Oleksandr Usyk og Tyson Fury mættust aftur í gærkvöldi á vel heppnuðu hnefaleikakvöldi í Ríad. Bardaginn var jafn og skemmtilegur allan tímann en lýsendur, aðdáendur og fjölmiðlar eru sammála um að Usyk hafi verið betri og átt sigurinn skilið.
Usyk byrjaði bardagann betur og var duglegur að hreyfa sig og þreyfa fyrir sér með jabbinu í upphafslotunum. Fury átti svo mjög góða þriðju lotu og vann sig betur inn í bardagann með sínu jabbi og meiri fjarlægð. Þeir skiptust mikið á einu höggi gegn einu höggi en Usyk lokaði lotunum oft með flottum fléttum sem tryggðu honum loturnar.
Í níundu lotu opnaðist skurður fyrir ofan hægra augað á Fury sem var farinn að bera meira á sér í andlitinu en Usyk. Usyk hafði upp að því verið með góða stjórn á bardaganum og hélt því áfram þangað til bardaginn kláraðist. Fury virtist örvæntingarfullur í síðustu lotunum en fann ekki leið til að taka yfir bardagann, enda var bensíntankurinn byrjaður að tæmast og Usyk komin með góða stjórn á bardaganum.
DAZN átti ekki góðar stundir í upphafi bardagans og gekk mjög illa að koma streyminu í almennilegt stand. Um leið og bardaginn var að byrja hófust útsendingavandræði sem fóru verulega í taugarnar á áhorfendum sem margir hverjir kröfðust þess að fá kaupin sín endurgreidd.
“Tyson Fury makes me strong. Tyson Fury continues to motivate me, he is a great opponent… A big man, a big boxer. He is a great man. I respect Tyson Fury. It is already history”
Usyk fer inn í árið með öll þrjú stærstu beltin sameinuð um mittið sitt og verður spennandi að sjá hvað tekur við. Þar sem Fury tókst ekki að sækja sigurinn í gærkvöldi fáum við ekki þríleik á milli þessara tveggja frábæru hnefaleikamanna. Usyk sagði eftir bardagann að hann vildi fá að hvíla sig og spá út í næsta andstæðing seinna.