Hákon Örn Arnórsson opnaði bardagakvöld Cage Steel með látum rétt í þessu en hann þurfti aðeins um hálfa mínútu til að stöðva andstæðing sinn. Hákon kom vel stemmdur inn í búrið, var mjög einbeittur á svipinn og þessi annars ljúfi drengur var tilbúinn í stríð. Lotan byrjaði og Hákon var fljótur að eigna sér miðjuna á búrinu og andstæðingur hans var kominn með bakið upp að búrinu. Þá tók Hákon vel tímasett högg og kláraði bardagann, þetta tók innan við hálfa mínútu, virkilega vel gert hjá okkar manni.
Cage Steel-bardagakvöldið byrjar vel og enn eru þrír bardagamenn frá Íslandi eftir að keppa og má reikna með fleiri rothöggum hjá okkar mönnum áður en kvöldið er úti.
Bardagann hans Hákonar má sjá í streymi MMA-frétta hér að neðan frá mínútu 5:28.