Ronald Bjarki Mánason bætti enn einum gullverðlaununum við safnið sitt þegar hann sigraði Algarve Box Cup í Portúgal um helgina og gera það nú fimm gull á erlendum stórmótum á innan við 9 mánuðum.
Ronald Bjarki Mánason gerði sér lítið fyrir og vann úrslitabardagann sinn á Algarve Box Cup á sunnudeginum gegn írska boxaranum Tommy Fitzpatrick eftir að hafa sigrað frakkann Pablo Serrano á föstudaginn í undanúrslitum.
Tommy er með um 60 bardaga undir beltinu og núverandi írskur meistari með sex gull á alþjóðlegum mótum á ferlinum fyrir Írland.
Ronald Bjarki eða “Ronni” eins og flestir þekkja hann fór inn í bardagann með markmið og það var að mæta Tommy strax en það var viðbúið að hann myndi reyna að setja tóninn snemma gegn okkar manni. Ronni tímasetti gagnhöggin sín fullkomlega strax í byrjun og fylgdi planinu sem var að svara fast og hratt upp og fara svo kringum hann. Þegar leið á bardagann var planið að sækja fyrst sem virkaði mjög vel þar sem það hægðist á Tommy þegar leið á bardagann.
Ronni vann allar loturnar og þar með allar loturnar á mótinu og uppskar aftur einróma 5-0 sigur og fékk mikil hrós að bardaganum loknum, meðal annars frá heimsmeistaranum Charlie Edwards sem er WBC heimsmeistari í atvinnumennsku og rankaður númer 8 í heiminum. Edwards var að horfa á mótið og gekk upp að Ronna af fyrra bragði og hrósaði honum fyrir frábæra fótavinnu og skarpa tækni sem verður að teljast vel metið.

Það voru síðan heldur betur alvöru aðstoðarmenn í horninu með Davíð Rúnari þjálfara Ronna en það voru engir aðrir en John Warburton sem var lengi vel yfirþjálfari enska landsliðsins í ólympískum hnefaleikum og átti stóran þátt í stórmedalíum Amir Khan og McCormack bræðranna og fjölmargra annarra. Warburton er nýhættur með landslið Indlands og nýtekin við yfirþjálfun Belgíska landsliðinu. Með þeim var einnig Chaz “Chazza” Collins sem er búinn að hasla sér völl í atvinnumensku í Englandi og virkilega reyndur á öllum sviðum hnefaleika þar í landi.

MMA Fréttir náðu tali af Ronaldi Bjarka eftir mótið sem sagði að honum hefði fundist Frakkinn í undanúrslitunum erfiðari andstæðingur. Hann var: “voða langur og óþægilegur.. svo það tók mig eina lotu að finna út úr þessu en svo var þetta bara smooth sailing easy önnur og þriðja.”
Ronald sagði að Írinn í úrslitunum hafði verið þægilegri og hentað sér betur en sagði þó hann væri: “eflaust levels above Frakkann” en honum leið bara mun betur í hringnum með honum og sagðist hafa strax komist í “flow” í fyrstu lotu. Ronald sagði að Írinn hafi verið: “Mjög, mjög góður boxari en ég var bara mjög on í dag og fann mig strax frá byrjun.”





