varð þar með Norðurlandameistari sem er flott fjöður í hattinn hjá virkilega flottum og duglegum bardagamanni sem mun eflaust gera vel í náinni framtíð.
