Það stóð til að Emin Kadri Eminsson myndi berjast sinn þriðja atvinnumannabardaga í Guadalajara, Mexíkó á morgun (laugardaginn 5. apríl) en andstæðingur hans hefur dregið sig úr keppni með litlum sem engum fyrirvara og því þarf Emin að bíða fram á haust vegna þess að Visa leyfi hans í Bandaríkjunum er að renna út.
Emin Kadri barðist síðast undir lok febrúar þegar hann sigraði annan atvinnumannabardaga sinn með afgerandi hætti og setti metið sitt sem atvinnumaður í 2-0. Það stóð til að taka einn eða jafnvel tvo bardaga í viðbót í þessari Ameríkuferð hans en hann mun koma heim í næstu viku án þess að hafa barist aftur eins og hann hefði viljað. Hann má aðeins dvelja í Bandaríkjunum í 3 mánuði í senn og er sá tími alveg að renna út og því verður hann að snúa aftur heim til Íslands.
Emin átti bókað flug til Guadalajara í gær (fimmtudag) en fékk fréttirnar um morguninn að andstæðingur hans væri hættur við. Óheppnin hefur aðeins elt Emin undanfarið en hann var einnig að skoða tvær aðrar dagsetningar í mars sem hann þurfti að sleppa vegna þess að hann veiktist illa stuttu eftir síðasta bardaga. Emin var rúmliggjandi og gat varla hreyft sig að eigin sögn og þessi bardagi var m.a.s. í hættu líka vegna veikindanna en hann ákvað að kýla á það til þess að ná a.m.k. einum bardaga í viðbót í þessari þriggja mánaða Ameríkuferð en lendir þá í þessu óhappi að andstæðingur hans dregur sig úr keppni.
Emin hljómaði þó bara brattur í samtali við MMA Fréttir og sagði: “Hvað getur maður gert? – Svona hlutir gerast bara”. Hann segist ætla aftur út til Las Vegas eftir sumarið og vonandi ná inn 4 bardögum áður en árinu lýkur til að bæta upp fyrir óheppnina í þessari ferð en hann er einnig að vinna í Visa umsókn til að geta dvalið lengur í Bandaríkjunum.
Hér fyrir neðan má sjá myndefni úr síðasta bardaga Emins klippt við brot úr þætti Fimmtu Lotunnar þar sem Steinar Thors og Ísak Guðnason ræddu um Emin og bardagann í febrúar: