Justin Gaethje tryggði sér bráðabirgðameistaratitilinn í léttvigt eftir ótrúlegt fimm lotu stríð gegn Paddy Pimblett í nótt. Bardaginn stóð undir öllum væntingum og mun líklega vera í umræðunni fyrir bardaga ársins.
Gaethje byrjaði af krafti og pressaði stöðugt að Pimblett. Það leit út fyrir að Gaethje vildi klára þetta snemma. Paddy svaraði þó fyrir sig með góðum höggum og var ekki hræddur við að standa fyrir framan Gaethje. Það kom eflaust mörgum á óvart að Paddy skaut ekki í fellu fyrr en seint í bardaganum en hans leið að öruggasta sigrinum lá líklega þar.
Gaethje sló Paddy niður í gólfið strax í fyrstu lotu og lenti góðum höggum í gólfinu. Paddy komst þó á lappir og gerði vel í að lenda höggum á Gaethje en höggin frá Gaethje virkuðu alltaf þyngri og ollu meiri skaða. Undir lok annarar lotu nær Gaethje að valda Paddy miklum skaða eftir að hafa slegið hann niður en í endursýningunni sést að þumalinn á Gaethje fer í augað á Paddy. Paddy hefði átt að fá fimm mínútur til að jafna sig og stig hefði átt að vera dregið af Gaethje því hann hafði áður fengið aðvörun fyrir augnpot í fyrstu lotu. Í staðinn varð Paddy fyrir miklum skaða og virkaði vankaður á stólnum eftir lotuna.
Paddy kom hinsvegar sterkur tilbaka, vinnur þriðju lotu sannfærandi og lét Gaethje vita af því þegar hún kláraðist. Paddy virtist ákveðin í því að skjóta ekki í fellu heldur standa og skiptast á höggum við Gaethje. Dýnamíkin snerist svo aftur við og átti Gaethje mjög sterka fjórðu lotu. Gaethje lét reyna á hökuna hans Paddy í gegnum allan þennan bardaga sem sýndi mikið hjarta í gegnum allt mótlætið. Paddy kemur svo aftur sterkur tilbaka í fimmtu og loka lotunni og nær að sannfæra einn dómara, Mike Bell, um að hann hafi unnið hana.

Með sigrinum er Justin Gaethje orðinn bráðabirgðameistari í léttvigt og setur sig í beina stöðu til að berjast næst um óumdeilda beltið gegn Ilia Topuria. Þó Paddy hafi tapað hafa hlutabréfin hans alls ekkert lækkað í verði og verður gaman að sjá hvaða bardaga hann fær næst.





